Hoppa yfir valmynd

Erlent samstarf

Á árunum 2018-2020 átti sér stað mikið samráð við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD). Mennta- og menningarmálaráðherra átti fundi með Ángel Gurría framkvæmdastjóra og Andreas Schleicher yfirmanni menntamála í höfuðstöðvum stofnunarinnar í París vorið 2018. Síðar sama ár var skipulagður framhaldsfundur ráðherra með sérfræðingum OECD á sviði menntamála í París. 

Fundað var hér á landi sumarið 2019 og þá um haustið fór ráðherra ásamt helstu hagsmunaaðilum til að ræða mótun menntastefnu Íslands til ársins 2030 við sérfræðinga OECD. 

Í byrjun árs 2020 var skipulögð heimsókn ráðherra ásamt helstu hagsmunaaðilum til Svíþjóðar með það markmiði að kynnast menntaumbótum þar í landi. Skipulagðar voru m.a. heimsóknir í sænsku menntamálastofnunina (Skolverket), námsmatsstofnunina (Skolinspektionen) og í einn grunnskóla.  

Vorið 2020 var leitað eftir formlegu samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) í tengslum við vinnu við menntastefnu en stofnunin veitir margháttar ráðgjöf á sviðum stefnumótunar og eftirfylgni, m.a. í menntamálum. Í samstarfinu fólst meðal annars rýni á þingsályktunartillögu menntastefnunnar og ráðgjöf um innleiðingu út frá matslíkani OECD.  

Haldnir voru reglulegir fundir með OECD, hagaðilum og fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í tengslum við verkefnið og sumarið 2021 kom út skýrslan Menntastefna 2030: Skýrsla OECD um innleiðingu menntastefnu

Skýrslan byggir á matslíkani sem OECD vinnur með þegar stofnunin liðsinnir í verkefnum sem þessum, greiningu á gögnum um Ísland, viðtölum við fulltrúa íslenskra hagaðila og spurningalista sem mennta- og menningarmálaráðuneyti svaraði. Um var að ræða umfangsmikla rýnivinnu sem nýttist vel við mótun fyrstu aðgerðaáætlunar menntastefnunnar og verklag við innleiðingu hennar. 

Í skýrslunni eru jafnframt dregin fram atriði sem hagaðilar lögðu ríka áherslu á í tengslum við innleiðingu menntastefnunnar og dæmi frá öðrum OECD ríkjum.

Að mati OECD eru stoðir og áherslusvið sem stefnumörkunin hvílir á af því tagi sem alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að stuðli að vönduðum menntakerfum með jöfnum tækifærum fyrir alla. Fram kemur einnig að Covid-19-faraldurinn hafi varpað ljósi á mikilvægi þess að huga að vellíðan nemenda á þann hátt sem íslensk stjórnvöld vilja gera. Mikilvægt sé að efla kennarastéttina, auka ýmsa grunnhæfni og færni í tæknigreinum og stefna kerfinu til meiri ábyrgðar. Ýmis áherslusvið menntastefnunnar eru jafnframt þess eðlis að skólayfirvöld í öðrum ríkjum gætu dregið lærdóm af þeim, og má þar nefna vægi list- og verknáms og vísinda og rannsókna. 

Meðal annarra ábendinga OECD  í skýrslunni er umfjöllun um þær áskoranir sem fylgja innleiðingu nýrrar stefnu í menntakerfi sem í grunninn einkennist af lítilli miðstýringu, mikilvægi þess að skýra vel hlutverk og ábyrgðasvið þeirra sem koma að innleiðingu og framkvæmd stefnunnar og hvatning um að geta menntakerfisins til að takast á við breytingar verði aukin í því ferli sem framundan er.

Helstu niðurstöður OECD og ábendingar til íslenskra stjórnvalda fyrir innleiðingu menntastefnunnar eru eftirfarandi: 

  1. Forsendur menntastefnunnar rýndar með raunhæfa framkvæmd stefnunnar fyrir augum:
    a. Framtíðarsýnin verði rökstudd með markvissum hætti og áherslur styðji við framkvæmd hennar.
    b. Megináherslur verði rýndar með væntanlegar aðgerðir í huga. 
    c. Nýting fjárveitinga og mannafla verði skilgreind í samræmi við forgangsröðun áherslusviða.
  2. Huga að samráði við hagaðila á öllum innleiðingartímum stefnunnar:
    a. Könnuð verði ný tilhögun og nálgun við samráð.
    b. Hlutverk og ábyrgðarsvið hagaðila verði skilgreind á gagnsæjan hátt.
    c. Sett verði fram skýr samskipta- og kynningaráætlun fyrir allt tímabilið.
  3. Innleiðing nýrrar menntastefnu sniðin að kerfi með lítilli miðstýringu:
    a. Gerð verði grein fyrir hlutverki stofnana í tengslum við innleiðingu menntastefnunnar. 
    b. Getu menntakerfisins til að takast á við breytingar verði aukin.
    c. Samræmi verði tryggt við aðra stefnumótun stjórnvalda.
  4. Raunhæf innleiðingaráætlun:
    a. Ólíkir þættir innleiðingarinna komi saman með skipulegum hætti. 
    b. Byggð verði upp þekking og árangursmælikvarðar til að meta árangur af innleiðingu. 
    c. Staðið verði að almennri kynningu á menntastefnunni og innleiðingaráætluninni. 
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta