Breytingar á framsetningu stefnumótunar málefnasviða – gagnvirkt mælaborð með upplýsingum um árangur - Rammagrein 6
Með lögum um opinber fjármál var árangursmiðuð áætlanagerð innleidd og lengi vel hafa þær upplýsingar um árangur sem lögin gera ráð fyrir verið birtar í þremur ólíkum ritum; markmið og mælikvarðar í fjármálaáætlun, verkefni og aðgerðir í fjárlagafrumvarpi og staða markmiða og aðgerða í ársskýrslu ráðherra. Til að samhæfa betur þessar upplýsingar, bæta aðgengi að þeim og auka gagnsæi er unnið að þróun gagnvirks mælaborðs.
Gert er ráð fyrir að á mælaborðinu verði birt markmið og mælikvarðar í hverjum málaflokki ásamt viðmiðum um þann árangur sem lagt er upp með að ná á tilgreindu tímabili. Jafnframt verði birtar upplýsingar um verkefni og aðgerðir sem miða að skilgreindum markmiðum og loks uppgjör á stöðu mælikvarða og aðgerða að ári liðnu. Þannig verði á einum stað auðveldlega hægt að átta sig á árangri af ráðstöfun fjárveitinga í hverjum málaflokki fyrir sig og þróun yfir tíma.
Með mælaborðinu næst betri yfirsýn yfir árangur og unnt að nýta með markvissari hætti upplýsingar um ávinning af fyrri ráðstöfunum við mótun stefnu og aðgerða. Til að nýta þessi tækifæri sem best verða tímasetningar stefnumótunar og stöðutöku stillt betur af við fjárlagaferlið líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.