Hoppa yfir valmynd

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks

Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð félags- og húsnæðismálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Það skiptist í fimm málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.

Heildarútgjöld í m.kr.

Helstu áherslur 2026–2030

Samfélag fyrir okkur öll

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Fatlað fólk, örorkulífeyrisþegar og fólk með mismikla starfsgetu er óaðskiljanlegur hluti af samfélaginu okkar, samfélagi sem á að tryggja mannréttindi fólks og vera fyrir okkur öll. Hvert og eitt okkar ætti að fá tækifæri til að blómstra og geta lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum.

Til þess að svo megi verða þarf stórhuga aðgerðir og skýra sýn, sýn sem byggir á því að við séum öll jafn mikils virði, sýn sem tryggir að við styðjum þau sem hafa litla eða enga aðra framfærslu en örorkulífeyrisgreiðslur og komum í veg fyrir að þau festist í fátæktargildru.

Á sama tíma er brýnt að þau sem geta og vilja taka þátt á vinnumarkaði fái til þess tækifæri og stuðning. Samfélagið verður miklu ríkara þegar við fáum öll að tilheyra og taka þátt.

Stefna málefnasviðsins

Ríkisstjórn Íslands ætlar að skapa samfélag fyrir okkur öll. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur sem er lykilatriði til að tryggja að fatlað fólki njóti mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og til jafns á við aðra. Með því metum við fatlað fólk jafnframt að verðleikum.

Kjaragliðnun launa og lífeyris verður stöðvuð og stór skref þar með stigin til að draga úr fátækt og bæta kjör þeirra sem hafa litla eða enga aðra framfærslu en örorkulífeyrisgreiðslur með því að tengja þróun lífeyris við þróun launavísitölu. Með þessu má segja að örorku­lífeyrisþegar fái í fyrsta sinn ígildi sætis við kjaraborðið. Bundið verður í lög að aldursviðbót á lífeyri öryrkja haldist ævilangt og áhersla lögð á að bæta grunnframfærslu tekjulágra lífeyrisþega og tryggja afkomuöryggi fólks.

Áskoranirnar eru fjölmargar. Fátækt er margslungin og erfið viðureignar. Að tryggja að fatlað fólk, örorkulífeyrisþegar og allt litróf mannlífsins sem hér er undir geti lifað sjálfstæðu og mannsæmandi lífi á eigin forsendum er langtímaverkefni. Það tekur tíma að breyta viðhorfum. Fatlaðir einstaklingar eru í viðkvæmari stöðu gagnvart mismunun, fordómum og ofbeldi en ófatlaðir, auk þess sem þeir geta orðið fyrir margþættri mismunun, s.s. á grundvelli kyns, kynhneigðar og uppruna, til viðbótar við fötlun sína. Hafa verður viðkvæma stöðu fatlaðs fólks í forgrunni við stefnumörkun og útfærslu aðgerða í málaflokknum.

Fólki sem fær endurhæfingarlífeyri fjölgaði á árunum 2023 og 2024 og gert er ráð fyrir áframhaldandi fjölgun árið 2025. Auk þess hefur meðallengd þess tímabils fólks í endurhæfingu verið að lengjast. Þessum hópi verður veitt þjónusta í samræmi við þarfir hans og markmið stjórnvalda um aukna virkni. Fylgjast þarf vel með þróuninni en hún gæti skýrst af áhrifum heimsfaraldurs Covid-19. Á síðustu árum hafa verið að renna út atvinnutengd réttindi sem nýttust til framfærslu þeirra sem misstu vinnuna í því mikla atvinnuleysi sem fylgdi heimsfaraldrinum.

Fjölmörg tækifæri eru hins vegar fólgin í fyrrnefndum breytingum og innleiðingu nýs örorkulífeyriskerfis sem tekur gildi í september 2025. Leiðarljósið er einfaldara greiðslukerfi sem styður við virkni fólks, samfelldar greiðslur í endurhæfingu, samvinna þjónustukerfa og stuðningur til aukinnar atvinnuþátttöku. Með farsælli innleiðingu og öflugum aðgerðum tökum við betur utan um fólk en áður og setjum fólkið fyrst.

Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins

Nýjar fjárveitingar hækka útgjaldaramma málefnasviðsins um 19,1 ma.kr. en á móti er gert ráð fyrir lækkun útgjalda vegna hagræðingar eða niðurfellingar tímabundinna fjárheimilda um 6,8 ma.kr. Breyting fjárheimilda málefnasviðsins nemur því 12,3 ma.kr. til hækkunar auk 8,6 ma.kr. vegna 1,5% kerfislægs vaxtar sem miðar við mannfjöldaspá. Samtals hækka fjárheimildir um 20,5 ma.kr. á tímabili áætlunarinnar.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar. Helstu breytingar eru þær að nýtt greiðslukerfi örorku er nú að fullu komið til framkvæmda og aukast fjárveitingar um 14,3 ma.kr. á árinu 2026 vegna þess. Þá er um að ræða 4,3 ma.kr. hækkun 2026 vegna fjölgunar einstaklinga í endurhæfingu en gert er ráð fyrir að dragi úr þeirri aukningu á tímabilinu og hún verði komin niður í 3 ma.kr. á árinu 2028. Einnig falla niður 4,5 ma.kr. framlög til jöfnunar örorkubyrði almennra lífeyrissjóða árið 2026

Útgjaldarammi í m.kr.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta