Hoppa yfir valmynd

Kvikmyndastefna 2020-2030

„Íslenskri kvikmyndagerð hefur fleygt fram og er nú í hæsta gæðaflokki. Hún hjálpar okkur að efla og varðveita tungumálið, spegla samtímann og gera menningarfinum skil. Hún skapar verðmæti fyrir ríkissjóð, skapar þúsundir beinna og afleiddra starfa og nýtur alþjóðlegrar virðingar.

Listrænt framlag kvikmyndagerðafólks er ómælt og mér er bæði ljúft og skylt að styðja greinina með öllum ráðum.“

Lilja D. Alfreðsdóttir, menninga- og viðskiptaáðherra

Sækja kvikmyndastefnuna
Sendu okkur tölvupóst á [email protected] ef þú vilt fá prentað eintak

Listgrein á tímamótum

Vorið 2019 skipaði Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, verkefnahóp með fulltrúum stjórnvalda og atvinnulífs til að móta heildstæða stefnu fyrir kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu á Íslandi, sem gilda á til ársins 2030. Markmið stefnunnar er að íslensk kvikmyndagerð megi blómstra og dafna á komandi áratug. Henni er ætlað að styrkja íslenska menningu og tungu og sjálfsmynd þjóðarinnar, efla atvinnulífið og stuðla að sterku orðspori Íslands. Verkefnahópnum var falið að semja aðgerðaáætlun á grunni stefnunnar sem næði yfir kvikmyndamenningu, kvikmyndamenntun, þróun og framleiðslu kvikmyndaefnis og alþjóðlega kynningu og tökustaðinn Ísland. Þess var óskað að hópurinn skoðaði sérstaklega stofnana- og stuðningskerfi kvikmyndagerðar með tilliti til einföldunar og eflingar, en jafnframt hvernig kvikmyndagerð gæti stutt við markmið Íslands á sviði sjálfbærni.

Mynd 1Í takt við róttækar breytingar á samfélögum heimsins, sem gjarna eru kenndar við fjórðu iðnbyltinguna, er kallað eftir því að fjölbreyttari stoðum verði skotið undir íslenskt atvinnulíf með áherslu á greinar sem byggjast á hugviti, hátækni, sköpun og sjálfbærum lausnum. Ekki fer milli mála að kvikmyndagerð fellur að öllu leyti að þessari skilgreiningu, enda er hún ört vaxandi list- og iðngrein sem hefur alla burði til að styðja við verðmætasköpun og samkeppnishæfni þjóðarbúsins á næstu árum og áratugum. Þannig kallast kvikmyndastefnan á við markmið stjórnvalda um að efla skapandi atvinnugreinar.

Kvikmyndagerð hefur verið áberandi í íslensku menningar- og atvinnulífi undanfarinn áratug og velta greinarinnar hefur þrefaldast á þeim tíma. Lög og reglugerðir hafa ekki að geyma skýr ákvæði um hlutverkið sem kvikmyndagerð er ætlað að gegna í menningarlegu, samfélagslegu og efnahagslegu tilliti og með hvaða hætti hið opinbera hyggst styðja við frekari framþróun og vöxt greinarinnar. Það er ekki síst í þessu ljósi sem stjórnvöld ákváðu, að tillögu og undir forystu mennta- og menningarmálaráðherra, að ráðast í fyrstu heildstæðu stefnumótunina á sviði kvikmyndamála. Sú ákvörðun er til marks um skilning og viðurkenningu stjórnvalda á vaxandi hlutverki menningar, lista og skapandi greina á Íslandi.

Framkvæmdin var þríþætt. Í fyrsta lagi lagði hópurinn áherslu á að hlusta. Fundir voru haldnir með helstu hagaðilum á sviði kvikmyndamála. Þegar fyrstu drög að markmiðum og aðgerðum lágu fyrir var send út samráðskönnun til 500 aðila í kvikmyndagerð. Svarhlutfall var um 50% og bárust góðar ábendingar og hugmyndir sem styrktu stefnumótunina. Verkefnahópurinn átti reglulega fundi með mennta- og menningarmálaráðherra sem og sérfræðingum stjórnsýslu og stofnana. Í öðru lagi var ráðist í greiningu. Farið var yfir löggjöf, stefnur, skýrslur og fræðilegt efni, innlent og erlent. Meðal annars var horft til stefnu sem þegar hefur verið mótuð eða er í deiglunni á sviði menningar- og menntamála, fjórðu iðnbyltingarinnar, nýsköpunar- og byggðamála og markaðssetningar Íslands erlendis. Áhersla var lögð á að greina kvikmyndagerð sem atvinnugrein og í stefnuskjali er stuðst við nýlega tölfræðiúttekt Hagstofu Íslands. Í þriðja lagi var ályktað og grunnur lagður að stefnuskjali. Fjögur markmið voru skilgreind og undir þeim tíu aðgerðir sem eiga að tryggja markvissa framvindu og fjármögnun framtíðarsýnar Íslands á sviði kvikmyndamála til næstu tíu ára.

Stefnunni fylgja viðaukar, en í þeim er samantekt sem ber heitið Kvikmyndagerð í víðu samhengi, yfirlit yfir fulltrúa í verkefnahópnum og ýmis gögn sem gefa fyllri mynd af stefnumótunarvinnunni á síðustu misserum.

Efni til niðurhals:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta