Hoppa yfir valmynd

Nýjar leiðir í fjármögnun til að flýta samgönguframkvæmdum - Rammagrein 3

Í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 sem hlaut ekki afgreiðslu þingsins voru kynnt áform um jarðgangaframkvæmdir fyrir allt að 185 ma.kr. yfir 15 ára tímabil. Jarðgangaáætlunin var sett fram utan ramma fjármálaáætlunar og því óljóst er hvernig staðið verði að fjármögnun jarðganga og annarra flýtiframkvæmda. Vegna þröngrar stöðu ríkisfjármála liggur fyrir að afar takmarkað svigrúm verður til að ráðast í slíkar stórframkvæmdir á næstu árum á grundvelli beinna framlaga úr ríkissjóði samkvæmt samgönguáætlun.

Ef rjúfa á þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í jarðgangagerð hér á landi, eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, er því mikilvægt að leita nýrra leiða til að fjármögnunar sem einnig gætu nýst til að flýta öðrum mikilvægum samgönguverkefnum. Í því samhengi má horfa til reynslu nágrannaríkja með áherslu á þjóðhagslega arðsamar flýtiframkvæmdir. Talsverður ávinningur fylgir því fyrir þjóðarbúið að ráðist verði í auknar framkvæmdir á sviði samgangna, m.a. til að auka umferðaröryggi, stytta umferðar­leiðir og bæta tengingar milli byggða og atvinnusvæða.

Til að greiða fyrir auknum innviðaframkvæmdum er til skoðunar að stofna sérstakt innviðafélag eða ríkisaðila sem sér um fjármögnun stærri samgöngu­framkvæmda, s.s. vegna jarðganga og sambærilegra flýtiframkvæmda. Umgjörð um fjármögnun, framkvæmd og rekstur umferðarmannvirkja sem falla undir fyrirkomulag af þessu tagi þarf að skilgreina vel með fjárhagslega sjálfbærni að leiðarljósi enda yrði fjármögnun utan A1-hluta fjárlaga.

Til greina kemur að leggja slíkum aðila til eigið fé frá ríkinu, t.a.m. í formi fyrirliggjandi samgönguinnviða til að búa til tekjustreymi sem nýtt yrði til að ráðast í arðsamar nýframkvæmdir og uppfærslu á eldri innviðum. Slíkum aðila mætti einnig veita heimildir til lántöku, þar sem framtíðartekjustreymi af samgönguinnviðum yrði veðsett til að fjármagna arðbærar fjárfestingar í nýjum samgönguinnviðum en þó þannig að það valdi ekki óásættanlegri áhættu fyrir ríkissjóð. Þannig mætti t.a.m. hvetja til aukinnar aðkomu lífeyrissjóða og annarra fjárfestingarsjóða að innviðafjárfestingum. Þar sem um ríkisaðila væri að ræða myndi þó áhætta af afkomu verkefna slíks innviðafélags liggja hjá ríkissjóði.

Samhliða þessu þyrfti að ráðast í endurskoðun á lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir til að mögulegt verði að koma á árangursríku samstarfi milli ríkis, lífeyrissjóða og einkaaðila við innviðauppbyggingu. Meginmarkmiðið með samvinnu­verkefnum er að flýta fjárhagslega sjálfbærum framkvæmdum með aðkomu einkaaðila ásamt því að yfirfæra áhættu af byggingu og rekstri slíkra fjárfestinga frá ríkinu. Stærstu óvissuþættirnir við mat á því hvort verkefni teljist sjálfbært lúta að umferðarmagni og greiðsluvilja auk óvissu um endanlegan kostnað, einkum þegar kemur að jarðgangagerð. Í þeim tilvikum þar sem mikil óvissa er um tekjur af veggjöldum, eða ljóst að slíkar tekjur standa ekki með beinum hætti undir fjárfestingunni, er brýnt að hægt sé að bjóða blandaða fjármögnunarleið með „skuggagjöldum“ frá ríkinu sem miðast við tiltekna lágmarks­umferð eða fastar reiðugreiðslur til að einkaaðili sé reiðubúinn að taka þá áhættu sem felst í því að byggja og reka mannvirkið yfir tiltekinn tíma.

Til baka
Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta