Hoppa yfir valmynd

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta

Heilbrigðisráðuneytið
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð heilbrigðisráðherra og félags- og húsnæðis­málaráðherra.

Það skiptist í tvo mála­flokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.

Heildarútgjöld í m.kr.

Helstu áherslur 2026–2030

Hugsað til framtíðar

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að einstaklingar í þörf fyrir hjúkrunar- og endurhæfingar­þjónustu njóti öruggrar, aðgengilegrar og hagkvæmrar þjónustu. Einstaklingum verði gert kleift að búa sem lengst á eigin heimili, með þjónustu á réttu þjónustustigi á hverjum tíma. Endurhæfingarþjónusta grundvallast á þörfum notenda og kröfum um gæði, skilvirkni og árangur.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að tryggja stigskiptingu þjónustunnar og þjónustuþarfir eru metnar á viðeigandi hátt. Markmið endurhæfingarþjónustu er að veita þeim þverfaglega endurhæfingu sem hana þurfa, óháð aldri, vegna færniskerðingar af völdum veikinda, slysa eða af öðrum ástæðum.

Stefna málefnasviðsins

Undir málefnasviðið fellur m.a. uppbygging og starfsemi hjúkrunar- og dvalarrýma á hjúkrunarheimilum og á heilbrigðisstofnunum. Einnig dagdvöl, almenn og sérhæfð og Fram­kvæmdasjóður aldraðra ásamt endurhæfingu.

Helstu áskoranir málefnasviðsins í heild tengjast breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og fjölgun aldraðra. Hlutfall fólks 67 ára og eldra af mannfjölda var 13,5% árið 2024 og reiknað er með að það verði 15,3% árið 2040. Þá verða einstaklingar 67 ára og eldri orðnir um 78.000 í stað tæplega 52.000 árið 2024. Með hækkandi aldri og betri lifun vegna alvarlegra sjúkdóma má gera ráð fyrir fjölgun í hópi þeirra sem glíma við langvinna sjúkdóma af einhverju tagi sem skapar áskoranir fyrir bæði hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu framtíðarinnar. Mikilvægt er að þjónustan hverju sinni taki mið af því markmiði að fólk sé stutt til sjálfsbjargar, vinnufærni og sjálfstæðrar búsetu heima sem lengst og að þjónustan sé veitt á réttum tíma og á réttu þjónustustigi. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um þjóðarátak í umönnun eldra fólks og að fjárfest verði í styrkari stoðum heilbrigðis- og öldrunarþjónustu um land allt.

Í lok árs 2024 voru hjúkrunar- og dvalarrými á landinu öllu alls 3.108. Í framkvæmda­áætlun um byggingu hjúkrunarrýma 2024–2028 er gert ráð fyrir að alls 934 hjúkrunarrými verði tekin í notkun. Þar er fjölgun um 724 ný rými og 210 endurbætt rými. Áætluð þörf fyrir byggingu hjúkrunarrýma, miðað við núverandi notkun meðal einstaklinga 67 ára og eldri, er að opna þurfi um 100 ný rými á ári. Gangi framkvæmdaáætlunin eftir verður þeirri þörf mætt.

Meginaðgerðin í verkefninu Gott að eldast (heildarendurskoðun á þjónustu við aldraða) er samþætting heilbrigðis- og félagsþjónustu með það að markmiði að auka skilvirkni og hagkvæmni þjónustunnar. Þá er lögð áhersla á endurskoðun á mati á þörf eftir þjónustu og að stafvæða allar upplýsingar og umsóknir, til að tryggja samræmingu og skjóta afgreiðslu.

Mönnun fagfólks og ófaglærðs fólks í þjónustunni er og mun verða mikil áskorun á komandi árum vegna samkeppni um sérhæfðan mannafla en konur eru í meiri hluta þeirra sem starfa við umönnun og endurhæfingu á meðan karlar eru hlutfallslega fleiri í stjórnunarstöðum. Lögð er áhersla á aukna nýtingu velferðartækni og fjarheilbrigðislausna í þjónustu á málefna­sviðinu.

Ákvarðanir varðandi hjúkrunar-, dvalar-, dagdvalar- og endurhæfingarrými hafa mikil kynja- og jafnréttisáhrif og á það við um þau sem nýta eða eiga rétt á þjónustunni og aðstandendur þeirra. Karlar eru almennt yngri þegar þeir flytja inn á hjúkrunarheimili og hjúkrunarþyngd þeirra er metin meiri samhliða því að konur eru í meiri hluta endurhæfingar­þega ásamt því að mælast með meiri skerðingu lífsgæða vegna færnitaps. Taka þarf mið af þessum kynjamismun við skipulag heimaþjónustu. Nánast enginn munur er á biðtíma kynjanna eftir hjúkrunarrými eða endurhæfingu.

Helstu tækifærin á málefnasviðinu miða að því að tryggja snemmtæka íhlutun með heilsueflingu, heimaþjónustu, heimahjúkrun og nægu framboði af dagdvalarrýmum. Aðgerða­áætlunin Gott að eldast miðar að því að stuðla að heilbrigðri öldrun þannig að hlutfallslega færri þurfi á þjónustu að halda. Samþætting heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu er einn af lykilþáttum til að ná því markmiði. Lágþröskuldarúrræði í endurhæfingu eru einnig þáttur í snemmtækri íhlutun til að sporna við færnitapi á öllum lífsskeiðum. Með aukinni samhæfingu og samþættingu við veitingu þjónustunnar, samhliða vel skilgreindum þjónustuþörfum notenda hennar, má ná fram betri forgangsröðun í þau úrræði sem eru í boði og betri nýtingu mannafla og fjármagns.

Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins

Fjárveitingar málefnasviðsins hækka um 16,7 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunar vegna mikillar fjölgunar hjúkrunarrýma á tímabilinu.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi í m.kr.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta