34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir
Skilgreining málefnasviðs
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.
Útgjaldarammi - heildaryfirlit og breytingar eftir tilefnum
Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum, sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.
Heildargjöld málefnasviðs 34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir árið 2024 eru áætluð 70.226,4 m.kr. og aukast um 4.207,6 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2023, eða sem svarar til 7,1%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 12.739,3 m.kr. milli ára, eða sem svarar til 22,2%.
Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, til að mynda þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhaldsráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.
Útgjaldarammi - hagræn skipting útgjalda
Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.
34.10 Almennur varasjóður
Starfsemi málaflokksins er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra. Samkvæmt 24. gr. laga um opinber fjármál er almennum varasjóði ætlað að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg. Samkvæmt lögum skal sjóðurinn nema að lágmarki 1% af heildarfjárheimild fjárlaga. Almennum varasjóði er einkum ætlað að mæta frávikum í launa-, gengis- og verðlagsforsendum fjárlaga og meiri háttar ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum, s.s. vegna náttúruhamfara, eða útgjöldum sem ókleift er að mæta með öðrum hætti samkvæmt fjárlögum. Óheimilt er að gjaldfæra útgjöld á almenna varasjóðinn en fjármála- og efnahagsráðherra er einum heimilt að ráðstafa fjármunum úr honum. Skal það gert að uppfylltum tilteknum skilyrðum og eru fjárheimildir þá millifærðar á þá málaflokka þar sem kostnaður fellur til. Nánar er fjallað um framangreind skilyrði og verkferlið í kafla 5.7 Varasjóðir og millifærslur fjárheimilda innan fjárlagaárs
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 45.071,3 m.kr. og hækkar um 8.200 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 2.222 m.kr. Ekki eru gerðar miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins er lækkuð um 17.100 m.kr. en um er að ræða fjárheimild sem var tímabundið staðsett á almenna varasjóðnum í fjárlögum 2023 til að mæta kjarasamningshækkunum á yfirstandandi ári þegar samningar næðust. Á yfirstandandi ári hefur verið samið við nánast öll stéttarfélög ríkisstarfsmanna og hafa fjárheimildir verið millifærðar af varasjóðnum í ár yfir á viðeigandi málaflokka til að mæta kostnaði við kjarasamningana. Í frumvarpinu eru fjárheimildir málefnasviða og málaflokka hækkaðar varanlega sem nemur kostnaði við kjarasamningana á ársgrundvelli og er því fyrrgreind fjárheimild felld niður á móti.
- Fjárheimild málaflokksins hækkar um 18.800 m.kr. Sá hluti launabreytinga fjárlagafrumvarpsins sem er vegna reiknaðra launahækkana komandi fjárlagaárs er allur lagður inn á almenna varasjóðinn í stað þess að dreifast niður á málefnasvið og málaflokka. Um er að ræða sams konar fyrirkomulag og var viðhaft í gildandi fjárlögum og er lýst hér að framan. Kjarasamningar við flestöll félög ríkisstarfsmanna verða lausir í lok mars á næsta ári og ríkir mikil óvissa um framvindu fyrirliggjandi kjarasamningsgerðar og hvenær samkomulag muni nást.
- Fjárheimild málaflokksins hækkar um 9.200 m.kr. til að styrkja sjóðinn frekar við að sinna því hlutverki sínu að geta mætt ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum á næsta ári. Talsverð óvissa er fyrir hendi fyrir komandi fjárlagaár s.s. hvað varðar fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd og niðurstöðu kjarasamninga. Í ljósi aðstæðna þykir rétt að svigrúm varasjóðsins sé nægjanlegt fyrir komandi fjárlagaár til að geta mætt slíkum óvissuþáttum án þess að raska afkomu- og skuldamarkmiðum ríkissjóðs.
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 1.000 m.kr. vegna lækkunar á almennu fjárfestingarsvigrúmi sjóðsins. Svigrúmið er lækkað til að vega á móti hluta af aukningu stofnframlaga frá því sem hafði verið gert ráð fyrir í forsendum fjármálaáætlunar 2024–2028.
34.20 Sértækar fjárráðstafanir
Starfsemi málaflokksins er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra en nánar er fjallað um hann í fjármálaáætlun. Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 476,2 m.kr. og lækkar um 2,4 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum sem nema 7,7 m.kr. Ekki eru gerðar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins. Hlutdeild í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 2,4 m.kr.
34.30 Afskriftir skattkrafna
Starfsemi málaflokksins er í höndum fjármála- og efnahagsráðherra. Eðli málaflokksins er með þeim hætti að ekki verður fjallað um markmið og aðgerðir varðandi starfsemi hans. Um er að ræða fjárheimild á móti gjaldfærslu á bæði beinum afskriftum skattkrafna sem taldar eru sannanlega tapaðar, t.d. vegna gjaldþrota, og óbeinum afskriftum þar sem kröfur eru færðar niður um tiltekinn hluta sem reynsla bendir til að muni að líkindum ekki innheimtast. Um er að ræða kröfur vegna álagðra skatta, álagðra vaxta á ógreidda skatta og annarra tekna. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun. Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 24.679,9 m.kr. og hækkar um 2.310 m.kr. Ekki eru gerðar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.