15 Orkumál
Skilgreining málefnasviðs
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Undir málefnasviðinu er einn málaflokkur: 15.10 Stjórnun og þróun orkumála sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.
Útgjaldarammi - heildaryfirlit og breytingar eftir tilefnum
Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.
Heildargjöld málefnasviðs 15 Orkumál árið 2024 eru áætluð 14.651,1 m.kr. og aukast um 5.933,1 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2023 eða sem svarar til 70,1%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 6.189,7 m.kr. milli ára eða sem svarar til 70,1%.
Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, t.a.m. þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhaldsráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.
Útgjaldarammi – hagræn skipting útgjalda
Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.
15.10 Stjórnun og þróun orkumála
Starfsemi málaflokksins er í höndum Orkustofnunar sem heldur utan um verkefni Orkusjóðs og auk þess heyra niðurgreiðslur á húshitun og jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku undir málaflokkinn. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.
Helstu verkefni 2024 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
Markmið 1: Tryggt orkuöryggi fyrir alla landsmenn |
||
Söfnun og miðlun upplýsinga um raforkuframboð og bætt yfirsýn og eftirlit með tiltæku varaafli raforku í landinu. Aukin úrræði til að tryggja orkuöryggi. |
Orkustofnun |
Innan ramma |
Aukið eftirlit og stýring vegna öryggisbirgða olíu. |
Orkustofnun |
Innan ramma |
Nýir orkukostir og bætt orkunýtni. Svo sem vindorku á landi og á hafi, greining á möguleikum smávirkjana, varmadælna, sólar- og sjávarfallaorku og nýting glatvarma. |
Orkustofnun o.fl. |
Innan ramma |
Markmið 2: Aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskap landsins |
||
Aukinn stuðningur við orkuskipti. Beinn stuðningur við kaup á ökutækjum er ganga fyrir hreinni orku og uppbygging innviða. |
Orkusjóður |
7.500 m.kr. |
Greining á stöðu innviða fyrir orkuskipti og uppfærð orkuskiptaáætlun. |
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti |
Innan ramma |
Orkuskipti í húshitun – varmadælur.* |
Orkusjóður |
Innan ramma |
Átaksverkefni um leit og nýtingu jarðhita.** |
Orkusjóður |
Innan ramma |
Breyting á fyrirkomulagi með beinum styrkjum.**** |
Orkusjóður |
Innan ramma |
Fræðsla og hnippingar varðandi úthlutun beinna styrkja til almennings til kaupa á hreinorkubifreiðum.**** |
Orkusjóður |
Innan ramma |
Markmið 3: Jöfnun orkukostnaðar á landsvísu |
||
Átak í jarðstrengjavæðingu og þrífösun á dreifikerfi raforku á landsbyggðinni.*** |
RARIK og Orkubú Vestfjarða |
Innan ramma |
Áframhaldandi jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku á landsbyggðinni. |
Orkustofnun |
Innan ramma |
Aukin neytendavernd og samkeppni á raforkumarkaði. |
Orkustofnun o.fl. |
Innan ramma |
* Með breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunar í júní 2022 var styrkjakerfi einfaldað til kaupa á orkusparandi búnaði til húshitunar (svo sem varmadælum) á svæðum þar sem ekki er hitaveita. Áætlað heildarumfang nemur 1–1,3 ma.kr. næstu 8–10 ár frá og með 2023. Verkefnið styður einnig við markmið 3 í sama málaflokki.
** Alþingi samþykkti, að tillögu fjárlaganefndar, að veita 450 m.kr. til átaksverkefnis um leit og nýtingu jarðhita á árunum 2023–2025 í fjárlögum 2023.
*** Leiðir af vinnu átakshóps stjórnvalda um uppbyggingu innviða. Heildarumfang verkefnisins er áætlað 600 m.kr. frá 2021 til 2025. Þar af er tillaga að fjármögnun 275 m.kr. af byggðaáætlun. Styður einnig við markmið 1.
**** Um er að ræða jafnréttisaðgerðir sem er ætlað að stuðla að jafnara kynjahlutfalli og aukinni fjölbreytni í hópi styrkþega. Markmið verður skilgreint í fjármálaáætlun 2025-2029.
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 14.394,5 m.kr. og hækkar um 5.933,1 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 256,6 m.kr.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild hækkar um 7.500 m.kr. sem er ætlað í margvísleg verkefni til orkuskipta, s.s. styrki til hreinorkuökutækja, átaksverkefni og til innviðauppbyggingar. Um er að ræða tilflutning fjármagns á gjaldahlið ríkissjóðs af tekjuhlið þar sem það var nýtt sem hagrænn hvati í formi ívilnanaafsláttar á virðisaukaskatti vegna innflutnings og kaupa á hreinorkuökutækjum o.fl. Á móti falla niður tímabundin framlög upp á 1,4 ma.kr. vegna bílaleigubíla og þungaflutningsbifreiða sbr. c og d lið.
- Fjárheimild málaflokksins hækkar um 13 m.kr. sem er almennt útgjaldasvigrúm.
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 1.000 m.kr. þar sem tímabundin fjárveiting til átaksverkefnis til kaupa á hreinorkuökutækjum bifreiða fellur niður.
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 400 m.kr. þar sem tímabundið fjármagn til orkuskipta í þungaflutningum fellur niður.
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 88 m.kr. þar sem tímabundið fjárframlag til sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna framkvæmda við lagningu stofnlagnar hitaveitu fellur niður.
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 25,8 m.kr. vegna breytinga á áætluðum sértekjum málefnasviðs.
- Fjárheimild málaflokksins hækkar um 33 m.kr. vegna hækkunar á tekjuáætlun vegna jöfnunargjalds við dreifingu raforku
- Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 99,1 m.kr. sem skiptist þannig að 35,7 m.kr. koma til lækkunar hjá Orkustofnun og 63,4 m.kr. hjá Orkusjóði.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.