Hoppa yfir valmynd

Fagmenntun og fagleg starfsþróun

Í þessum kafla er athyglinni beint að 7. viðmiði:

 

Unnið sé að faglegri starfsþróun á árangursríkan hátt á öllum stigum kerfisins

Meginviðfangsefnið sem liggur til grundvallar þessu viðmiði og öllum vísbendingum sem því tengjast er:
Hversu góðs stuðnings starfsfólk á öllum skólastigum nýtur til þess á grundvelli grunnmenntunar sinnar og faglegrar starfsþróunar að innleiða menntun án að-greiningar sem stefnu sem byggist á rétti hvers og eins nemanda.

Viðhorf ólíkra hópa innan menntakerfisins til þessa meginviðfangsefnis voru könnuð með kjarnaspurningunni:
Hversu góðan undirbúning finnst þér upphafleg kennaramenntun þín og fagleg starfsþróun hafa veitt þér til að koma til móts við rétt allra nemenda til að afla sér gæðamenntunar án aðgreiningar?

Bein umfjöllun átti sér stað:
á fundum rýnihópa, í skólaheimsóknum og með netkönnun.

Óbein umfjöllun átti sér stað:
við gerð tengslakorta (hvaða kennsluaðferðir hefur þú notað?), í einstaklingsviðtölum og með úrvinnslu rannsóknargagna.

Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun fyrir alla á Íslandi í heild

Meginniðurstöður í tengslum við 7. viðmið

Styrkleikar sem menntakerfið býr yfir að því er viðmiðið varðar

Í íslenska menntakerfinu starfar stór hópur vel menntaðs fagfólks. Auk kennara er þar um að ræða ýmsa aðra hópa starfsfólks með margvíslega sérmenntun. Grunn­menntun kennara á öllum skólastigum er nú fimm ára nám til meistaraprófs en þess ber að geta að í leikskólum er mikill skortur á kennurum og öðru starfsfólki með tilskilda menntun.

Kennaramenntun á Íslandi er í föstum skorðum. Grunnmenntun kennara, auk sí­menntunar og faglegrar starfsþróunar, er sinnt að meginhluta í þremur mennta­stofnunum á háskólastigi; tveimur í Reykjavík og einni á Akureyri. Kennurum, öðru starfsfólki skóla og skólastjórnendum standa til boða ýmsar námsleiðir í grunnnámi og framhaldsnámi, sem og styttri námskeið.

Fulltrúar allra hópa skólasamfélagsins eru sammála um mikilvægi þess að allt starfs­fólk skóla, einkum kennarar, hafi aðgang að fjölbreyttum tækifærum til símenntunar, faglegrar starfsþróunar og náms alla ævi.

Kennarasamband Íslands er einn helsti aðili að umræðum um þróun grunnmenntun­ar og símenntunar/faglegrar starfsþróunar kennara.

Fjárveitingar til símenntunar og faglegrar starfsþróunar kennara samsvara nú 150 vinnustundum á ári. Hjá framhaldsskólakennurum er sama tala 80 vinnustundir. Leikskólakennarar njóta engra slíkra fjárframlaga.

Sveitarfélögin greiða að auki framlag sem nemur 1,72% af launagreiðslum til kenn­ara til starfsþróunarsjóðs sem Kennarasamband Íslands hefur umsjón með fyrir bæði leikskóla- og grunnskólastig. Þá greiðir ríkið framlag til símenntunar og faglegr­ar starfsþróunar framhaldsskólakennara sem nemur 1,72% af launagreiðslum. Ríkið greiðir kostnað af rekstri menntastofnana sem annast símenntun og faglega starfs­þróun grunn- og framhaldsskólakennara.

Þessi framlög eru tiltölulega há í samanburði við það sem gerist í mörgum öðrum Evrópulöndum. Framlög til símenntunar og faglegrar starfsþróunar hafa verið nýtt á ýmsan hátt, m.a. til námsferða utanlands, og mörg dæmi eru um að bryddað hafi verið upp á nýjungum í skólastarfi í framhaldi af markvissri nýtingu fjármuna til símenntunar og faglegrar starfsþróunar.

Fagleg starfsþróun starfsfólks skóla er að öllum líkindum mikilvægasta lyftistöngin til að bæta menntun án aðgreiningar á Íslandi, og menntakerfinu er mikill styrkur að því hversu ríkur skilningur er á þessu meðal starfsfólks skóla og þeirra sem sinna menntamálum á vettvangi ríkis og sveitarfélaga. Á vettvangi ríkisins er starfandi samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda sem hefur það hlutverk að setja fram tillögur um endurskipulag allrar símenntunar og faglegrar starfsþróunar á þann hátt að stefnumótun falli betur að þörfum kennara á þessu sviði.

 

Brýnustu úrlausnarefni

7.1 Er litið á kennaramenntun sem samfellt starfsævilangt verkefni?

Það kemur skýrt fram hjá meiri hluta þeirra sem rætt var við að kennaramenntun sé starfsævilangt verkefni og að grunnmenntun geti ekki búið kennara og annað starfs­fólk skóla með fullnægjandi hætti undir starf sem er í stöðugri þróun.

Jafnframt er viðurkennt að þörf sé á að brúa bilið sem nú er milli grunnmenntunar kennara annars vegar og símenntunar og faglegrar starfsþróunar hins vegar. Full­trúar skóla, sveitarfélaga og ríkis nefna allir að það hafi lengi valdið vandkvæðum hversu lítil tengsl séu milli mismunandi áfanga í faglegri starfsþróun kennara, einkum grunnmenntunarinnar og þeirrar símenntunar og faglegrar starfsþróunar sem fylgir í kjölfar hennar.

in sem nú bjóðast til símenntunar og faglegrar starfsþróunar í menntakerf­inu hafa orðið til með mismunandi hætti. Ýmsar stofnanir fjármagna og/eða annast símenntun og faglega starfsþróun: Háskólar bjóða viðbótarnám að grunnmenntun lokinni, í sveitarfélögum stendur starfandi kennurum til boða styttri fræðsla og nám­skeið og Kennarasamband Íslands greiðir kostnað við faglega starfsþróun einstakra kennara.

Kennarar ráða því að miklu leyti sjálfir hvaða þjálfun þeir sækja sér í starfi og í hvaða stofnun. Margir þeirra líta á kennaramenntun sem samfellt starfsævilangt verkefni. Á hinn bóginn er það einnig vettvangur ákvarðana um eigið líf sem tengjast ekki alltaf þörfum skólans eða skólasamfélagsins sem þeir tilheyra.

Fjölmargir fulltrúar skóla, sveitarfélaga og ríkis staðhæfa að einstaklingsbundnar ákvarðanir af því tagi samræmist ekki alltaf þörfinni fyrir þróun skóla í stærra sam­hengi o.s.frv.

Margir í skólasamfélaginu benda á að heildarsamræming símenntunar og faglegrar starfsþróunar milli kennarahópa sé aðkallandi viðfangsefni. Einkum kemur þetta fram hjá starfsfólki skóla sem þykir oft sem símenntun og fagleg starfsþróun sé ósamhæfð og brotakennd og að framboð sé í litlu samhengi við þarfir skóla. Skóla­stjórnendur taka sérstaklega fram að skipulagning skólaþróunarverkefna þyrfti að vera í nánari tengslum við símenntun og faglega starfsþróun starfsfólks.

Óljóst er hvað skólastjórnendur, starfsfólk skóla og sveitarfélög geta gert til að sam­hæfa betur tækifæri einstakra kennara til símenntunar og faglegrar starfsþróunar til þess að fagleg starfsþróun starfsfólks falli betur að þörfum skólans.

Aðferðirnar sem nú eru notaðar til að fjármagna símenntun og faglega starfsþróun eru almennt ekki taldar hagkvæmar. Einkum telja sumir í skólasamfélaginu óheppi­legt að þeir 150 vinnutímar sem ætlaðir eru til símenntunar og faglegrar starfs­þróunar kennara séu einungis nýttir að um 10% sem stendur. Þeir líta svo á að fjármunir sem ætlaðir eru til símenntunar og faglegrar starfsþróunar, m.a. náms­ferða utanlands, fullnægi aðeins þörfum lítils hóps en ekki þeirra kennara sem séu „tregir til“ og kunni að hafa mesta þörf fyrir starfsþróun.

Sú tilhögun sem nú er við lýði og byggist á því að kennarar skipuleggja símenntun sína og faglega starfsþróun sjálfir gefur hverjum einstaklingi ýmis tækifæri. Margir í skólasamfélaginu líta aftur á móti svo á að hún hafi í för með sér ójöfnuð ekki aðeins milli landshluta, heldur einnig milli skólastiga (leikskóla-, grunnskóla- og framhalds­skólastigs) og kennslugreina. Mikil þörf er talin á að tryggja að meiri sanngirni sé gætt í kerfinu. Almennt telja flestir viðmælendur að þessi tilhögun símenntunar og faglegrar starfsþróunar gagnist lítið sem stuðningur við framkvæmd opinberrar stefnu og að feli í sér óhagkvæmni.

Margir ráðamenn í menntakerfinu, þ.e. skólastjórnendur og þeir sem móta stefnu á vettvangi ríkis og sveitarfélaga, benda á að svigrúm væri til að bæta skólaþróun ef meira „frelsi“ væri til að nýta þá fjármuni sem nú eru bundnir símenntun og faglegri starfsþróun einstakra kennara.

Starfsfólk skóla telur að með tilliti til framboðs háskóla á námskeiðum á sviði sí­menntunar og faglegrar starfsþróunar sé þörf á auknum sveigjanleika og fjölbreytt­um efnistökum námskeiða. Í þeirra augum einkennast mörg þau tækifæri sem nú bjóðast til símenntunar og faglegrar starfsþróunar af lítilli fjölbreytni eða skorti á sveigjanleika. Tryggja þarf breiðara framboð (einkum á námskeiðum sem lúta að sérhæfingu kennara eftir aldurshópum nemenda).

Jafnframt þessu nefna fulltrúar allra skólastiga, einnig háskóla, að nýta þurfi og kanna betur möguleika á að ýta undir fyrirkomulag við faglega starfsþróun sem mið­ast í meira mæli við þarfir skólans alls og byggist á skólaþróunaráætlunum. Með slíku fyrirkomulagi mætti nýta betur þá sérfræðikunnáttu og aðstöðu á sviði rann­sókna og faglegrar starfsþjálfunar sem er fyrir hendi í háskólum til þess að fjölga tækifærum til starfsþróunar sem eru sniðin að þörfum skóla.

Margir í skólasamfélaginu telja að grunnmenntun kennara búi þá ekki nægilega vel undir skólastarf án aðgreiningar. Sumir telja að kennarar sem lokið hafa fimm ára kennaranámi séu almennt betur undir það búnir að stunda kennslu án aðgreiningar, en nauðsynlegt er talið að gefa kennurum sem hafa ekki lokið meistaragráðu kost á að sækja viðbótarnám í þessu skyni.

Lögð er áhersla á að þjálfa þurfi kennara í fjölbreyttum kennsluaðferðum, einkum á framhaldsskólastigi. Sumir nefna að það sé einkum á því skólastigi sem vart verði ólíkra viðhorfa og skilnings á hlutverki kennarans, þ.e. hvort það snúist um að kenna tiltekna námsgrein eða ná til allra nemenda með kennslunni.

Fulltrúar allra hópa í skólasamfélaginu benda á að efla þurfi í menntakerfinu þá hugsun að allt nám sé ævinám til þess að styrkja enn frekar hlutverk allra kennara, annars starfsfólks skóla og skólastjórnenda sem fagfólks. Í samræmi við það er kallað eftir meiri viðurkenningu skóla, sveitarfélaga og ríkis á þeim árangri sem næst á sviði faglegrar starfsþróunar kennara og nýsköpunar í skólastarfi.

 

7.2 Er það markmið allrar faglegrar starfsþróunar að móta umgjörð viðhorfa og gilda, þekkingar og kunnáttu sem fellur vel að opinberri stefnu um menntun án aðgreiningar?

Meiri hluti viðmælenda er þeirrar skoðunar að menntun án aðgreiningar byggist fyrst og fremst á gildum starfsfólks, viðhorfum og áhuga í starfi. Þetta kemur skýrt fram í skoðunum sem sumir nemendur létu í ljós í umræðum um hvernig best mætti styðja við nám þeirra í skólanum. „Kennarar sem hjálpa manni eru bestir, [þeir eru] vingjarnlegir og maður getur farið til þeirra“ og „Það besta í skólanum [er] þegar allir vinna saman“ eru tvö dæmi um ummæli nemenda.

Meiri hluti viðmælenda telur þó að kennarar fái hvorki nógu góðan undirbúning fyrir hlutverk sitt í skólastarfi án aðgreiningar né til að vinna í samræmi við stefnu sveit­arfélaga og ákvæði landslaga. Fulltrúar allra hópa skólasamfélagsins telja að kennur­um þurfi að gefast fleiri tækifæri til æfingakennslu í grunnmenntun sinni og námi. Sú skoðun er almenn að stefnan um menntun án aðgreiningar sé ekki orðin föst í sessi í grunnmenntun kennara. Þjálfunin sem kennarar fá í námi sínu er ekki talin falla vel að stefnu ríkis og sveitarfélaga um menntun án aðgreiningar.

Mörgum kennurum þykir sem þeir njóti ekki stuðnings til að koma til móts við marg­breytilegar námsþarfir nemenda. Þeir sem svöruðu netkönnuninni virðast vera mjög efins um að grunnmenntun þeirra hafi gert þeim kleift að hafa stjórn á hegðun nem­enda (52,7% svara því til að svo sé að hluta til en 22,2% að svo sé aðeins að litlu leyti), að taka ábyrgð á námsþörfum allra nemenda (47,6% svara því til að svo sé að hluta til en 25,6% að svo sé aðeins að litlu leyti) eða að koma til móts við marg­breytilegar þarfir (51,3% svara því til að svo sé að hluta til en 21,1% að svo sé aðeins að litlu leyti).

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar hefur annað starfsfólk skóla jákvæðari reynslu af því en kennarar hvernig grunnmenntun þeirra og símenntun eða fagleg starfsþróun nýtist í starfi. Þetta á einkum við um atriði á borð við samskipti við for­eldra, margbreytilegar þarfir nemenda og samstarf við annað fagfólk og stofnanir utan skólans.

Almennt telja fulltrúar allra hópa skólasamfélagsins að auka þurfi æfingakennslu ásamt því að gefa öllu starfsfólki skóla, sem og þeim sem sinna menntamálum á vettvangi ríkis og sveitarfélaga, oftar færi á að sækja námskeið sem byggð eru á „gagnreyndum“ aðferðum. Slíkt starf þarf að falla vel að stefnumótun og löggjöf á sviði menntunar án aðgreiningar. Ljóst má vera að víðtækari og ítarlegri umræða þarf að eiga sér stað við stofnanir sem annast menntun kennara um gæði grunn­menntunar og símenntunar/faglegrar starfsþróunar kennara og áherslur í því námi, með vísan til þess að flestir fulltrúar skóla, sveitarfélaga og ríkisins telja núverandi námsframboð ekki samræmast markaðri stefnu í menntamálum.

 

7.3 Er stefnan um menntun án aðgreiningar orðin föst í sessi í öllu námi skólastjórnenda og kennara?

Það er útbreidd skoðun að allt starfsfólk skóla þurfi á kennslu að halda í skólastarfi án aðgreiningar almennt, auk sérhæfðrar þjálfunar í því að koma til móts við nem­endur með sérþarfir í námi, og að slík þjálfun verði að teljast ómissandi fyrir alla kennara. Þessi skoðun er sérstaklega áberandi meðal foreldra, sem færðu ýmis rök fyrir því að ábyrgð á því að sinna mismunandi námsþörfum lægi hjá kennurum.

Sumir í skólasamfélaginu þykjast sjá mun á háskólunum í Reykjavík og á Akureyri, bæði að því er varðar kennsluaðferðir og inntak og áherslur í kennaranáminu. Það er talið jákvætt að völ sé á mismunandi aðferðum og leiðum til sérhæfingar. Munur­inn sem þykir vera á þessum stofnunum að því er varðar fræðilega og hagnýta nálg­un við menntun án aðgreiningar er engu að síður talinn geta orðið til trafala að því leyti að erfiðara geti orðið að tryggja að inntak grunnmenntunar og símenntunar kennara falli vel að markaðri stefnu ríkis og sveitarfélaga.

Margir í skólasamfélaginu, þeirra á meðal kennarar, skólastjórnendur, sveitarstjórn­armenn og kennararnir sjálfir, eru þeirrar skoðunar að kennaramenntun sé „of fræðileg“. Veruleikinn sem kennarar búi við í skólastarfi án aðgreiningar geri það að verkum að undirbúningur þeirra þurfi að vera með öðrum hætti, og m.a. þurfi að byggja upp æfingakennslu í skólum með mismunandi nemendahópum. Allir þeir sem rætt var við telja að fjölga verði þeim tímum sem helgaðir eru æfingakennslu í grunnnámi kennara. Þeir sem sinna menntamálum á vettvangi ríkisins létu sumir þess getið að sú regla að í grunnnámi kennara skuli 20% alls námstíma varið til æfingakennslu á vettvangi sé ekki virt eins og mál standa nú.

Margir í skólasamfélaginu eru þeirrar skoðunar að veita þurfi nýbrautskráðum kennurum samhæfðan stuðning við upphaf starfs og gefa þeim kost á að „læra í starfi“ þegar til lengri tíma litið, til að mynda með leiðsögn reyndari kennara. Sam­kvæmt niðurstöðum netkönnunarinnar telja skólastjórnendur og kennarar sig aðeins hafa fengið að hluta til þann undirbúning í grunnnámi sínu og starfsþjálfun sem nauðsynlegur sé til að geta staðið undir kröfum stefnunnar um menntun án aðgreiningar. Sú námstilhögun sem nú tíðkast virðist ekki nægja til að byggja upp sjálfsöryggi og færni kennara til þátttöku í skólastarfi án aðgreiningar.

Á vettvangi skólanna kemur skýrt fram að einstökum starfsmönnum sé það að mestu í sjálfsvald sett hvort þeir sækja sérstök námskeið um skólastarf án aðgrein­ingar í grunnnámi sínu eða í tengslum við símenntun eða faglega starfsþróun. Starfs­fólk sem sæki slík námskeið geri það oftast að eigin frumkvæði og án tengsla við aðrar námsleiðir eða námskeið. Það er skoðun margra að efnistök í mörgum nám­skeiðum í grunnnámi kennara og símenntun styrki þá mynd af skólastarfi án að­greiningar að það snúist um að sinna sérþörfum sumra nemenda fremur en að koma til móts við þarfir allra nemenda á árangursríkan hátt. Breytingar á náms­brautum háskóla sem eru í því fólgnar að fella kennslu án aðgreiningar undir almenn kennslufræðinámskeið hafa dregið fram þörfina á því að styðja stofnanir sem annast kennaramenntun betur til þess að fjalla um blandaða kennsluhætti og aðrar aðferðir sem nýta stafrænt efni á netinu jafnframt hefðbundnum kennsluaðferðum, auk þess að láta það að nokkru leyti í hendur nemenda hvenær, hvernig og hversu hratt námið er stundað.

 

7.4 Er öllu starfsfólki gefinn kostur á almennri og sérhæfðri þjálfun við sitt hæfi til þess að tryggja að það geti brugðist við fjölbreyttum nemendahópi á jákvæðan hátt?

Í netkönnuninni barst alls 351 svar frá kennurum og niðurstöðurnar sýna að meiri hluti þeirra (um 80%) hafa hvorki hlotið formlega þjálfun í kennslu án aðgreiningar né sérkennslu. Um leið segjast um 86% kennara sinna nemendum sem fengið hafa formlegt mat og greiningu á sérþörfum í námi og/eða fötlun. Um 62% segjast sinna nemendum sem njóta sérstakrar aðstoðar við námið enda þótt þeir hafi ekki fengið formlegt mat og greiningu á sérþörfum í námi og/eða fötlun. Af þessu má ráða að þótt flestir kennarar sinni nemendum með sérþarfir í námi er kennaramenntun ekki með þeim hætti að hún komi að fullu til móts við þörf þeirra fyrir símenntun og faglega starfsþróun.

Á sama hátt getur skort á að annað starfsfólk skóla fái viðhlítandi stuðning til sí­menntunar og faglegrar starfsþróunar. Meðal skólastjórnenda hafa yfir 70% ekkert formlegt nám að baki á sviði skólastarfs án aðgreiningar og/eða sérkennslu. Þá má taka fram að um helmingur þeirra skólastjórnenda sem svöruðu könnuninni hafa aldrei stundað formlegt nám í skólastjórnun.

Starfsfólk stoðþjónustu skóla er líklegra en annað starfsfólk skóla til að hafa lokið formlegu námi í kennslu án aðgreiningar og/eða sérkennslu. Hartnær fjórðungur hópsins hefur þó enga formlega menntun til starfa í skólum. Netkönnunin bendir einnig til þess að þótt um 23% annars starfsfólks skóla hafi enga formlega menntun er hlutfall þeirra sem fengið hafa formlega þjálfun á þessu sviði hæst í þeim hópi. Tengsl má hugsanlega sjá milli þessa atriðis og þess að ábyrgð á þeim nemendum sem hafa flóknustu þarfirnar er oft í höndum annars starfsfólks skóla, sökum þess að það er talið „færara um að sinna þeim“ (sjá nánari umfjöllun um þetta í undirkafla 3.5).

Fulltrúar starfsfólks skóla og foreldra nefna að bæta þurfi möguleika skóla til að nýta þjálfun starfsfólks í skólaþróunarskyni (meðal þess sem oft er nefnt er fræðsla um þarfir nemenda sem glíma við félagsvanda, tilfinningavanda og/eða hegðunarvanda). Svipaðs eðlis er sú skoðun að námsleiðir í kennaranámi séu almennt of keimlíkar. Þótt gæta beri samræmis í því hvaða menntun ólíkir starfshópar fá verður framboð á námskeiðum fyrir starfsfólk skóla einnig að vera fjölbreytt.

Sumt starfsfólk skóla sem vinnur að nýbreytni í skólastarfi lýsir þeirri skoðun að formlegt námsframboð feli að mörgu leyti í sér „meira af því sama“ og sé ekki áhugavert í þeirra augum þar eð það sé „á eftir“ því sem gerist í þeirra eigin skólum. Talið er nauðsynlegt að koma upp námskostum á sviði símenntunar og faglegrar starfsþróunar sem feli í sér meiri nýbreytni og ýti undir miðlun hugmynda um skóla­starf milli skóla og að hugsað sé „út fyrir kassann“ með það fyrir augum að sinna þörfinni fyrir skólaþróun, fremur en faglega starfsþróun einstaklinga. Dæmi eru um að háskólar bjóði sérsniðnar lausnir í skólaþróun til stuðnings nýsköpun. Að sögn þeirra sem rætt var við þarf þó að koma til enn frekara samstarf og meiri samhæfing á landsvísu til þess að nýta sem best sérfræðiþekkingu á þessu sviði.

 

Samantekt

Niðurstöður í tengslum við þetta viðmið sýna að margt starfsfólk skóla hefur efa-semdir um að grunnmenntun þess og/eða tækifæri til faglegrar starfsþróunar nýtist sem skyldi til undirbúnings fyrir skólastarf án aðgreiningar. Að áliti margra þeirra sem sinna menntamálum á vettvangi ríkis og sveitarfélaga fellur hvorki grunn-menntun né símenntun eða fagleg starfsþróun nægilega vel að markaðri stefnu ríkis og sveitarfélaga og starfsfólk skóla nýtur því ekki nægilegs stuðnings til að innleiða menntun án aðgreiningar sem stefnu sem byggist á rétti hvers og eins.

Niðurstöður í tengslum við þetta viðmið ríma að öllu leyti við atriðin sem íslenski starfshópurinn fjallaði um í skjalinu Gagnrýnið sjálfsmat (2. viðauki).

Mat á vísbendingunum er sem hér segir:

7.1 Vísbendingin Litið er á kennaramenntun sem samfellt starfsævilangt verkefni er á því stigi að:

    úrbóta er þörf.

7.2 Vísbendingin Markmið allrar faglegrar starfsþróunar er að móta umgjörð viðhorfa og gilda, þekkingar og kunnáttu sem fellur vel að opinberri stefnu um menntun án aðgreiningar er á því stigi að:

    úrbóta er þörf.

7.3 Vísbendingin Stefnan um menntun án aðgreiningar er orðin föst í sessi í öllu námi og starfsþróun skólastjórnenda og kennara er á því stigi að:

    úrbóta er þörf.

7.4 Vísbendingin Öllu starfsfólki er gefinn kostur á almennri og sérhæfðri þjálfun við sitt hæfi til þess að tryggja að það geti brugðist við fjölbreyttum nemendahópi á jákvæðan hátt er á því stigi að:

     úrbóta er þörf.

7. viðmiðið í heild, Unnið sé að faglegri starfsþróun á árangursríkan hátt á öllum stigum kerfisins, er á því stigi að:

    úrbóta er þörf.

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta