Hoppa yfir valmynd

Forgangsraðað og hagrætt í ríkisrekstri - Rammagrein 4

Eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar er að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir sem er liður í því að ná stjórn á fjármálum ríkisins og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta. Í því skyni efndi ríkisstjórnin í upphafi árs til samráðs við þjóðina undir yfirskriftinni Verum hagsýn í rekstri ríkisins. Jafnframt var óskað eftir tillögum til hagræðingar, einföldunar og umbóta frá ráðuneytum og öllum stofnunum ríkisins. Alls bárust tæplega 4.000 tillögur, langflestar frá einstaklingum. Starfshópur um hagræðingu í ríkisrekstri  vann úr tillögunum og skilaði tillögum sínum til ríkisstjórnar í byrjun mars.

Tillögurnar sem bárust endurspegla áherslu almennings á skilvirkari og gagnsærri opinbera þjónustu og varpa ljósi á ákveðna þætti sem almenningur telur brýnt að endurskoða. Helstu hugðarefnin snúa að sameiningu og fækkun opinberra stofnana, skýrari ábyrgðarskiptingu og samræmingu hlutverka þeirra. Sérstaklega var vísað til fámennra eininga og stoðþjónustu sem gæti notið samreksturs og samnýtingar, t.d. í upplýsingatækni, mannauðsmálum og inn­kaupum. Þá kom fram fjöldi tillagna um einföldun sjóðaumhverfis, m.a. með sameiningu sjóða, og umbætur í rekstri hins opinbera með minni skjalaumsýslu og aukinni stafvæðingu. Þá var sérstaklega bent á tækifæri til að bæta innkaupastarfsemi ríkisins með aukinni gagnadrifinni greiningu, samræmingu útboða og skýrari samningum við birgja. Af tillögunum má ráða að almenningur telji mikilvægt að draga úr umfangi og tvíverknaði innan stjórnsýslunnar, m.a. með því að sameina stofnanir sem sinna sambærilegum verkefnum og samræma stjórn­sýsluhlutverk.

Umbætur og hagræðing í rekstri ríkisins er mikilvægur liður í breyttri forgangsröðun fjármuna sem þessi fyrsta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ber vitni um. Nú þegar er hafin vinna við innleiðingu einstakra hagræðingartillagna og lögð verður áhersla á samráð og gagnsæi í þeirri vinnu. Þá hefur hluti tillagna frá fyrrnefndum starfshópi og ráðuneytum verið tekinn inn í áætlunina og þannig skapað svigrúm fyrir forgangs­mál ríkisstjórnarinnar. Ráðstafanirnar felast m.a. í frestun eða niðurfellingu verkefna, endurskoðun á forsendum fjárveitinga, endurskoðun fyrirkomulags eða hagræðingu í rekstri. Umfangsmikil vinna mun fara fram á árinu 2025 við frekari úrvinnslu og útfærslu þeirra fjölmörgu tillagna til hagræðingar og einföldunar stjórnsýslu sem aflað hefur verið á fyrstu mánuðum kjörtímabilsins. Allt kjörtímabilið er undir í þessari vinnu, fyrstu áætlanir birtast í þessari fjármálaáætlun en gert er ráð fyrir að í desember 2025 liggi fyrir nákvæmar áætlanir hjá öllum ráðuneytum fyrir kjörtímabilið.

Til baka
Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta