Hoppa yfir valmynd

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Menningar-٫ nýsköpunar- og háskólaráðuneytið
Mennta- og barnamálaráðuneytið
Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið
Forsætisráðuneytið

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð forsætisráðherra, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Það skiptist í fimm málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.

Heildarútgjöld í m.kr.

Helstu áherslur 2026–2030

Aukið aðgengi að menningu, listum, íþróttum og frístundastarfi óháð efnahag og búsetu

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Allir landsmenn eiga að geta aukið lífsgæði sín með þátttöku í öflugu og fjölbreyttu starfi á sviðum lista, menningar, íþrótta- og frístundastarfs. Stefnt er að því að auka enn frekar útflutning og verðmætasköpun í skapandi greinum. Mannréttindi, tjáningarfrelsi og virðing fyrir fjölbreytileika verði leiðarstef í málefnum menningar og lista og minjum og menningararfi verði vel sinnt.

Meginmarkmið stjórnvalda á sviði menningar og lista eru m.a. að jafna og bæta tækifæri til ný- og atvinnusköpunar í menningarstarfi, listum og skapandi greinum. Áhersla er lögð á aðgengi landsmanna að menningarlífi og íþrótta- og frístundastarfi óháð efnahag og búsetu. Mikilvægt er að hlúa að varðveislu, aðgengi, miðlun og skráningu menningararfs þjóðarinnar. Styrkja skal stöðu íslensku og íslensks táknmáls sem eru opinber mál á Íslandi. Sérstaklega skal efla aðgengi barna og ungmenna að íþróttum, listum og frístundastarfi. Meginmarkmið stjórnvalda á sviði íþrótta- og frístundastarfs er að auka gæði og styrkja faglega umgjörð um skipulagt íþrótta- og frístundastarf.

Stefna málefnasviðsins

Nauðsynlegt er að efla innviði málefnasviðsins, einkum sem snýr að aðstöðu og húsnæði.

Kanna þarf fýsileika á auknu samstarfi eða sameiningu safna í eigu hins opinbera til að styrkja faglegt starf, samlegð í varðveislu safnkosts og betri nýtingu fjármuna. Verið er að stíga fyrsta skrefið í átt að sameinuðum sviðslistastofnunum ríkisins með fyrirkomulagi óperunnar innan Þjóðleikhússins og er áformað að Íslenski dansflokkurinn verði þar þriðji stólpinn. Áfram verður unnið að skráningu og viðbragðsáætlunum vegna menningarverðmæta og þeirrar hættu sem steðjar að safnkosti og menningarminjum um land allt vegna loftslags- eða náttúruvár og annarra hamfara.

Þróun og framtíð íslenskrar tungu á tímum örrar alþjóðavæðingar og tæknibyltinga er mikilvæg til að styrkja stöðu þjóðtungunnar. Í þingsályktun um málstefnu íslensks táknmáls og meðfylgjandi aðgerðaáætlun er lögð áhersla á meginstoðir sem munu efla, varðveita og stuðla að þróun íslensks táknmáls. Íslenskt táknmál er eina opinbera minnihlutamálið á Íslandi en á sama tíma í útrýmingarhættu.

Almennt skortir greinargóðar tölfræðilegar upplýsingar um menningarmál og skapandi greinar. Til að stefnumótun á þeim sviðum geti þróast þarf að halda áfram að efla söfnun og miðlun tölfræðiupplýsinga, t.a.m. með hliðsjón af kynja-, byggða- og jafnréttissjónarmiðum. Hagræn og samfélagsleg áhrif lista og menningar eru veruleg í samspili við atvinnulífið, s.s. í bókmenntum, hönnun, kvikmyndagerð, myndlist, sviðslistum, tónlist, tölvuleikjagerð og öðrum skapandi greinum.

Menningarsamningar og stuðningur við menningarhús á landsbyggðinni eru liður í að jafna tækifæri landsmanna til að njóta og taka þátt í menningu og listum um land allt. Áfram verður unnið á grunni þeirra stefna og aðgerðaáætlana sem mótaðar hafa verið á sviði menningar, lista og íþrótta- og æskulýðsmála á tímabili áætlunarinnar.

Meginmarkmið stjórnvalda á sviði íþrótta- og frístundastarfs er að efla innviði, auka gæði og styrkja faglega umgjörð um skipulagt íþrótta- og frístundastarf. Liður í því er endurskoðun laga í málaflokknum sem styður við nauðsynlegar breytingar sem eru í takt við samfélagslega þróun. Innleitt verður nýtt fyrirkomulag afreksíþróttastarfs og unnið er að undirbúningi þjóðar­leikvanga. Stefnt er að því að þjóðarhöll verði tekin í notkun síðla árs 2028. Unnið verður að því að efla nýjar svæðisstöðvar íþróttahreyfingarinnar sem vinna að því að efla faglegt starf innan íþróttafélaga um allt land með áherslu á jöfn tækifæri til þátttöku í íþróttastarfi, stuðning við þjálfara, farsæld barna, lýðheilsu og sjálfboðaliðastarf.

Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins

Gert er ráð fyrir 1,2 ma.kr. hækkun á útgjaldaramma málefnasviðsins vegna reksturs þjóðarhallar og áherslumála ríkisstjórnar í menningu. Á móti er gert ráð fyrir lækkun útgjalda vegna hagræðingar eða niðurfellingar tímabundinna fjárheimilda. Heildarbreyting fjárheimilda málefnasviðsins nemur 3,5 ma.kr. til lækkunar á tímabili fjármálaáætlunar.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi í m.kr. 

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta