12 Landbúnaður
Starfsemi á málefnasviðinu er á ábyrgð atvinnuvegaráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu, ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026–2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Landbúnaður á Íslandi byggir á verðmætasköpun, traustum rekstrargrundvelli og sjálfbærri nýtingu auðlinda. Nýliðun og kynslóðaskipti eru auðveldari í framkvæmd. Landbúnaður hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og hefur aðlögunarhæfni gagnvart loftslagsbreytingum. Öflugt umhverfi nýsköpunar og rannsókna stuðlar að framþróun í framleiðslu. Matvæla- og fæðuöryggi byggir á traustum undirstöðum og framleiðsla miðar að heilbrigðu umhverfi, heilsu fólks og heilbrigði dýra. Framleiðsla er fjölbreytt og þörfum neytenda mætt.
Meginmarkmið málefnasviðsins er að efla íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu, ýta undir vöxt og verðmætasköpun og styrkja stoðir til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Tryggja skal matvæla- og fæðuöryggi í þágu einnar heilsu (e. one health) og hámarka velferð dýra.
Stefna málefnasviðsins
Helstu verkefni sem falla undir málefnasviðið eru: stjórnun landbúnaðarmála og framkvæmd búvörusamninga, stjórnsýsla Matvælastofnunar, nýting auðlinda lands, vöktun og eftirlit stjórnvalda. Matvælastefna og landbúnaðarstefna til ársins 2040 voru samþykktar á Alþingi í júní 2023 og er horft til þeirra sem leiðarvísis til næstu ára. Aðgerðaáætlanir matvælastefnu og landbúnaðarstefnu voru gefnar út í september 2024 og eru til fimm ára. Jafnframt móta búvörusamningar að miklu leyti regluverk og stuðningsaðgerðir stjórnvalda í þágu landbúnaðar og hafa þar með talsverð áhrif á starfsskilyrði greinarinnar.
Framleiðsla landbúnaðarafurða varðar samfélagið allt og felast tækifæri í eflingu atvinnugreinarinnar með hliðsjón af fæðu- og matvælaöryggi. Ein helsta áskorun í landbúnaði er fjárhags- og afkomuvandi bænda og hefur íslenska ríkið ítrekað gripið til sértækra aðgerða til að stuðla að bættri afkomu innan greinarinnar. Síðustu ár hefur vandinn einkum verið tvíþættur, annars vegar bráðavandi innan ákveðins hluta atvinnugreinarinnar sem rekja má til hækkunar fjármagnskostnaðar og hins vegar vandi til lengri tíma sem tengist framleiðni og veikleikum í stuðningskerfi landbúnaðarins. Mikill munur er í rekstri innan landbúnaðarins, bæði á milli búgreina og innan þeirra, og búgreinar því misvel í stakk búnar að takast á við áskoranir. Nýliðun og kynslóðaskipti hafa verið erfið fyrir atvinnugreinina. Þá fela áhrif loftslagsbreytinga á matvælaframleiðslu og aðlögun að þeim í sér mikla áskorun fyrir atvinnugreinina.
Til að bregðast við áskorunum í landbúnaði þarf að horfa á starfsumhverfi landbúnaðar í heild sinni til framtíðar. Núgildandi búvörusamningar renna út árið 2026 og er vinna hafin við mótun nýs stuðningskerfis fyrir landbúnað sem tekur mið af samþykktri landbúnaðarstefnu til ársins 2040. Áhersla verður lögð á að stuðningur við landbúnað skapi stöðugan og traustan grundvöll fyrir innlenda framleiðslu og til að efla stoðir landbúnaðar verður sérstaklega hugað að því að auðvelda kynslóðaskipti og nýliðun. Jafnframt er gert ráð fyrir að stuðningur hins opinbera verði samhæfður með það að markmiði að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Stuðlað verði að aðlögunarhæfni til að mæta þörfum neytenda á hverjum tíma.
Til að bregðast við áskorunum vegna loftslagsbreytinga verður unnið eftir aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum á tímabili áætlunarinnar en nokkrar af þeim 150 aðgerðum sem þar eru skilgreindar tengjast losun í landbúnaði. Jafnframt verður stuðningskerfi landbúnaðar þróað í þá átt að það hvetji til aukins samdráttar í losun í samræmi við landbúnaðarstefnuna.
Matvælaöryggi verður tryggt með skilvirku eftirliti og skýrri löggjöf þar sem eftirlit er samræmt um land allt. Ráðist verður í heildstæða endurskoðun á fyrirkomulagi matvæla- og heilbrigðiseftirlits til að tryggja samræmt, einfalt og skilvirkt eftirlit í þágu atvinnulífs og almennings og jafnframt bregðast við athugasemdum ESA um skipulag eftirlits. Tryggja þarf að bæði innlend matvæli og innflutt séu örugg til neyslu.
Til þess að Ísland geti orðið leiðandi í framleiðslu á heilnæmum afurðum þarf að stuðla að vernd og sjálfbærni búfjárstofna og dýraheilsu. Það tengist jafnframt lýðheilsu þar sem heilsa manna verður ekki aðskilin frá heilbrigði dýra og heilnæmu umhverfi. Alþjóða-heilbrigðismálastofnunin og Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin hafa hvatt þjóðir til að nálgast umfjöllun og aðgerðir í þessum efnum út frá hugtakinu „ein heilsa“ (e. one health). Landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu var gefin út í júlí 2024, unnið er markvisst að þeim aðgerðum sem skilgreindar eru þar og gengur ræktun gegn sjúkdómnum vonum framar. Stefnt er að því að innan 20 ára hafi riðuveiki verið útrýmt, að árið 2032 séu hverfandi líkur á að upp komi riðuveiki og að árið 2028 séu litlar líkur á að upp komi riðuveiki hér á landi. Jafnframt þarf að viðhalda góðri stöðu Íslands í baráttunni við sýklalyfjaónæmi og tryggja að framleiðsluhættir séu á þann veg að velferð dýra sé höfð að leiðarljósi. Aðgerðaáætlun gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis var gefin út af heilbrigðisráðuneytinu í júlí 2024 og er hún í gildi 2025–2029. Þá er unnið að stöðumati og mótun stefnu fyrir dýravelferð og dýraheilbrigði en löggjöf um þessi málefni þarfnast heildarendurskoðunar. Í þeirri vinnu er áhersla lögð á „eina heilsu“ og því unnið með hugtakið dýraheilsu.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins lækki um 261 m.kr. frá fjárlögum 2025 til ársins 2030. Helstu breytingar á fjárheimildum á tímabilinu snúa í fyrsta lagi að auknum framlögum í tengslum við aðgerðir til að innleiða verndandi arfgerðir í íslenska sauðfjárstofninn og er gert ráð fyrri að framlagið verði komið í 177,5 m.kr. á árinu 2026. Í öðru lagi er gert ráð fyrir samningsbundinni lækkun á framlögum til búvörusamninga á árinu 2026 en samningarnir renna út það ár. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir 100 m.kr. hækkun á árinu 2026 til að stuðla að aukinni innlendri framleiðslu á korni til fóðurs og til manneldis og verður þá framlag til verkefnisins komið í 478 m.kr. Aðrar helstu breytingar á fjárheimildum málefnasviðsins snúa að almennri og sértækri aðhaldskröfu, niðurfellingu á tímabundnum framlögum og breytingum á tekjuáætlun ríkisaðila sem samtals nema um 266 m.kr. til lækkunar á tímabilinu.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.