Hoppa yfir valmynd

Alþjóðlegt samstarf

Mennta- og barnamálaráðuneytið annast samskipti við fjölda erlendra stofnana og samtaka á sviði mennta- og barnamála. Markmið samstarfsins er margþætt en mikilvægt er að það styðji við stefnumótunarvinnu ráðuneytisins á hverjum tíma, stuðli að myndun tengslanets á ýmsum sviðum og styðji við innleiðingu samstarfsáætlana Norðurlandaráðs og Evrópusambandsins.

Norrænt samstarf á sviði menntamála

Framtíðarsýn í norrænu samstarfi til ársins 2030 var samþykkt árið 2019. Stefnt er að því að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á árunum fram til 2030.

Samstarfi Norðurlanda á sviði menntunar er stýrt af ráðherranefnd um menntun og rannsóknir. Norræna ráðherranefndin vinnur að mennta- og rannsóknasamstarfi á Norðurlöndum - fyrir börn, ungt fólk og fullorðna. Jafnt með tilliti til hreyfanleika, gæða og pólitískra forgangsatriða. Sjá nánar á vef Norræns samstarfs.

Í gegnum norræna samstarfið gefst tækifæri til að sækja um fjármögnun mennta-, rannsókna- og tungumálasamstarfs á Norðurlöndum.

NordPlus er menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar sem hefur það að markmiði að stuðla að samstarfi og gæðum í menntun á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum. Sjá nánar um NordPlus á vef Rannís.

Nordforsk hefur umsjón með rannsóknum og rannsóknamenntun á Norðurlöndum. Stofnunin skipuleggur samstarfsverkefni og tekur Ísland m.a. þátt í verkefninu Education for Tomorrow.

Norræna barna- og ungmennanefndin, NORDBUK, veitir ráðgjöf og samhæfir allt starf Norrænu ráðherranefndarinnar að málefnum barna og ungmenna. Nefndin vinnur að margvíslegum verkefnum sem eru til þess fallin að efla ungt fólk og norrænt samstarf. NORDBUK veitir styrki til verkefna og æskulýðssamtaka og er umsýsla styrkjaáætlunarinnar hjá Norrænu menningargáttinni.

Norrænir samningar um menntamál og tungumál

  • Samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um aðgang að æðri menntun
  • Viðurkenning á vitnisburði um æðri menntun – Reykjavíkuryfirlýsingin: Norræn yfirlýsing um viðurkenningu á vitnisburði um æðri menntun
  • Samningur um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi: Samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi
  • Tungumálayfirlýsingin: Í Tungumálayfirlýsingunni eru skilgreind áherslusvið sem Norðurlöndin eru sammála um að stefna að í tungumálastarfi heima fyrir.
  • Tungumálasáttmálinn: Samningur milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um rétt norrænna ríkisborgara til að nota eigin tungu í öðru norrænu landi.

Evrópusamstarf

Aðild Íslands að EES-samningnum veitir rétt til þátttöku í margvíslegu samstarfi á sviði menntamála við ríki innan ESB, EFTA ríkin og ríki sem hafa gert sérstaka samstarfssamninga um menntamál við ESB.

Mennta- og barnamálaráðuneyti á fulltrúa í vinnuhóp EFTA um menntun og þjálfun sem gætir hagsmuna EFTA ríkjanna.

Menntasamstarf á vegum ESB skiptist í þrennt:

  1. Samstarfsáætlanir (e. programmes)
  2. Sameiginleg stefnumótun í vinnuhópum (e. ET2030 working groups)
  3. Samstarf um þróun tækja og aðferða (e. European tools)

1. Samstarfsáætlanir

Erasmus+ styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál styður meðal annars skiptinám, sjálfboðaliðastarf, ungmennaskipti, símenntun starfsfólks, notkun upplýsingatækni í kennslu, tungumálanám, viðurkenningu á færni, fjölbreytt samstarfsverkefni, nýsköpun í kennslufræðum, stefnumótun á öllum stigum, átök gegn leikjasvindli og fíkniefnanotkun íþróttum og margt fleira.

European Solidarity Corps er áætlun fyrir ungt fólk sem vill sýna samstöðu á fjölbreyttum vettvangi, allt frá því að hjálpa þeim sem standa höllum fæti yfir í mannúðaraðstoð auk þess að leggja sitt af mörkum til heilbrigðis- og umhverfismála í Evrópu og víðar. Unga fólkið getur tekist á við samfélagslegar áskoranir með sjálfboðaliðastörfum og samfélagsverkefnum. Áætlunin leggur áherslu á inngildingu ásamt því að hvetja til grænni ferðamáta, lýðræðislegrar þátttöku og aukna stafræna færni ungs fólks.

2. Sameiginleg stefnumótun í vinnuhópum

Ísland tekur m.a. þátt í ET2025 vinnuhópum ESB á sviði menntamála.

Árlega eru teknar saman upplýsingar yfir lykilgögn um menntastefnu framkvæmdastjórnar ESB. Í skýrslunni Education and Training Monitor er farið yfir árangur í aðildarríkja ESB í tengslum við menntastefnu ESB.

Eurydice upplýsingarnetið veitir samanburðarhæfar upplýsingar um evrópsk menntakerfi og menntastefnur. Ísland tekur þátt í starfi Eurydice. 

Youth Wiki er upplýsinganet sem safnar á einn stað upplýsingum um stefnu Evrópulanda í æskulýðsmálum. Ísland tekur þátt í starfi Youth Wiki.

