Tónlist
Hljóðritasjóður
Hlutverk hljóðritasjóðs er að efla íslenska hljóðritagerð í tónlist með fjárhagslegum stuðningi við útgáfu hljóðrita. Íslensk hljóðrit eru hljóðrit sem unnin eru og kostuð af íslenskum aðilum eða er samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila. Hljóðritasjóður veitir styrki til hljóðritunar nýrrar, frumsamdrar tónlistar sem stuðla á að nýsköpun. Ráðherra úthlutar styrkjum úr hljóðritasjóði að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins. Umsýsla hljóðritasjóðs er hjá Rannís.
Sinfóníuhljómsveit Íslands
Starf Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem stofnuð var árið 1950, á að miða að því að auðga tónmenningu Íslendinga, efla áhuga og þekkingu á æðri tónlist. Hún á að gefa landsmönnum kost á að njóta góðrar tónlistar, m.a. með tónleikahaldi sem víðast um landið og með tónlistarflutningi í útvarp. Sérstök áhersla skal lögð á flutning og kynningu íslenskrar tónlistar. Í öllu starfi hljómsveitarinnar skal kappkosta að hafa sem best samstarf við þá aðila sem vinna að skyldum markmiðum.
Tónlistarráð og tónlistarsjóður
Hlutverk tónlistarráðs er að gera tillögur til ráðherra um úthlutanir styrkja úr tónlistarsjóði og vera honum til ráðgjafar um tónlistarmálefni. Hlutverk tónlistarsjóðs er að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslensku tónlistarfólki og tónsköpun þess. Veittir eru styrkir til almennrar tónlistarstarfsemi og til kynningar og markaðsetningar á tónlist og tónlistarfólki. Styrkir úr Tónlistarsjóði skulu veittir til ákveðinna verkefna og að jafnaði ekki lengur en til eins árs í senn. Umsýsla tónlistarsjóðs er hjá Rannís.
Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar
Samkvæmt reglum um Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar er hlutverk hans að styrkja íslenskt tónlistarfólk við að koma tónlist sinni til stærri áheyrendahóps, á stærri markaði og auka möguleika á velgengni utan Íslands. Sjóðurinn veitir mánaðarlega ferðastyrki og ársfjórðungslega verkefnastyrki. Umsýsla sjóðsins er hjá Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar.
Önnur verkefni á sviði tónlistar
Íslensk tónverkamiðstöð
Íslensk tónskáld standa að Íslenskri tónverkamiðstöð, sem fær árlegt rekstarframlag samkvæmt samningi við ráðuneytið til þriggja ára í senn. Meginmarkmið starfsemi hennar er að halda til haga og skrá íslenska samtímatónlist og kynna hérlendis sem og erlendis. Tónverkamiðstöðin miðlar einnig upplýsingum um íslenska tónlist, tónskáld og tónlistarlíf.
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands nýtur rekstrarstyrks samkvæmt samningi við Akureyrarbæ um fjárframlög til menningarstarfsemi þar í bæ. Samkvæmt honum leggur Akureyrarbær einnig fram fé til starfsemi hljómsveitarinnar. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur aðsetur í Hofi á Akureyri.
Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar
Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) var sett á laggirnar á árinu 2006 af Samtóni með fjárstuðningi frá iðnaðarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og Landsbanka Íslands. Tilgangur skrifstofunnar er að leita tækifæra til að efla og skapa sóknarfærði til handa rétthöfum íslenskrar tónlistar innanlands sem utan. Hún hefur að markmiði að auka möguleika íslenskra fyrirtækja og einstaklinga í tónlistarútrás að ná árangri í alþjóðlegum viðskiptum.
Sjá einnig:
Lög og reglur
Gagnlegt
Talnaefni Hagstofu
Listir
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.