Hoppa yfir valmynd

29 Fjölskyldumál

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Forsætisráðuneytið
Heilbrigðisráðuneytið
Mennta- og barnamálaráðuneytið
Dómsmálaráðuneytið

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð félags- og húsnæðismálaráðherra, heilbrigðis­ráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, forsætisráð­herra og dómsmálaráðherra.

Málefnasviðið skiptist í sjö málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.

Heildarútgjöld í m.kr.

Helstu áherslur 2026–2030

Fjölskylduvænt samfélag

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Á Íslandi á að vera gott að búa, gott að eignast og ala upp börn, gott að vaxa úr grasi, eldast og tilheyra.

Gott samfélag byggir á samkennd og virðingu og þar er hlúð vel að fólki. Þar fær fólk jöfn tækifæri og þar er fjárfest í fólki og fjölskyldum. Fjárfestingin skilar sér í velsæld íbúanna og sterku og samheldnu samfélagi.

Markmiðið er skýrt: Að skapa samfélag sem styður við fólk og fjölskyldur á ólíkum æviskeiðum og stendur með þeim. Fólkið fyrst.

Stefna málefnasviðsins

Ríkisstjórnin setur málefni fjölskyldna á oddinn og sú stefna kvíslast um stjórnkerfið og heyrir undir nokkur málefnasvið. Á málefnasviði 29 Fjölskyldumál er fjöldi málaflokka þar sem stefnan miðar öll að því að bæta hag einstaklinga, barna og fjölskyldna á Íslandi.

Ríkisstjórnin ætlar að styrkja afkomuöryggi fólks í fæðingarorlofi og bæta þar sérstaklega hag tekjulægri foreldra. Fæðingarstyrkir námsmanna og fólks utan vinnumarkaðar verða hækkaðir og stuðlað að því að hækkanir í fæðingarorlofskerfinu gangi til allra foreldra í fæðingarorlofi, óháð fæðingardegi barns. Hagur fjölburaforeldra verður bættur og þeirra sem veikjast í kjölfar fæðingar eða á meðgöngu. Bæta á hag foreldra sem missa maka með því að tryggja þeim rétt til sorgarleyfis. Þróun barnabóta verður komið í fastar skorður svo fjöldi þeirra sem fá bætur haldist stöðugur og fjárhæðir haldi verðgildi sínu.

Stuðlað verður að því að innflytjendur fái tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu og áfram stuðlað að farsæld allra barna með því að efla þjónustu við börn og leita leiða til að tryggja að börn og foreldrar hafi án hindrana aðgang að samþættri þjónustu. Kapp er síðan lagt á að samþætta heimaþjónustu fyrir eldra fólk þannig að ólíkir þættir þjónustunnar séu vandlega fléttaðir saman. Unnið er að endurskoðun á dagpeningagreiðslum Sjúkratrygginga til einstaklinga sem verða óvinnufærir vegna veikinda eða slysa. Markmið vinnunnar er að einfalda fyrirkomulag og ná fram meiri samlegð með aukinni aðkomu Tryggingastofnunar í stað Sjúkratrygginga.

Aðkallandi er að gera úrbætur í málefnum barna og ungmenna með fjölþættan vanda og málefnum fullorðinna einstaklinga sem dæmdir hafa verið til öryggisráðstafana. Þjónusta við þessa hópa hefur hingað til verið ómarkviss og brotakennd og skortur verið á sérhæfðum búsetuúrræðum, en með markvissri uppbyggingu úrræða, samhliða nauðsynlegum laga­breytingum, má tryggja betri og öruggari þjónustu og betri nýtingu fjármuna.

Allt miðar þetta að því að gera Ísland að góðu og fjölskylduvænu samfélagi sem setur fólkið fyrst. Verkefnið er risavaxið og þannig fullt af áskorunum. Að samþætta þjónustu krefst samtals margra aðila. Að bæta fæðingarorlofskerfið er stöðugt verkefni sem snýr að því að tryggja barninu samveru með foreldrum sínum á fyrstu mánuðum lífsins. Að stuðla að því að fólk sem flytur hingað til lands fái tækifæri til að tilheyra er flókið verkefni sem felur í sér samstillt átak alls samfélagsins. Ótal tækifæri liggja hins vegar í þeirri skýru stefnu ríkisstjórnarinnar sem hér birtist.

Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins

Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins hækki um 5,9 ma.kr. á tímabili áætlunarinnar. Helstu breytingar eru þær að byggja á nýtt húsnæði vegna öryggisvistunar. Áætlaður kostnaður við byggingu viðeigandi húsnæðis á tímabili fjármálaáætlunar er 2,6 ma.kr. og er áætlað að framkvæmdum verði lokið árið 2028. Gert er ráð fyrir að framlög vegna reksturs öryggisvistunar aukist um 600 m.kr. árið 2027 og aftur um 600 m.kr. árið 2028, en þá verður um 1,8 ma.kr. varið árlega í rekstur öryggisúrræða.

Frá árinu 2026 mun fjárheimild málefnasviðsins hækka um 3 ma.kr. þegar ríkið tekur yfir ábyrgð og kostnað á búsetu barna með fjölþættan vanda utan heimilis samkvæmt samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Framlög til Fæðingarorlofssjóðs vaxa á hverju ári á tímabili áætlunarinnar og verða framlög árið 2030 í lok áætlunarinnar um 6,5 ma.kr. hærri en árið 2025. Breytingarnar skýrast af hækkun hámarksgreiðslna og spá um fæðingartíðni og launaþróun. Framlög vegna sorgarleyfis aukast um 340 m.kr. á tímabili áætlunarinnar.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi í m.kr.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta