Aðdragandi
Vinna við menntastefnu til ársins 2030 hófst árið 2015 með víðtæku samstarfi ríkis og sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila skólasamfélagsins um greiningu á framkvæmd stefnu um menntun fyrir alla eða menntun án aðgreiningar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.
Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir (e. European Agency for Special Needs and Inclusion) var í kjölfarið fengin til að gera úttekt á menntakerfinu á Íslandi. Í niðurstöðum miðstöðvarinnar var sérstaklega lögð áhersla á þrjár mikilvægar lyftistangir fyrir þróun menntakerfisins og betri innleiðingu stefnunnar:
- Efna til víðtækrar umræðu meðal þeirra sem vinna að menntamálum í öllum sveitarfélögum, skólum og skólastigum, um hvernig best verði staðið að menntun fyrir alla.
- Ráðast í athugun og endurskoðun á núverandi reglum um ráðstöfun fjármuna með aukna skilvirkni kerfisins og meiri hagkvæmni fyrir augum.
- Efna til umræðna með það að markmiði að ná samkomulagi um lágmarksviðmið um veitta þjónustu sem styður við menntun fyrir alla í öllum skólum.
Í framhaldinu var yfirlýsing hlutaðeigandi stofnana og samtaka undirrituð um samstarf við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi. Boðað var til fræðslufunda á vegum þeirra. Lyftistangirnar þrjár og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru höfð til hliðsjónar, einkum fjórða markmiðið um gæðamenntun fyrir alla. Markmið fundanna var að ná sem flestum að borðinu til að ná breiðri sátt um mótun menntastefnu við þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í mennta- og velferðarmálum.
Um 1.800 þátttakendur tóku þátt í 23 fræðslu- og umræðufundum um allt land um mótun menntastefnu. Niðurstöður fundanna er að finna í skýrslunum Menntun til framtíðar og Menntun fyrir alla – horft fram á veginn.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.