12 Landbúnaður
Skilgreining málefnasviðs
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð matvælaráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.
Útgjaldarammi - heildaryfirlit og breytingar eftir tilefnum
Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum, sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.
Heildargjöld málefnasviðs 12 Landbúnaður árið 2024 eru áætluð 22.961,4 m.kr. og lækka um 47,6 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2023, eða sem svarar til 0,2%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 1.582,3 m.kr. milli ára, eða sem svarar til 7,4%.
Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, t.a.m. þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhaldsráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.
Útgjaldarammi - hagræn skipting útgjalda
Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.
12.10 Stjórnun landbúnaðarmála
Starfsemi málaflokksins varðar stjórnsýslu Matvælastofnunar, nýtingu auðlinda lands, vöktun og eftirlit stjórnvalda. Matvælastofnun sinnir ýmsum stjórnsýsluverkefnum, eftirliti, fræðslu og þjónustu við landbúnað, sjávarútveg, fiskeldi, fyrirtæki og neytendur í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla. Búvörusamningar móta að miklu leyti regluverk og stuðningsaðgerðir stjórnvalda í þágu landbúnaðar og hafa þar með talsverð áhrif á starfsskilyrði greinarinnar. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.
Helstu verkefni 2024 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
Markmið 1: Efla fæðuöryggi og standa vörð um heilbrigði plantna og dýra, velferð dýra og öryggi matvæla |
||
Efling kornræktar til aukningar á innlendri framleiðslu á korni til fóðurs og til manneldis, sbr. fjármálaáætlun 2024–2028. |
Matvælaráðuneyti |
198 m.kr. |
Mótun og innleiðing aðgerðaáætlana í kjölfar samþykktrar landbúnaðarstefnu og matvælastefnu. |
Matvælaráðuneyti |
Innan ramma |
Innleiðingar EES-reglugerða um öryggi matvæla og dýraheilbrigði. |
Matvælaráðuneyti |
Innan ramma |
Gerð verkefnaáætlunar fyrir söfnunarkerfi dýraleifa (dýrahræ og aukaafurðir dýra sem ekki er ætlað til manneldis), ásamt útboði og innleiðingu kerfisins. |
Matvælaráðuneyti |
Innan ramma |
Innleiðing verndandi arfgerða gegn riðuveiki í íslenska sauðfjárstofninn. |
Matvælaráðuneyti |
110 m.kr. |
Markmið 2: Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna landbúnaðar og auka bindingu |
||
Efling rannsókna og frekari þróun loftslagsverkefna í landbúnaði. |
Matvælaráðuneyti |
Innan ramma |
Útfærsla og innleiðing aðgerða samkvæmt endurskoðaðri aðgerðaáætlun í loftlagsmálum. |
Matvælaráðuneyti |
Innan ramma |
Útfærsla ramma um framleiðslu vottaðra kolefniseininga í landbúnaði og annarri tengdri landnotkun. |
Matvælaráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti |
Innan ramma |
Markmið 3: Skapa skilyrði til fjölbreyttari landbúnaðarframleiðslu með sjálfbæra landnýtingu og nýsköpun að leiðarljósi |
||
Innleiðing endurskoðaðra búvörusamninga. |
Matvælaráðuneyti |
Innan ramma |
Efling lífrænnar framleiðslu samkvæmtaðgerðaáætlun. |
Matvælaráðuneyti |
Innan ramma |
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 21.200,2 m.kr. og hækkar um 13 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 1.531,6 m.kr.
Rekstrarframlög hækka um samtals 251,9 m.kr. að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum en þar munar mest um í fyrsta lagi 126 m.kr. framlag til að eflingar stjórnsýslu fiskeldis á sviði eftirlits með sjókvíaeldi, í öðru lagi 110 m.kr. framlag til innleiðingar verndandi arfgerða í íslenska sauðfjárstofninn og í þriðja lagi 37,6 m.kr. framlag til að stuðla að aukinni innlendri framleiðslu á korni til fóðurs og til manneldis. Rekstrartilfærslur lækka um 238,2 m.kr. að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum en þar munar mest um samtals 272 m.kr. niðurfellt framlag sem veitt var tímabundið til að bregðast við alvarlegri stöðu í matvælaframleiðslu. Þá lækka raungreiðslur vegna búvörusamninga um samtals 126,6 m.kr. Á móti er gert ráð fyrir að veita um 160,4 m.kr. til fyrrgreinds kornverkefnis. Að frátöldum aðhaldsráðstöfunum er ekki um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins hækkar um samtals 198 m.kr. til aðgerða sem eiga að stuðla að aukinni innlendri framleiðslu á korni til fóðurs og til manneldis. Gert er ráð fyrir að fjármagnið skiptist á milli verkefna til fjárfestingarstuðnings og innviðauppbyggingar í kornrækt annars vegar og beins stuðnings við kornframleiðslu hins vegar. Fyrri hluta tímabilsins verði megináhersla lögð á kynbótastarf og innviðauppbyggingu og á síðari hluta verði innleiddur beinn stuðningur við kornframleiðslu, í samræmi við áherslur sem birtast í aðgerðaáætlun Landbúnaðarháskóla Íslands um aukna kornrækt, Bleikir akrar. Gert er ráð fyrir að á komandi árum fari framlagið til verkefnisins stighækkandi. Verkefnið er í samræmi við markmið 1 í málaflokki 12.1.
- Fjárheimild málaflokksins hækkar um 126 m.kr. til að auka eftirlit Matvælastofnunar með sjókvíaeldi og tryggja fullnægjandi eftirlit með skráningum og innra eftirliti sjókvíaeldisfyrirtækja. Gert er ráð fyrir að framlagið muni hækka á komandi árum og verði í kringum 230 m.kr. frá og með 2026. Tillagan er hluti af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áskorunum í sjávarútvegi og fiskeldi með því að efla stjórnsýslulega umgjörð þessara málaflokka og stuðla þannig að aukinni verðmætasköpun fyrir íslenskt þjóðarbú til framtíðar. Gert er ráð fyrir að um 2/3 hlutar fjármagnsins fari í að fjölga stöðugildum í fiskeldisdeild Matvælastofnunar en að um 1/3 fari til uppbyggingar, viðhalds og reksturs á búnaði. Verkefnið er í samræmi við markmið 3 í málaflokki 13.1 og er þar fjallað nánar um verkefnið.
- Gert er ráð fyrir 110 m.kr. hækkun á fjárheimild málaflokksins til að mæta kostnaði við arfgerðagreiningu til hraðrar innleiðingar verndandi arfgerða í íslenska sauðfjárstofninn í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar 28. apríl 2023. Í greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands kemur fram að hægt væri að innleiða verndandi arfgerðir gagnvart riðusmiti á takmörkuðum svæðum þannig að eftir fimm ár verði yfir 80% ásetts fjár á mestu áhættusvæðunum arfblendið eða arfhreint fyrir verndandi samsætum og þar af leiðandi ólíklegt til að veikjast af riðu. Verkefnið er í samræmi við markmið 1 í málaflokki 12.1.
- Gert er ráð fyrir 272 m.kr. lækkun fjárheimildar þar sem tímabundið framlag fellur niður. Um er að ræða framlag sem veitt var til að bregðast við alvarlegri stöðu í matvælaframleiðslu í samræmi við tillögur spretthóps sem matvælaráðherra skipaði þann 8. júní 2022 í kjölfar verulegra verðhækkana á alþjóðamörkuðum á aðföngum til frumframleiðslu sem fyrst og fremst var vegna stríðsins í Úkraínu.
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 126,6 m.kr. að raungildi í samræmi við ákvæði samninga um starfsskilyrði í nautgriparækt, sauðfjárrækt, garðyrkju og rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins.
- Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 129,9 m.kr.
12.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum
Starfsemi málaflokksins er í höndum matvælaráðuneytisins. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Helstu verkefni 2024 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
Markmið 1: Jafnrétti í stuðningi við nýsköpun í matvælaframleiðslu |
||
Leitast verður eftir jöfnu kynjahlutfalli við úthlutun úr Matvælasjóði. |
Matvælaráðuneyti |
Innan ramma |
* Verkefnið fellur undir málaflokk 7.1, sbr. umfjöllun þar.
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 741 m.kr. og lækkar um 43,6 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 36,4 m.kr.Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 30 m.kr. þar sem tímabundið framlag sem veitt var til eins árs, til að mæta kostnaði við tjón af völdum skriðufalla í Út-Kinn í október 2021, fellur niður.
- Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 26,6 m.kr.
12.60 Stjórnsýsla matvælaráðuneytis
Undir málaflokkinn heyrir stjórnsýsla matvælaráðuneytisins. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 1.019,9 m.kr. og lækkar um 17 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 61,9 m.kr.
Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins hækkar um 18 m.kr. til að efla stjórnsýslu fiskeldis varðandi stefnumörkun, reglusetningu og yfirumsjón með málefnum fiskeldis auk þess að taka þátt í erlendu samstarfi er varðar málaflokkinn. Tillagan er hluti af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áskorunum í sjávarútvegi og fiskeldi með því að efla stjórnsýslulega umgjörð þessara mikilvægu málaflokka og stuðla þannig að aukinni verðmætasköpun fyrir íslenskt þjóðarbú til framtíðar.
- Fjárheimild málaflokksins hækkar um 13 m.kr. vegna samsvarandi hækkunar almenns útgjaldasvigrúms.
- Gert er ráð fyrir 10 m.kr. hækkun á fjárheimild málaflokksins. Hækkunin er hluti af breyttri forgangsröðun innan ramma málefnasviða matvælaráðuneytisins en samtals er gert ráð fyrir að 24,5 m.kr. flytjist af málefnasviði 21 yfir á málefnasvið 12 og 13.
- Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 60 m.kr.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.