Þá tekur Ísland þátt í Kaupmannahafnarferlinu um þróun starfsmenntamála og í Bologna ferlinu um þróun háskólamála.

3. Samstarf um þróun tækja og aðferða

Þetta eru tæki sem er ætlað að auðvelda samstarf, ryðja landamærahindrunum úr vegi s.s. Rafræn ferliskrá-Europass, Evrópumiðstöð náms- og starfsráðgjafa - Euroguidance, Eurodesk-upplýsingatorg, Rafrænt skólasamstarf - eTwinning, vefgátt fullorðinsfræðslu í Evrópu - EPALE, Landstengiliður um fullorðinsfræðslu, landslengiliður EQF og fleira.

Cedefop

Cedefop er miðstöð Evrópusambandsins (ESB) um þróun starfsmenntunar og hefur Ísland tekið þátt í starfsemi stofnunarinnar frá 1995. Menntamálastofnun er Refernet landstengiliður. Refernet er samstarfs- og upplýsinganet sem hefur það markmið að afla og miðla upplýsingum um starfsmenntamál í Evrópu.

Evrópumiðstöð um menntun án aðgreiningar og sérþarfir

Evrópumiðstöðin (European Agency on Inclucive and Special Needs Education) er sjálfstæð stofnun sem nær til 31 Evrópuríkja sem hafa með sér samstarf um málefni er lúta að menntun án aðgreiningar og sérþörfum í námi. Ísland hefur tekið þátt í starfi Evrópumiðstöðvar frá stofnun hennar 1996

Evrópumiðstöðin vann úttekt á framkvæmd menntunar án aðgreiningar á Íslandi árið 2017. Sjá nánari upplýsingar um menntun fyrir alla.

Evrópuráðið

Á leiðtogafundi vorið 2023 voru áréttuð grunngildi Evrópuráðsins: Mannréttindi -lýðræði – réttarríki með samþykkt Reykjavíkuryfirlýsingarinnar.

Evrópuráðið sinnir fjölbreytilegum málaflokkum og hefur staðið að gerð um það bil 200 alþjóðasamninga. Mennta- og barnamálaráðuneytið tekur þátt í vinnu ýmissa nefnda Evrópuráðsins, s.s. á sviði menntamála, æskulýðsmála, íþróttamála og réttinda barna. Þá tekur Ísland þátt í starfi Tungumálamiðstöðvarinnar í Graz, Æskulýðsmiðstöð Evrópu í Búdapest ásamt ýmsum vinnuhópum á málefnasviðum ráðuneytisins.

Samningar á sviði íþróttamála hjá Evrópuráðinu eru:

OECD (Efnahags- og framfarastofnunin)

Þátttaka Íslands nær til um 200 ólíkra efnisþátta innan stofnunarinnar þ.á.m. samvinnu á sviði menntamála. Árlega birtir OECD tölfræðilegar upplýsingar um menntamál í ritinu Education at a Glance og þar er að finna upplýsingar um skólamál á Íslandi. Verkefni á sviði menntamála eru fjölmörg og hefur Ísland tekið þátt í nokkrum þeirra, meðal annars:

  • PISA-könnuninni sem er alþjóðleg könnun á hæfni og getu 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði.
  • TALIS-rannsókninni þar sem aflað er gagna frá kennurum og skólastjórnendum um störf þeirra, vinnuumhverfi og aðstæður.
    Þá hafa sérfræðingar á vegum OECD komið að úttektum og tillögugerð um ýmsa þætti menntamála hér á landi, t.d. um starfsnám, háskólamenntun og innleiðingu menntastefnu 2030.

Annað alþjóðasamstarf á sviði menntamála

UNESCO

Ísland gerðist aðili að UNESCO – Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðannaárið 1964. Meginmarkmið UNESCO er að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda- og menningarmála. Starfsemi UNESCO skiptist í grófum dráttum í fjóra þætti eða svið, en þau eru:

  • menntun,
  • menning,
  • náttúra og vísindi og
  • fjölmiðlar.

UNESCO ber ábyrgð á framkvæmd Heimsmarkmiðs 4, menntun fyrir alla, sem snýst um að tryggja öllum jafnan aðgang að góðri menntun og tækifæri til náms alla ævi. Stofnunin hefur verið í forystuhlutverki í menntamálum bæði á alþjóðavísu og svæðisbundið, ekki síst fyrir tilstuðlan frumkvæðis og samvinnu aðildarríkja stofnunarinnar við gerð alþjóðasamninga á sviði menntunar. UNESCO gefur árlega út skýrslu um tiltekið málefni á sviði menntamála – Global Education Monitoring Report.

Mennta- og barnamálaráðuneytið staðfesti nýlega við UNESCO stuðning Íslands við Parísaryfirlýsinguna: Áskorun um fjárfestingar allra þjóða í framtíð menntunar.

Sjá nánari upplýsingar á vef íslensku UNESCO-nefndarinnar.

Atlantic Rim Collaboratory

Atlantic Rim Collaboratory er fjölþjóðlegur samstarfsvettvangur í menntamálum sem stofnaður var í Reykjavík árið 2016. Markmið samstarfsverkefnisins er m.a. að bera saman þróun menntamála, skilgreina sameiginleg gildi í menntun, miðla reynslu og stuðla að fagmennsku og samstarfi í skólastarfi.

Síðast uppfært: 8.5.2024 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta