ÍL-sjóður - Rammagrein 5
Unnið hefur verið að úrvinnslu á eignum og skuldum ÍL-sjóðs (áður Íbúðalánasjóðs) um nokkurra ára skeið. Skýrsla um stöðu sjóðsins var lögð fyrir Alþingi í október 2022 þar sem farið var yfir sögu sjóðsins og helstu þætti sem leiddu til þess að sjóðurinn komst í þau fjárhagsvandræði sem nú er glímt við. Einföld ríkisábyrgð er á skuldum sjóðsins en markmið úrvinnslunnar er að lágmarka áhættu og kostnað ríkissjóðs vegna ábyrgðarinnar. Í skýrslunni er farið yfir mögulegar leiðir en áhersla lögð á að ná samkomulagi við kröfuhafa sjóðsins um uppgjör á skuldum sjóðsins og ríkisábyrgðinni.
Þann 23. febrúar 2024 var tilkynnt að fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ÍL-sjóðs og íslenska ríkisins, og fulltrúar 18 lífeyrissjóða, sem saman fara með stærstan hluta skuldabréfa sem ÍL-sjóður er útgefandi að, myndu hefja viðræður um uppgjör á skuldabréfum sjóðsins. Markmið viðræðnanna væri að ná samkomulagi sem fæli í sér að skuldabréfin yrðu gerð upp að fullu og skilyrði sköpuð fyrir slitum ÍL-sjóðs.
Þann 10. mars 2025 birti viðræðunefnd fjármála- og efnahagsráðherra og ráðgjafar lífeyrissjóða sameiginlegar tillögur um uppgjör HFF-bréfa sem greiða muni fyrir slitum ÍL-sjóðs. Verkefnisstjórn ÍL-sjóðs hafði áður lagt til við fjármálaráðherra að unnið yrði að framgangi tillögunnar.
Tillagan felur í sér að í tengslum við uppgjörið gefur ríkissjóður út ný ríkisskuldabréf að fjárhæð 540 ma.kr. Sú útgáfa felur í sér uppgjör á bæði lántöku ríkissjóðs hjá ÍL-sjóði á síðustu árum að fjárhæð 238 ma.kr. og á ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum ÍL-sjóðs.
Virði HFF-bréfanna í uppgjörinu er metið á 651 ma.kr. Í uppgjörstillögunum felst að ÍL-sjóður og íslenska ríkið afhendi kröfuhöfum áðurnefnd ríkisskuldabréf að andvirði 540 ma.kr., önnur verðbréf í eigu ÍL-sjóðs að andvirði 38 ma.kr, gjaldeyri og reiðufé að andvirði 73 ma.kr. Ríkissjóður mun taka við hluta af vaxtaberandi eignum ÍL-sjóðs, samtals að fjárhæð um 222 ma.kr. en þar er um að ræða húsnæðislánasafn ÍL-sjóðs auk annarra verðbréfa.
Tillaga viðræðuhópsins verður lögð fyrir fund kröfuhafa þann 10. apríl nk. en samþykki 75% atkvæða eftir kröfufjárhæð þarf til að tillagan að uppgjöri teljist bindandi fyrir alla kröfuhafa. Verði tillagan samþykkt mun fjármála- og efnahagsráðherra óska eftir heimild Alþingis til að ljúka uppgjöri í samræmi við tillöguna. Þá verður öðrum kröfuhöfum ÍL-sjóðs boðið uppgjör krafna sinna. Við uppgjör krafna og slit ÍL-sjóðs verður gætt að gagnsæi og jafnræði meðal kröfuhafa.
Áætlað er að verði tillagan samþykkt muni uppgjörið skila jákvæðu greiðsluflæði til ríkissjóðs fram yfir tímabil fjármálaáætlunar m.a. þar sem í núgildandi áætlunum er gert ráð fyrir að ríkissjóður endurgreiði lánið til ÍL-sjóðs á næstu árum.. Verði tillagan samþykkt verður lánið endurfjármagnað með nýjum ríkisskuldabréfum til langs tíma. Að auki er jákvætt greiðsluflæði af þeim eignum sem ríkissjóður tekur við í uppgjörinu þar sem að mestu er um að ræða húsnæðislán sem skila vöxtum og afborgunum. Þá er gert ráð fyrir að skuldahlutföll A-hluta ríkissjóðs, eins og Hagstofan færir þau á þjóðhagsreikningagrunni, lækki um a.m.k. 5% af vergri landsframleiðslu að uppgjöri loknu. Ástæða lækkunarinnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi færði Hagstofan skuldir ÍL-sjóðs á gangvirði við uppskiptingu Íbúðalánasjóðs 2019 en síðan þá á bókfærðu virði í samræmi við uppgjör sjóðsins. Það er hærri fjárhæð en samkomulag um uppgjörið tekur til. Í öðru lagi lækkar skuldahlutfallið þar sem um brúttóskuldahlutfall er að ræða, þ.e. eignir koma ekki til frádráttar skuldum. Hluti uppgjörsins er greitt með eignum ÍL-sjóðs, sem koma þá til frádráttar skuldum og lækkar skuldahlutfallið. Ríkisábyrgðir munu jafnframt lækka um 88% miðað við stöðu í árslok 2024.
Með uppgjörinu væri gert upp að fullu við eigendur bréfanna sem í flestum tilfellum eru lífeyrissjóðir og bundinn endir á óvissu tengdri ríkisábyrgð á skuldum ÍL-sjóðs með hagfelldum hætti fyrir alla hagsmunaaðila. Þar með yrði leyst úr flóknu og erfiðu viðfangsefni.