Hoppa yfir valmynd

Málþing um framtíðarfyrirkomulag útgáfu námsgagna

Mennta- og barnamálaráðuneytið stóð ásamt samstarfsaðilum fyrir málþingi um framtíðarfyrirkomulag útgáfu námsgagna föstudaginn 24. febrúar 2024. Meginumfjöllunarefnið voru leiðir til að auka aðgengi nemenda að vönduðum námsgögnum.

Fjölbreyttur hópur fjölmennti á málþingið og kom sínum sjónarmiðum á framfæri í pallborðsumræðum og málstofum. Málþingið var liður í heildarendurskoðun mennta- og barnamálaráðuneytisins á fyrirkomulagi námsgagnaútgáfu í samræmi við aðgerð 9 í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 um vönduð náms- og kennslugögn fyrir allt menntakerfið. Niðurstöðurnar verða nýttar við endurskoðun á lögum um námsgögn og aðkomu ríkisins.

Skipaður var spretthópur mennta- og barnamálaráðherra í janúar sem vinnur að heildarendurskoðun á útgáfu námsgagna. Markmiðið hópsins er að leggja til aðgerðir sem ákvarða munu framtíðarfyrirkomulag námsgagnaútgáfu í nánu samstarfi við hagaðila. Athygli vakti hve fjölbreyttur hópur hagaðila sótti málþingið.

 

Á málþinginu kynntu frummælendur lærdóm af útgáfu námsgagna á sænska markaðnum annars vegar og hinum finnska hins vegar. Þá kynnti formaður spretthópsins greiningu hópsins á núverandi fyrirkomulagi og ýmsum vanköntum á kerfi sem tekið hefur litlum breytingum um langt skeið.

Upptaka af málþingi fram að málstofum:

Per Korhall, formaður samtaka sænskra námsgagnahöfunda, fór yfir stöðu mála í Svíþjóð og fjallaði um þær áskoranir sem sænskt samfélag hefur staðið frammi fyrir. Fram kom að mikil áhersla á tækniþróun geti þvælst fyrir framgangi og innleiðingu á þann hátt að ofuráhersla á notkun tækni geti leitt til minni áherslu á innihaldið sjálft. Tæknina ætti ekki að innleiða tækninnar vegna heldur nýta þar sem hún raunverulega gerir aukið gagn. Jafnframt sagði hann að kennarar séu bestu gagnrýnendur efnis, því að engra sé hagur að nota námsefni af lakara tagi, síst kennarans.

Frá málstofu um útgáfu námsgagna fyrir grunnskóla

Teemu Lehtonen, einn af framkvæmdastjórum finnska útgáfufyrirtækisins Sanoma, fjallaði um áskoranir í námsgagnaútgáfunni og hvernig finnska kerfið er sett upp. Í Finnlandi rennur 1,5–2% af útgjöldum til menntamála í námsefnisgerð en aðeins 0,4% af kostnaði við grunnskólarekstur á Íslandi fer í gerð námsefnis. Mikilvægast að mati Teemo er að kennari og hver skólastjóri geti valið hvað hentar sínum nemendum því val kennarans er tryggasti gæðastimpillinn á gott efni. Þá sýna rannsóknir fyrirtækisins að kennarar sem nota þeirra efni segjast spara sér um tvær klukkustundir á viku með því að nota vandað námsefni.

Íris E. Gísladóttir, formaður Samtaka menntatæknifyrirtækja og formaður spretthópsins, fór yfir vinnu hópsins og helstu áherslur starfsins ásamt sögulegu ágripi af íslenskri námsgagnaútgáfu. Í máli hennar lagði hún áherslu á mikilvægi þess að hópurinn væri stór og fjölbreyttur með ólíkar skoðanir – það væri styrkur til að ná fram framtíðarfyrirkomulagi sem henti sem flestum.

Kynningar framsögumanna:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta