Leikskólar
Leikskólinn er fyrsta skólastigið og upphaf formlegrar menntunar einstaklinga, ætlað börnum undir skólaskyldualdri. Mennta- og barnamálaráðuneytið mótar stefnu leikskóla í aðalnámskrá en stjórnendur leikskóla skipuleggja starfsemi hvers skóla og gera eigin áætlanir sem byggja á markmiðum laga um leikskóla og aðalnámskrá.
Leikskólaaldurinn er mikilvægur tími náms og þroska. Í samstarfi við foreldra á leikskólinn að kappkosta að fylgjast með og efla alhliða þroska allra barna, veita þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og stuðla að öryggi þeirra og vellíðan í námi og leik. Stuðla á að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta.
Meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla er:
- að fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra,
- að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku,
- að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar
- að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,
- að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun
- að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.
Innritun barns í leikskóla
- Fylla þarf út eyðublað á vef viðkomandi sveitarfélags um leikskólavist fyrir barnið. Í flestum tilvikum fer barnið á biðlista þar til pláss losnar. Börn eru yfirleitt tekin inn eftir aldri (elstu börnin fyrst). Hafið samband við sveitarfélagið ef þið þurfið aðstoð.
- Hafið samband við sveitarfélagið um skólagjöld og framvindu mála.
- Sveitarfélagið sendir staðfestingu til forsjáraðila þegar barninu er úthlutað pláss í leikskóla. Þar koma fram upplýsingar um næstu skref.
Innritun barna nýbúa/innflytjenda:
- Til að sækja um skólavist fyrir barn í leikskóla þarf í flestum tilvikum rafræn skilríki.
- Kennitölu er úthlutað við skráningu lögheimilis í þjóðskrá. Fyrir ríkisborgara utan EES-svæðisins gerist það eftir að dvalarleyfi hefur verið veitt.
- Til að fá rafræn skilríki fara forsjáraðilar (foreldrar barna) með farsímann sinn og kennitölu, ásamt ökuskírteini eða vegabréfi, til símafyrirtækis síns. Sótt er um rafræn skilríki á eftirfarandi afgreiðslustöðum.
- Forsjáraðilar þurfa að fara með barn sitt í læknisskoðun áður en það getur byrjað í leikskóla.
Leikskólarnir veita upplýsingar um stefnu sína, skipulag og opnunartíma.
Ábyrgð á leikskólastarfi
Sveitarfélög bera ábyrgð á starfsemi leikskóla í sveitarfélaginu, þ.m.t. sjálfstætt starfandi leikskóla.
Sveitarfélög hafa almennt forystu um að tryggja börnum leikskóladvöl og bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds, þróun leikskóla, húsnæði og búnaði, sérúrræðum þeirra og sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti gæðum skólastarfs og á framkvæmd leikskólastarfs í sveitarfélagi. Hvert sveitarfélag setur almenna stefnu um leikskólahald og kynnir fyrir íbúum sínum.
Mennta- og barnamálaráðuneytið fer með yfirstjórn málefna leikskóla, setur leikskólum aðalnámskrá, hefur eftirlit með gæðum skólastarfs, annast öflun, greiningu og miðlun upplýsinga, styður þróunarstarf í skólum og hefur úrskurðarvald í ágreiningsmálum sem þar kunna að koma upp. Ráðuneytið hefur ennfremur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli skyldur laga um leikskóla, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá leikskóla kveða á um.
Hlutverk foreldra
Foreldrar leikskólabarna gæta hagsmuna barna sinna og sækja um leikskóladvöl fyrir þau. Leikskóli annast að ósk foreldra uppeldi, umönnun og menntun barna á leikskólaaldri. Mikilvægt er að börn sem hafa hlotið pláss í leikskólum mæti reglulega til að þau njóti sín sem best í leikskólanum og að leikskólanám þeirra verði sem markvissast. Foreldrar hafa náið samráð við starfsfólk leikskóla og fylgjast með skólagöngu barna sinna og veita þær upplýsingar sem kunna að skipta máli fyrir skólastarfið og velferð barna.
Foreldrar eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og stöðu barna sinna. Skólanum bera að leitast við að tryggja þeim foreldrum sem ekki tala íslensku eða nota táknmál viðeigandi túlkaþjónustu.
Stuðningur við börn á leikskólum
Börn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun eiga rétt á slíkri þjónustu. Sveitarfélög skulu tryggja að viðeigandi sérfræðiþjónusta sé veitt í leikskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan skóla. Sveitarfélög bera ábyrgð á að þjónustan sé veitt og kostnaði við hana. Sveitarfélög skulu mæla fyrir um það í skólastefnu sinni hvernig markmiðum reglugerðar um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum verði náð.
Tilkynningarskylda skóla til barnaverndarnefnda
Kennurum, starfsfólki og stjórnendur í leikskólum, og öðrum sem vegna starfa sinna hafa afskipti af málefnum barna, ber skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart ef þau verða var við að barn búi við óviðundandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða ef barn stofnar heilsu sinni eða annarra í alvarlega hættu.
Sjá nánar í verklagsreglum um tilkynningaskyldu starfsmanna skóla.
Hlutverk barnaverndarnefnda er að gæta hagsmuna barna og styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu. Þær hjálpa börnum og fjölskyldum þegar farsæld barna er í hættu.
Mat á skólastarfi í leikskólum
Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati á leikskólum fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytisins. Lagt er mat á starfsemi skóla með hliðsjón af gildandi viðmiðum sem meðal annars byggja á lögum, reglugerðum og aðalnámskrám.
Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs og láta ráðuneyti í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga, framgang skólastefnu sinnar og áætlanir um umbætur.
Sjá einnig: Eftirfylgni og umbótaáætlanir ytra mats.
Námskrá
Aðalnámskrá leikskóla er rammi um skólastarfið og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum skóla, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu. Einnig veitir hún nemendum, foreldrum þeirra og öðrum upplýsingar um tilgang og starfsemi leikskóla. Á grunni aðalnámskrár ber öllum leikskólum að móta sína eigin skólanámskrá þar sem gerð er nánari grein fyrir útfærslu á aðalnámskrá leikskóla, markmið sett og skilgreindar leiðir að þeim markmiðum. Skólanámskrá ber að endurskoða reglulega.
Aðalnámskrá leikskóla kom út árið 2011. Á henni hafa verið gerðar smávægilegar breytingar. Árið 2021 var gerð breyting er varðar börn með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn. Árið 2023 var gerð breyting á köflum 7-9 með það að leiðarljósi að skýra nánar hlutverk leiksins sem náms leiðar leikskóla. Auk þess var gerð breyting á kafla 10 með það að leiðarljósi að skýra nánar hvernig meta megi með reglubundnum hætti, og með virkri þátttöku barna, viðhorf, líðan og stöðu þeirra.
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Gagnlegt
Menntamál
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.