Menningarstefna
Alþingi samþykkti 7. mars 2013 þingsályktunartillögu um menningarstefnu, sem mennta- og menningarmálaráðherra lagði fyrir þingið og var þetta í fyrsta skipti sem samþykkt er sérstök stefna íslenska ríkisins á sviði lista og menningararfs. Stefnan snýr að málefnum lista og menningararfs og aðkomu ríkisins að þeim málaflokkum. Í henni eru fjórir meginþættir lagðir til grundvallar: Í fyrsta lagi sköpun og þátttaka í menningarlífinu, í öðru lagi áhersla á gott aðgengi að listum og menningararfi, í þriðja lagi er undirstrikað mikilvægi samvinnu stjórnvalda við þá fjölmörgu aðila sem starfa á sviði menningar og loks er bent mikilvægi þátttöku barna og ungmenna í menningarlífinu.
Stefnan er sett fram í leiðarljósum stjórnvalda, sem eru sextán talsins og sex köflum með nokkrum markmiðum í hverjum og einum. Kaflarnir heita:
- Menningarþátttaka,
- Lifandi menningarstofnanir,
- Samvinna í menningarmálum,
- Ísland í alþjóðasamhengi,
- Starfsumhverfi í menningarmálum og
- Stafræn menning.
Undirbúningur að mótun stefnunnar átti sér langan aðdraganda og má nefna að árið 2010 efndi ráðuneytið til ráðstefnunnar Menningarlandið þar sem rædd var mótun menningarstefnu, drög að þingsályktunartillögu voru kynnt til samráðs á vef ráðuneytisins sumarið 2012 og einnig leitaði Allsherjar- og menntamálanefnd viðbragða við ályktuninni.
Menningarmál
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.