Hoppa yfir valmynd

Framhaldsskólar

Kvennaskólinn í þjóðbúningumÞeir sem lokið hafa grunnskólanámi, grunnskólaprófi, hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða eru orðnir 16 ára geta hafið nám í framhaldsskóla. Nám í framhaldsskóla er ekki skyldunám en samkvæmt lögum er fræðsluskylda til 18 ára aldurs.

Hér á landi eru starfræktir 27 opinberir framhaldsskólar, sem eru stofnanir á vegum ríkisins og heyra undir mennta- og barnamálaráðuneytið. Sjálfstæðir skólar sem kenna á framhaldsskólastigi, sem t.d. eru reknir sem sjálfseignastofnanir eða hlutafélög, þurfa að hafa viðurkenningu ráðuneytisins til slíkrar starfsemi.

Mennta- og barnamálaráðuneytið fer með yfirstjórn málefna framhaldsskóla, setur skólum aðalnámskrá, hefur eftirlit með gæðum skólastarfs, annast öflun, greiningu og miðlun upplýsinga, styður þróunarstarf í skólum og hefur úrskurðarvald í ágreiningsmálum.

Framhaldsskólakerfið á Íslandi er fjölbreytt og sveigjanlegt. Hægt er að velja um fjölbreyttar námsleiðir sem bæði veita undirbúning fyrir frekara nám eða réttindi til ýmissa starfa. Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi.

Meginmarkmið skólastarfs í framhaldsskólum er að:

  • búa nemendur undir frekara nám og þátttöku í atvinnulífinu,
  • efla færni nemenda í íslensku máli,
  • efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda,
  • þjálfa nemendur í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,
  • hvetja til þekkingarleitar.

Framhaldsskólum er heimilt að innheimta innritunargjald sem ákveðið er í reglugerð ásamt gjaldi fyrir efniskostnað á ákveðnum brautum.

Á vef Menntamálastofnunar er að finna lista yfir skóla sem bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi.

Tegundir framhaldsskóla

Námsframboði framhaldsskóla má skipta í bóknám, iðn- og starfsnám, listnám og undirbúningsnám.

  • Bóknámi lýkur almennt með stúdentsprófi, sem yfirleitt tekur 3 ár.
  • Fjölbreytt iðn- og starfsnám er í boði sem ýmist veitir undirbúning undir ákveðin störf eða starfsréttindi. Hægt er í flestum tilfellum að bæta við sig námi og ljúka einnig stúdentsprófi. Nám í iðngreinum fer fram í skóla og á vinnustað en til að fá löggild réttindi þarf að taka sveinspróf.
  • Fjölbreytt listnám sem tengist m.a. textíl, hönnun, myndlist, leiklist og kvikmyndagerð er í boði. Oftast útskrifast nemendur með stúdentspróf en önnur námslok eru einnig í boði.
  • Undirbúningsnám á framhaldsskólabrautum er í boði fyrir nemendur sem ekki hafa náð tilskildum árangri við lok grunnskóla.

Á framhaldsskólastigi eru skólar sem ýmist eru nefndir fjölbrautaskólar, framhaldsskólar, iðnskólar, menntaskólar eða verkmenntaskólar. Nöfn skóla segja ekki endilega til um starfshætti þeirra og námsframboð, því er mikilvægt að kynna sér það sérstaklega.

Framhaldsskólar eru ýmist með bekkjakerfi eða áfangakerfi. Í skólum með bekkjakerfi tilheyra nemendur sama nemendahópi í gegnum námið í skólanum, ekki ósvipað og í grunnskólum.

Í áfangakerfi hafa nemendur val um hvaða áfanga í mismunandi námsgreinum þeir velja og hafa meira frelsi um á hvaða hraða þeir klára viðkomandi grein.

Margir skólar á framhaldsskólastigi bjóða upp á fjölbreytt nám í fjarnámi og kvöldskóla.

Sumir framhaldsskólar bjóða upp á heimavistir, þar sem nemendur geta búið á meðan á námi stendur.

Nám á starfsbrautum fyrir fatlaða

Í fjölmörgum framhaldsskólum er í boði nám fyrir fatlaða nemendur með sértækar þjónustuþarfir og kallast sú námsbraut starfsbraut eða sérnámsbraut. Þar er nám og umhverfi aðlagað nemendum og útbúin einstaklingsnámskrá. Áhersla er á félagsleg samskipti nemenda og að undirbúa þá undir áframhaldandi nám við hæfi og/eða þátttöku á vinnumarkaði. Nám á starfsbraut miðast við fjögur ár.

Á vef Menntamálastofnunar má finna lista yfir skóla sem bjóða upp á nám á starfsbrautum.

Val á námi og innritun í framhaldsskóla

Upplýsingar um námsframboð einstakra skóla má finna á vef þeirra. Hér má sjá lista yfir alla framhaldsskóla. Í sumum tilfellum þarf að uppfylla ákveðnar kröfur um námsárangur í grunnskóla til þess að komast í ákveðið nám innan tiltekinna skóla. Þeir sem ekki uppfylla nauðsynleg skilyrði geta sótt nám á undirbúningsbrautum (framhaldsskólabraut).

Innritun í framhaldsskóla fer fram á vef Menntamálastofnunar. Á vorin fá nemendur sem eru að ljúka tíunda bekk í grunnskóla og forráðamenn þeirra bréf frá Menntamálastofnun með upplýsingum um innritun í framhaldsskóla.

Innritun á starfsbrautir fyrir fatlaða nemendur fer fram í febrúar.

Innritunartímabilið fyrir nemendur sem eru að ljúka námi í grunnskólum (við 16 ára aldur) fer fram í apríl og fram í júní. Innritun eldri nemenda fer fram frá mars og fram í apríl. Í sumum tilfellum er einnig hægt að hefja nám í byrjun árs.

Gagnlegar upplýsingar um námsframboð má finna á vef Áttavitans og vefnum Næsta skref.

Ábyrgð og réttur nemenda

Framhaldsskóli er vinnustaður nemenda. Allir nemendur framhaldsskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Framhaldsskóli skal í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eiga rétt á því að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Taka skal tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er.

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum. Þeim ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks framhaldsskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengisreglum. Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber skólanum að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og forráðamenn hans séu nemendur yngri en 18 ára.

Skólarnir setja sér reglur um skólasókn (mætingarskyldu) og getur hún verið mismundandi eftir skólum. Algengt er að krafist sé 85% heildarmætingar á önn og ef mæting verður undir lágmarksviðmiði er nemandi kallaður til viðtals við skólastjórnendur ásamt forráðamönnum (þ.e. þegar nemandi er undir 18 ára aldri).

Hlutverk foreldra/forráðamanna

Foreldrar/forráðamenn bera ábyrgð á ungmennum sínum að 18 ára aldri og eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og skólagöngu barna sinna. Þeir gæta hagsmuna þeirra og ber að stuðla að því að þau stundi nám sitt. Foreldrum/forráðamönnum ber einnig að greina skólum frá aðstæðum sem gætu haft áhrif á skólagöngu nemenda og vinna að lausn mála í samstarfi við skóla og ungmennin sjálf ef upp koma brot á skólareglum.

Stuðningur við nemendur

Nemendur eiga rétt á náms- og starfsráðgjöf í framhaldsskólum og í skólanámskrá skal markmiðum og stefnu skóla varðandi ráðgjöf og stuðning lýst. Þar skal einnig koma fram hvernig skóli rækir skyldur sínar og hlutverk á þessu sviði.

Framhaldsskólar eru í samstarfi við heilsugæslustöðvar og hafa með sér samkomulag um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. sálfræðiþjónustu, sem í boði er fyrir nemendur. Í mörgum skólum eru starfandi sálfræðingar.

Nemendur með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn

Nemendur með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Sama gildir um nemendur sem dvalist hafa langdvölum erlendis og hafa litla kunnáttu í íslensku. Miða skal við að nemendur með annað móðurmál en íslensku fái tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu sem valgrein, í fjarnámi eða með öðrum hætti.

Hver framhaldsskóli hefur áætlun um móttöku nemenda af erlendum uppruna. Móttökuáætlun er aðgengileg nemendum og foreldrum, þar sem m.a. koma fram upplýsingar um námið og skólastarfið almennt. Foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum er greint frá möguleikum á túlkaþjónustu. Móttökuáætlun skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum.

Mat á skólastarfi í framhaldsskólum

Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati á framhaldsskólum fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytisins. Lagt er mat á starfsemi skóla með hliðsjón af gildandi viðmiðum sem meðal annars byggja á lögum, reglugerðum og aðalnámskrám.

Sjá einnig: Eftirfylgni og umbótaáætlanir ytra mats

Námskrá

Aðalnámskrá framhaldsskóla er rammi um skólastarfið og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum skóla, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu. Einnig veitir hún nemendum, foreldrum/forráðamönnum þeirra og öðrum upplýsingar um tilgang og starfsemi framhaldsskóla. Aðalnámskrá framhaldsskóla var gefin út árið 2011. Hún hefur verið uppfærð umtalsvert síðan þá.

Framhaldsskólar skipuleggja nýjar námsbrautarlýsingar sem eru staðfestar af ráðuneyti og verða þar með hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla.

Skipulag náms og kennslu

Allir framhaldsskólar gefa út sínar eigin skólanámskrár þar sem fjallað er um starfsemi hvers skóla, námsframboð, skólareglur og þjónustu þá sem nemendum stendur til boða. Skólanámskrár má finna á vefjum skólanna.

Í aðalnámskrá framhaldsskóla er fjallað um inntak og skipulag náms og kennslu. Öllu námi í framhaldsskóla er skipað á fjögur hæfniþrep sem skarast annars vegar við grunnskólastig og hins vegar við háskólastig. Með þrepunum er lýst stigvaxandi kröfu um þekkingu, leikni og hæfni nemenda í átt til sérhæfingar og aukinnar menntunar. Námslok námsbrauta eru tengd við hæfniþrep. Lokamarkmið námsbrauta kallast hæfniviðmið og segja til um þá hæfni sem stefnt er að nemendur búi yfir við námslok. Ábyrgð á námskrárgerð er hjá framhaldsskólunum sem gera tillögur um fyrirkomulag, samhengi og inntak náms í samræmi við viðmið, sniðmát og reglur um gerð námsbrautalýsinga. Með þessu fá einstakir framhaldsskólar aukið umboð til að byggja upp nám sem tekur mið af sérstöðu skóla, þörfum nemenda, nærsamfélagi og atvinnulífi.

Mat á námi milli skóla

Nemandi sem flyst á milli skóla, sem starfa samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla, á rétt á því að fá nám sem hann hefur lokið með fullnægjandi árangri, metið til eininga á sama hæfniþrepi í viðtökuskóla ef námið fellur að námskrá og námsbrautalýsingum viðkomandi skóla.

Framhaldsskólum ber að setja fram skýrar verklagsreglur um mat á námi nemenda sem skipta um námsbraut eða koma úr öðrum skóla.

Eftirfarandi reglur um mat gilda en framhaldsskólar útfæra framkvæmd þeirra í skólanámskrá:

  • Viðtökuskólar skulu meta áfanga á sama hæfniþrepi og þeir eru skilgreindir í fyrri skóla nemenda, óháð kennslufyrirkomulagi.
  • Heimilt er að láta þess getið á prófskírteini ef nám er metið úr öðrum skóla.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 28.10.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta