Hoppa yfir valmynd

Aðgerð 9: Vönduð náms- og kennslugögn fyrir allt menntakerfið

Aðgengi að vönduðu námsefni er eitt lykilatriða gæðamenntunar. Brýnt er að framboð á náms- og kennslugögnum fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og framhaldsfræðslu, sem tekur mið af ólíkum þörfum og fjölbreytileika nemenda, verði tryggt.

Framsetning og miðlun námsgagna tekur örum breytingum og er mikilvægt að til séu fjölbreytt og vönduð námsgögn sem eru í samræmi við áherslur menntakerfisins hverju sinni. Standa þarf vörð um tungumál fámennrar þjóðar og þá m.a. með útgáfu vandaðra námsgagna. Gildi slíkrar útgáfu fyrir verndun og stuðning við íslenska tungu og eflingu læsis er óumdeilt.

Leggja þarf áherslu á rafbókakerfi sem nýtist við gerð og dreifingu rafræns náms- og kennsluefnis og stuðla þannig að bættu aðgengi fjölbreyttra nemendahópa og allra skólastiga að þeim.

Markmið

Að auka gæði, fjölbreytni og aðgengi að náms- og kennslugögnum fyrir nemendur á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi sem og innan framhaldsfræðslu með áherslu á stafræn námsgögn á íslensku, táknmáli og efni fyrir nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. 

Helstu verkþættir

  1. Efla Þróunarsjóð námsgagna og Námsgagnasjóð til að stuðla að nýsköpun og fjölbreytni í námsefnisgerð og markvissri útgáfu vandaðra námsgagna. Úthlutun úr sjóðunum taki við af gæðaviðmiðum og styðji við áherslusvið menntastefnu til ársins 2030.
  2. Þróun opinberra gæðaviðmiða fyrir náms- og kennslugögn, þar með talið leiðbeiningar vegna innleiðinga á stafrænum lausnum, meðal annars með tilliti til persónuverndarsjónarmiða.
  3. Þróun miðlægrar stafrænnar námsgagnaveitu þvert á skólastig og upplýsingamiðlun um nýtingu og innleiðingu þeirra námsgagna.
  4. Auka aðgengi leikskóla að útgefnu námsefni Menntamálastofnunar og aðgengi framhaldsskóla að námsgögnum fyrir nemendur á starfsbrautum.
  5. Stuðla að auknu aðgengi fullorðinna útlendinga að námsgögnum við hæfi, þar með talið íslensku sem annað tungumál, í samræmi við viðmið evrópska tungumálarammans. Námsgögn geti einnig hentað öðrum aldurshópum.

Ábyrgðaraðili

Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Framkvæmdaaðilar

Mennta- og barnamálaráðuneytið, Menntamálastofnun, rekstraraðilar skóla.

Áherslusvið

Námsmat og námsgögn, aðalnámskrár sem styðja við menntastefnu, nám við allra hæfi, fjölbreytt menntasamfélag, læsi, símenntun, stafræn tilvera, stöðugar umbætur og gæðastarf, skilvirk ráðstöfun fjármuna.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta