24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð heilbrigðisráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026–2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýn málefnasviðsins er sameiginleg öllum málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins, að íslensk heilbrigðisþjónusta sé á heimsmælikvarða og að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir sé hluti af allri þjónustu, að árangur heilbrigðisþjónustu sé metinn með því að mæla gæði, öryggi og aðgengi en ásamt því verði lögð áhersla á skilvirk þjónustukaup í allri heilbrigðisþjónustu. Framtíðarsýn bráðaþjónustu og sjúkraflutninga er að á Íslandi sé vel samhæft viðbragðs- og flutningsnet sem hefur á að skipa hæfu starfsfólki.
Meginmarkmið heilbrigðisþjónustu er að veitt sé örugg, aðgengileg og hagkvæm heilbrigðisþjónusta þar sem sjúklingum er tryggð greið leið að réttri þjónustu á réttum stað. Öruggir og skilvirkir sjúkraflutningar er mikilvægur þáttur í að tryggja markmið um jafnt aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustunni.
Stefna málefnasviðsins
Þar sem öldruðum fjölgar hlutfallslega hraðar en öðrum aldurshópum er mikilvægt að í boði séu fjölbreytt stuðningsúrræði til að styðja við að einstaklingar geti búið sem lengst í sjálfstæðri búsetu og draga úr færnitapi. Efling heimahjúkrunar og innleiðing velferðartæknilausna eru því mikilvægar aðgerðir til að auka skilvirkni og yfirsýn í þjónustunni. Mönnun heilbrigðisþjónustu er stór áskorun, nýting sérþekkingar heilbrigðisstétta með þverfaglega teymisvinnu, fjarheilbrigðisþjónustu og vegvísun í heilbrigðiskerfinu svo sem 1700 númerið, netspjall Heilsuveru og notkun myndstrauma eru tækifæri sem er ætlað að bæta þjónustu í heilsugæslu.
Undanfarin ár hefur biðtími eftir ákveðnum skurðaðgerðum lengst og fleiri aðgerðir og aðgerðarflokkar nú framkvæmdir utan sjúkrahúsa. Unnið er að því að hafa breytileika á tegundum og magni biðlistaaðgerða í takt við hvernig bið þróast. Jafnframt er unnið að aukinni skilvirkni þess kerfis sem heldur miðlægt utan um bið eftir völdum skurðaðgerðum. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu aukið, óháð aldri og meðferðarúrræði vegna vímuefnavanda efld.
Heilsugæslan verður leiðandi þátttakandi eflingu lýðheilsu og forvarna. Sérstök áhersla verður á að efla almenna og sérhæfða heimahjúkrun, fjölbreytta geðheilbrigðisþjónustu og nýsköpun þar sem hún getur stuðlað að betri meðferð, þjónustu og nýtingu mannafla. Til stendur að nýta tækifæri til afmörkunar á hlutverki heilsugæslunnar en með því næst fram hagræðing og aðgengi notenda verður betra. Þá eru til staðar tækifæri til að auka þverfaglegt samstarf sjálfstætt starfandi þjálfunaraðila og bjóða þannig einstaklingum sem hafa þörf fyrir þverfaglega endurhæfingarþjónustu en eru ekki með alvarlegan eða flókinn vanda upp á þverfaglega endurhæfingu utan stofnana. Þannig má draga úr þörf fyrir innlagnir á endurhæfingarstofnanir og mögulega seinka flutningi eldra fólks á hjúkrunarheimili. Fjölgun fagstétta í heilsugæslunni og aukinn fjöldi heilsugæslutengdra endurhæfingarúrræða eru liðir í að tryggja skilvirka og rétta þjónustu við vanda einstaklinga sem þurfa á þjónustu endurhæfingarstétta að halda.
Helstu áskoranir varðandi sjúkraflutninga/utan spítalaþjónustu eru vaxandi þörf fyrir þjónustuna vegna breytinga á skipulagi heilbrigðisþjónustu og fjölgunar ferðamanna hér á landi. Þá eru gerðar auknar kröfur um færni og þekkingu sjúkraflutningamanna sem oft sinna fyrstu þjónustu við veika og slasaða. Tækifærin felast m.a. í aðgengilegri grunnmenntun sjúkraflutningamanna og uppfærðum klínískum vinnuferlum. Stefnt er að því að faglegur stuðningur og skilvirkir ferlar styðji við afgreiðslu fleiri mála án þess að sjúklingur sé fluttur með sjúkraflutningum á heilbrigðisstofnun.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Fjárveitingar málefnasviðsins hækka um 6,6 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunar. Þar af er um 2,3 ma.kr. vegna áherslumála ríkisstjórnarinnar svo sem í geðheilbrigðismálum og til styrkingar heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.