03 Æðsta stjórnsýsla
Umfang
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð forsætisráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2022–2024.

Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýn forsætisráðuneytisins er að Ísland verði í fremstu röð þegar kemur að samhæfðri og framsækinni stjórnsýslu sem styður við góða þjónustu við íbúa landsins.
Meginmarkmið forsætisráðuneytisins er að styðja forsætisráðherra til að sinna forystu- og samhæfingarhlutverki sínu í samfélaginu, á vettvangi ríkisstjórnar og innan Stjórnarráðs Íslands.
Fjármögnun
Helstu breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins á tímabili fjármálaáætlunar skýrast af almennu útgjaldasvigrúmi, niðurfellingu tímabundins framlags og aðhaldskröfu á málefnasviðið. Sértæk aðhaldsráðstöfun gerir ráð fyrir að framlag til viðbyggingar Stjórnarráðshússins falli niður en verði tekið upp þegar endurskoðað umfang og kostnaður við bygginguna liggur fyrir.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Helstu áherslur 2025–2029
03.1 Embætti forseta Íslands
Verkefni
Undir málaflokkinn fellur rekstur forsetaembættisins. Það er viðvarandi verkefni að treysta umgjörð embættisins í samræmi við stöðu forseta Íslands sem þjóðhöfðingja, æðsta handhafa framkvæmdarvalds og annars handhafa löggjafarvalds í landinu og tryggja þannig að forsetinn fái sinnt embættisskyldum sínum innan lands og erlendis af kostgæfni og virðuleik.
03.2 Ríkisstjórn
Verkefni
Undir málaflokkinn fellur launaliður ráðherra í ríkisstjórn og aðstoðarmanna þeirra. Liðurinn tekur breytingum í samræmi við fjölda ráðherra og aðstoðarmanna á hverjum tíma.
03.3 Forsætisráðuneyti
Verkefni
Forsætisráðherra stýrir störfum ríkisstjórnarinnar og samhæfir þau, er helsti málsvari hennar og ber höfuðábyrgð á því að stjórnarsáttmálinn sé innleiddur. Forsætisráðuneytið styður við þetta hlutverk forsætisráðherra og tryggir að starfsemi ríkisstjórnarinnar sé í samræmi við lög. Í tengslum við ríkisstjórn starfa ráðherranefndir sem ráðuneytið hefur umsjón með.
Forsætisráðuneytið fer með mál er varða stjórnskipan lýðveldisins og samskipti æðstu handhafa ríkisvalds. Þróun stjórnskipunar og endurskoðun stjórnarskrár fellur þar undir sem og aðgerðir til að efla traust almennings til stjórnvalda, treysta lýðræðislega stjórnhætti, jafnrétti og vernd mannréttinda.
Ráðuneytið fer með stjórnarfar almennt, þ.m.t. lög um Stjórnarráð Íslands, stjórnsýslulög, upplýsingalög og lög um vernd uppljóstrara. Bætt siðferði í opinberri stjórnsýslu fellur einnig hér undir, sbr. lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands.
Ráðuneytið fer með forystu og samhæfingu á vettvangi Stjórnarráðsins. Það birtist m.a. í reglulegum fundum ráðuneytisstjóra og umsjón með ráðherranefndum en einnig í samstarfi t.d. upplýsingafulltrúa, mannauðsstjóra og skjalastjóra ráðuneyta.
Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verður hugmyndafræði sjálfbærni, réttlátra umskipta og aukinnar samkeppnishæfni leiðarstef í yfirstandandi umbreytingum á sviði efnahags, umhverfis og samfélags.
Forsætisráðuneytið leiðir vinnu við mótun stefnu um sjálfbæra þróun fyrir Ísland, þvert á ráðuneyti og í samstarfi við fjölda hagsmunaaðila, undir heitinu Sjálfbært Ísland. Markmiðið með þeirri vinnu er að tryggja aukið samráð og samstarf þvert á samfélagið í þágu sjálfbærrar þróunar, samþættingu við velsældaráherslur og tryggja réttlát umskipti og samþættingu við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í alla stefnumótun og áætlanagerð stjórnvalda.
Ráðuneytið hefur fyrir hönd Íslands leitt samstarf á vettvangi velsældarríkja undir formerkjum WEGo-samstarfsins (e. Well-being Economic Governments). Stjórnvöld í Skotlandi eru í forystu en önnur ríki í samstarfinu eru Nýja-Sjáland, Wales og Finnland, auk Kanada sem er með stöðu áheyrnarfulltrúa. Ráðuneytið er leiðandi innan Stjórnarráðsins í samstarfi við Hagstofu Íslands við að tryggja reglulega uppfærslu á 40 velsældarmælikvörðum, oft nefndir velsældarvísar, sem ríkisstjórnin hefur samþykkt sem leiðarljós um hagsæld og lífsgæði í landinu. Þá hafa sex tilteknar velsældaráherslur verið settar í forgrunn í umfjöllun málefnasviða ráðuneytanna við gerð fjármálaáætlunar þessarar. Samstarfshópur þriggja ráðuneyta, undir forystu forsætisráðuneytisins, vinnur að því að styrkja nánar tengingu velsældarvísa og velsældaráherslna ríkisstjórnarinnar við áætlanagerð, bæði hvað varðar forgangsröðun útgjaldamála og við stefnumótun málefnasviða. Nánar er fjallað um velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar og tengingar þeirra við ákvarðanatöku og áætlanagerð í almennri greinargerð fjármálaáætlunarinnar. Í þeirri umfjöllun eru áherslurnar settar í samhengi við meginstefnumið og úrlausnarefni í opinberum fjármálum fyrir árin 2025–2029.
Forsætisráðherra fer með málefni þjóðlendna samkvæmt forsetaúrskurði nr. 125/2021. Þjóðlendur eru landsvæði þar sem íslenska ríkið er eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Um þjóðlendur gilda lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998. Nú sér fyrir endann á umfangsmiklu starfi óbyggðanefndar er felst í að skera úr um mörk þjóðlendna og eignarlanda. Við tekur umsýsla ríkis og sveitarfélaga með þjóðlendum þar sem sjálfbær nýting í þágu allra landsmanna verður höfð að leiðarljósi.
Forsætisráðherra fer með formennsku í þjóðaröryggisráði og leiðir starfsemi þess. Forsætisráðuneytið veitir þjóðaröryggisráði alla nauðsynlega starfsaðstöðu og aðstoð við störf þess. Meginverkefni þjóðaröryggisráðs er að hafa eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og er vettvangur samráðs um þjóðaröryggismál. Þá leggur þjóðaröryggisráð mat á ástand og horfur í þjóðaröryggismálum.
Þjóðhagsmálefni og málefni Seðlabanka Íslands heyra undir ráðuneytið sem og Hagstofa Íslands sem nánar er fjallað um á málefnasviði 6 Hagskýrslugerð og grunnskrár.
Jafnréttismál og mannréttindamál eru á verksviði forsætisráðuneytis og ítarlega er fjallað um þau mál undir málaflokki 32.2 Jafnréttismál.
Embætti ríkislögmanns og óbyggðanefndar eru einnig á verksviði forsætisráðuneytis og er fjallað um þau undir málaflokki 9.3 Ákæruvald og réttarvarsla.
Umboðsmaður barna er undir málaflokki 29.4 Annar stuðningur við einstaklinga, fjölskyldur og börn.
Helstu áskoranir
Samhæfing aðgerða og ákvarðanatöku stjórnvalda vegna yfirstandandi jarðhræringa á Reykjanesskaga og framtíðarfyrirkomulag aðgerða vegna langvarandi hættuástands á svæðinu eru meðal helstu áskorana ráðuneytisins. Vinna þarf áfram að því að bæta áfallaþol innviða og samfélagsins og samhliða huga að fyrirkomulagi, ákvarðanatöku og stjórnun þegar hættu- og óvissuástand varir um lengri tíma í byggð.
Til skoðunar er hvernig nýta megi þjóðlendur til að ná markmiðum Íslands í loftslagsmálum, sbr. gildandi aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sbr. 5. gr. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, þar sem kveðið er á um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu hér á landi. Á grunni þess er í athugun að skilgreina verkefni sem tengir saman bindingu kolefnis og endurheimt vistkerfa á illa förnu landi í þjóðlendum með aðferðafræði vistheimtar. Miðað er við að verkefnið verði rekið á breiðum samfélagsgrunni með þátttöku hagaðila undir forystu forsætisráðherra í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og matvælaráðherra.
Mótun og framkvæmd stefnu um sjálfbæra þróun og innleiðing á hugmyndafræði velsældarhagkerfa verður forgangsverkefni ráðuneytisins og Stjórnarráðsins á komandi árum. Verkefnið er umfangsmikið og í mótun. Í því felast dýrmæt tækifæri enda endurspegla áherslurnar stefnu ríkisstjórnarinnar þar sem úrbóta er þörf og lögð er áhersla á að horft sé til framtíðar á mikilvægum sviðum með sjálfbærni alls samfélagsins að leiðarljósi. Ein stærsta áskorunin eða ógnin sem blasir við er loftslagsbreytingar og áhrif þeirra og því er brýnt að samhæfa aðgerðir og verkefni ráðuneyta á því sviði sem og öðrum er lýtur að sjálfbærnimálum.
Forsætisráðuneytið hefur um árabil gegnt mikilvægu hlutverki við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Á þessu kjörtímabili verður haldið áfram þeirri heildarendurskoðun sem hófst á síðasta kjörtímabili. Haldin hafa verið málþing um greinargerðir sérfræðinga um þrjá mikilvægustu kafla stjórnarskrárinnar, þ.e. um mannréttindi, dómstóla og Alþingi. Haldið verður áfram að ræða og skoða hvort ná megi samstöðu um tilteknar breytingar.
Aðkoma forsætisráðuneytisins að alþjóðamálum hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Endurspeglast það nú í forsetaúrskurði þar sem segir að Evrópusamvinna sé sérstakt áherslumál á sviði samhæfingar er heyri undir forsætisráðuneytið. Áfram verður unnið með utanríkisráðuneytinu og öðrum ráðuneytum að skilvirkri þátttöku í EES-samstarfinu og öflugri hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd. Ráðuneytið hyggst einnig beita sér fyrir því að efla þekkingu um EES-samninginn innan Stjórnarráðsins. Í þessu efni er m.a. byggt á tillögum í skýrslu starfshóps um EES-samstarf frá september 2019.
Þjóðaröryggisráð hefur bent á að breytt öryggisumhverfi hefur áhrif á Ísland og kallar á aukna árvekni á fleiri sviðum og krefst víðtæks samráðs og samhæfingar innan stjórnsýslunnar og á alþjóðavettvangi. Þetta kallar á aukið vægi þjóðaröryggisráðs sem sameiginlegs samráðs- og samhæfingarvettvangs framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins um þjóðaröryggismál og framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar. Á næstu árum verður í starfi þjóðaröryggisráðs lögð áhersla á að styrkja aukið samráð og samhæfingu innan stjórnkerfisins og samráð við Alþingi í því skyni að stuðla að markmiðum þjóðaröryggisstefnunnar. Þá verður lögð aukin áhersla á að styrkja umgjörð þjóðaröryggisráðs og greinargetu í þágu þjóðaröryggisráðs til stuðnings lögbundnum verkefnum ráðsins, m.a. vegna samráðs og samhæfingar, að leggja mat á ástand og horfur í þjóðaröryggismálum og að efla opna lýðræðislega umræðu um þjóðaröryggismál.
Tækifæri til umbóta
Það eru tækifæri að leiða þá vinnu sem er fólgin í því að útfæra og styðjast við þá 40 velsældarmælikvarða sem ríkisstjórnin hefur valið sem leiðarljós um hagsæld og lífsgæði í landinu.
Þá eru tækifæri fólgin í því að ná enn betri yfirsýn innan stjórnkerfisins yfir framtíðaráskoranir, m.a. á vettvangi þjóðaröryggisráðs, nýstofnaðs Vísinda- og nýsköpunarráðs og nýrrar lögbundinnar ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun, og auka getu stjórnvalda og íslensks samfélags til að bregðast við fjölbreyttum aðstæðum og áskorunum sem upp geta komið.
Forsætisráðuneytið beitir sér fyrir bættu siðferði í opinberri stjórnsýslu og aðgerðum til að efla traust. Ráðuneytið tekur virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði, m.a. innan vébanda GRECO, ríkjahóps gegn spillingu og þátttöku í könnunum OECD á trausti almennings gagnvart opinberum aðilum og drifkröftum þess. Þá hefur verið ákveðið, í þágu trausts, að efla enn frekar almenningssamráð við opinbera stefnumótun. Tækifæri í ráðuneytinu og í stjórnsýslunni almennt eru ekki síst fólgin í auknum stafrænum lausnum og leiðum til þess að ná betur til íbúa.
Áhættuþættir
Áhættuþættir felast í því ef vandamál koma upp tengt því hlutverki forsætisráðuneytisins að tryggja vandaða stjórnsýslu og samhæfingu, auk hlutverks á sviði þjóðaröryggis. Einnig er áhætta tengd því að ekki náist árangur í verkefnum stjórnvalda til að stuðla að sjálfbærri þróun og árangur, m.a. í loftslagsmálum, sem hefði víðtæk efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfisleg áhrif.
Markmið og mælikvarðar
Markmið |
HM |
Mælikvarðar |
Staða 2023 |
Viðmið 2025 |
Viðmið 2029 |
|
Gott siðferði í opinberri stjórnsýslu.* |
16.6 |
Traust á stjórnvöldum. |
* |
55% |
60% |
|
16.6 |
Traust ungs fólks á stjórnvöldum. |
* |
40% |
45% |
|
|
16.6 |
Siðferði opinberra starfsmanna. |
* |
26% |
18% |
|
|
Aukin velsæld og sjálfbærni.** |
16.6 |
Sjálfbærnivísitala – sæti. |
29 |
15 |
10 |
|
16.6 |
Uppfylling heimsmarkmiðanna. |
78,3 |
83 |
85 |
|
|
16.6 |
Jákvæð sjálfbærniáhrif ríkja. |
45,8 |
56 |
65 |
|
|
Auka skilning á fjölþættri mismunun í skilningi laga um jafna meðferð.*** |
4,5 |
Fjöldi fræðslufunda til almennings og hagsmunahópa. |
- |
4 |
8 |
|
4,5 |
Fræðsla til annarra ráðuneyta. |
- |
12 |
12 |
|
|
4,5 |
Kærunefnd jafnréttismála – fjöldi mála til nefndarinnar.**** |
10 |
12 |
15 |
|
*Stuðst er við gögn úr könnunum OECD um traust almennings gagnvart opinberum stofnunum. Könnun var gerð haustið 2023 og verða niðurstöður hennar birtar í júní 2024.
**Stuðst við sjálfbærniskýrslu Sameinuðu þjóðanna – mat á ríkjum. https://dashboards.sdgindex.org/profiles
***Fjölþætt mismunun: Kynþáttur, þjóðernisuppruni, trú, lífsskoðun, fötlun, aldur, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáning.
**** Með breytingum á lögum fjölgar þeim mismununarþáttum sem hægt er að kæra til nefndarinnar, ekki lengur bundið eingöngu við kyn heldur bætast við þættirnir þjóðernisuppruni, trú, lífsskoðun, fötlun, aldur, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáning. Tölur í töflunni sýna væntanlega fjölgun mála hjá nefndinni vegna aukins skilning á fjölþættri mismunun í skilningi laga um jafna meðferð.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2025-2029
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.