Jöfn tækifæri fyrir alla
Nám við allra hæfi
Skólar og aðrar menntastofnanir taki mið af þörfum, getu og hæfni sérhvers nemanda og vinni út frá styrkleikum og áhuga hvers og eins. Samfélaginu ber skylda til þess að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna og tryggja öllum tækifæri til þess að þroskast og dafna á eigin forsendum innan menntakerfisins. Mikilvægt er að tryggja að allir finni sig í menntakerfinu og að stuðlað sé að jafnrétti innan þess.
Raunfærnimat
Mikilvægt er að sú þekking og hæfni sem einstaklingar ná sér í á starfsævinni hafi gildi og nýtist til frekari náms eða starfsþróunar. Til að tryggja markvissa hæfniuppbyggingu til framtíðar þarf að meta fjölbreytta hæfni einstaklinga án tillits til þess hvernig eða hvar hennar hefur verið aflað.
Snemmbær stuðningur
Börn og ungmenni skulu fá aðstoð og stuðning við hæfi sem fyrst á námsferlinum og liðsinni áður en vandi ágerist. Horfa þarf sérstaklega til styrkingar leikskólastigsins. Stuðningur getur beinst að nemandanum sjálfum eða umhverfi hans og mikilvægt er að aðlaga hann að þörfum viðkvæmra einstaklinga og hópa. Í þeirri vinnu er þverfagleg samvinna nauðsynleg.
Fjölbreytt menntasamfélag
Ísland er fjölmenningarsamfélag sem nýtir þá auðlind sem felst í fjölmenningarlegu skólastarfi, fagnar margbreytileika nemenda og nýtir til að efla samfélagið. Mikilvægt er að meta menntun innflytjenda og flóttafólks í ríkari mæli svo þeirra þekking nýtist þeim og samfélaginu sem best.menntakerfinu og að stuðlað sé að jafnrétti innan þess.
Menntun um allt land
Búseta á ekki að hafa áhrif á möguleika til náms. Nýta skal bættar samgöngur og tækni til að tryggja möguleika til náms óháð búsetu sem styrkir stöðu öflugra þekkingarsamfélaga í dreifðari byggðum. Bæta skal námsframboð utan stærstu þéttbýlisstaða, meðal annars með auknu starfs- og tækninámi á landsbyggðinni því námsframboð í heimabyggð ræður miklu um námsval ungmenna að loknum grunnskóla.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.