03 Æðsta stjórnsýsla
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð forsætisráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026–2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýn er að æðsta stjórnsýsla ríkisins vinni samhent í þágu allra landsmanna og hlúi að grunngildum lýðræðislegs velferðarsamfélags.
Meginmarkmið æðstu stjórnsýslu ríkisins er að styðja forsætisráðherra til að sinna forystu- og samhæfingarhlutverki sínu í samfélaginu, á vettvangi ríkisstjórnar og innan Stjórnarráðs Íslands.
Stefna málefnasviðsins
Forsætisráðherra stýrir störfum ríkisstjórnarinnar og samhæfir þau, er helsti málsvari hennar og ber höfuðábyrgð á því að stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar sé innleidd. Forsætisráðuneytið styður við þetta hlutverk forsætisráðherra og tryggir að starfsemi ríkisstjórnarinnar sé í samræmi við lög. Í tengslum við ríkisstjórn starfa ráðherranefndir að samráði og samhæfingu stjórnarmálefna þvert á ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands. Á tímabili fjármálaáætlunarinnar er stefnt að nýbyggingu við Stjórnarráðshúsið sem mun hýsa starfsemi forsætisráðuneytisins og gerbreyta starfsaðstöðu æðstu stjórnsýslu ríkisins.
Meðal forgangsverkefna ríkisstjórnar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins er að hagræða í ríkisrekstri, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Á sama tíma vill ríkisstjórnin vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi, fjárfesta í innviðum til að auka verðmætasköpun og efla heilbrigðis- og velferðarþjónustu um land allt. Á tímabili fjármálaáætlunarinnar mun forsætisráðuneytið fara með forystu í stefnumótun og samhæfingu verkefna sem hafa að meginmarkmiði að stuðla að hagkvæmni og skilvirkni í ríkisrekstri til frambúðar, sjálfbærum vexti atvinnugreina og aukinni framleiðni í atvinnulífi. Forsætisráðuneytið mun fylgja þessum áherslum eftir og m.a. leiða vinnu um fækkun ýmissa stjórnsýslunefnda og sameiningu starfsstöðva nefnda, smærri stofnana og verkefna.
Þróun stjórnskipunar, endurskoðun stjórnarskrár, aðgerðir til að efla traust almennings til stjórnvalda og treysta lýðræðislega stjórnarhætti eru viðvarandi verkefni á málefnasviði æðstu stjórnsýslu. Tækifæri eru til að efla enn frekar almenningssamráð við opinbera stefnumótun, ekki síst til að treysta tiltrú almennings á opinberri stjórnsýslu. Þau felast ekki síst í auknum stafrænum lausnum og leiðum til þess að ná betur til íbúa landsins. Á tímabili þessarar fjármálaáætlunar verður unnið áfram að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar með sérstakri áherslu á ákvæði um auðlindir í þjóðareign í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Einnig verður í samstarfi við sveitarfélög unnið að umsýslu með þjóðlendum með sjálfbæra nýtingu í þágu allra landsmanna að leiðarljósi.
Forsætisráðuneytið fer með verkstjórn og samhæfingu á vettvangi Stjórnarráðsins. Ýmis tækifæri felast í forystu- og samhæfingarhlutverki forsætisráðuneytisins og birtast m.a. í reglulegu samráði æðstu stjórnenda Stjórnarráðsins og samhæfingu á vettvangi ráðherranefnda en einnig í umsjón með ýmsu samstarfi ráðuneyta, t.d. upplýsingafulltrúa, mannauðsstjóra og skjalastjóra. Tækifæri eru falin í því að vinna áfram að því að styrkja skipulag og getu æðstu stjórnsýslu til samhæfingar og verkefnastjórnunar þvert á ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands. Samhent stjórnsýsla auðveldar miðlægu framkvæmdarvaldi að vinna að ýmsum pólitískum áhersluverkefnum og mæta samfélagslegum áskorunum sem krefjast samstarfs þvert á stjórnarmálefni. Slíkar áskoranir birtast m.a. í breyttri samsetningu þjóðarinnar og lýðfræðilegum breytingum, viðbrögðum og réttlátum umskiptum vegna loftslagsbreytinga, örri tækniþróun og þróun gervigreindar. Samhæfing aðgerða og ákvarðanatöku stjórnvalda vegna yfirstandandi jarðhræringa á Reykjanesskaga og framtíðarfyrirkomulag aðgerða vegna langvarandi óvissu ástands á svæðinu eru áfram meðal helstu áskorana ráðuneytisins. Þessum áskorunum verður mætt með vinnu sem miðar að því að styrkja áfallaþol innviða og samfélagsins og stöðugri rýni á fyrirkomulagi, ákvarðanatöku og stjórnun þegar hættu- og óvissuástand varir um lengri tíma.
Aðkoma forsætisráðuneytisins að alþjóðamálum hefur aukist á undanförnum árum, ekki síst vegna breyttra aðstæðna í öryggis- og varnarmálum. Reglubundin samskipti og samráð milli norrænu forsætisráðuneytanna í aðdraganda mikilvægra funda og í samhengi við stærri mál sem upp koma á alþjóðavettvangi hafa vaxið í mikilvægi í skugga árásarstríðs Rússa í Úkraínu. Þá er styrking tengsla við Bandaríkjastjórn með helstu hagsmunamál að leiðarljósi viðvarandi verkefni sem og samráð við önnur bandalagsríki vegna leiðtogavíddar Atlantshafsbandalagsins. Mikilvæg eru einnig árvekni og viðbúnaður vegna ógna á Norður-Atlantshafi og málafylgju Íslands um helstu hagsmunamál á Norðurslóðum. Viðhald og styrking tengsla við framkvæmdastjórn og leiðtogaráð ESB með helstu hagsmunamál Íslands á vettvangi EES-samstarfsins að leiðarljósi er einnig áherslumál, ásamt stuðningi við hagsmunagæslu gagnvart einstökum ríkjum og alþjóðastofnunum.
Breytt öryggisumhverfi hefur áhrif á Ísland og krefst víðtæks samráðs og samhæfingar innan stjórnsýslunnar hérlendis og á alþjóðavettvangi. Til að vinna að markmiðum þjóðaröryggisstefnu íslenskra stjórnvalda er lykilmál á vettvangi þjóðaröryggisráðs að styrkja áfallaþol og grunnstoðir samfélagsins. Í þeim efnum þarf að líta til margvíslegra áskorana sem tengjast með fjölbreytilegum hætti og varða flest svið samfélagsins. Áfallaþol samfélagsins er mjög háð samfelldri virkni mikilvægra innviða. Ljóst er að ný staða í öryggismálum gerir kröfur til íslenskra stjórnvalda um yfirvegaðar, skilvirkar og skýrar aðgerðir til þess að tryggja öryggi samfélagsins.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Nýjar fjárveitingar hækka útgjaldaramma málefnasviðsins um 1.499 m.kr. en á móti er gert ráð fyrir lækkun útgjalda vegna hagræðingar eða niðurfellingar tímabundinna fjárheimilda um 2.079 m.kr. Breyting fjárheimilda málefnasviðsins nemur því 580 m.kr. til lækkunar. Hækkun og lækkun skýrist að stærstum hluta af tímabundnu framlagi til viðbyggingar Stjórnarráðshússins.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.