Hoppa yfir valmynd

28 Málefni aldraðra

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð félags- og húsnæðismálaráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.

Heildarútgjöld í m.kr.

Helstu áherslur 2026–2030

Áhyggjulaust ævikvöld

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Á Íslandi á að vera gott að eldast. Eldra fólki á að líða vel, búa við afkomuöryggi og njóta framúrskarandi velferðarþjónustu.

Eldra fólk á að geta framfleytt sér með tekjum sínum. Geti það ekki gert það á öflugt velferðarkerfi að grípa það. Allar greiðslur, þjónusta og stuðningur eiga að tryggja að öldruðum sé gert kleift að lifa með reisn.

Eldra fólk er ekki byrði á samfélaginu. Þvert á móti eru aldraðir mikils virði. Umfram allt á eldra fólk að búa við öryggi og eiga áhyggjulaust ævikvöld.

Stefna málefnasviðsins

Ríkisstjórn Íslands ætlar að taka þétt utan um eldra fólk. Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum aldraðra nær vítt og breitt um stjórnkerfið og fellur undir nokkur málefnasvið. Stoðir öldrunarþjónustu um land allt verða styrktar, ráðist í þjóðarátak í umönnun eldra fólks, stöðu hagsmunafulltrúa eldra fólks komið á fót og hjúkrunarrýmum fjölgað. Undir þetta málefnasvið, Málefni aldraðra, heyra greiðslur til eldra fólks og þar er stefnan skýr.

Kjaragliðnun launa og ellilífeyris verður stöðvuð. Ellilífeyrir mun frá og með árinu 2026 fylgja þróun launavísitölu í stað þess að taka mið af almennri launaþróun. Þannig er tryggt að greiðslur almannatrygginga dragist ekki aftur úr í samanburði við almenna þróun lífskjara. Hækki verðlag meira en launavísitala mun ellilífeyrir hækka til samræmis við verðlag. Gera á breytingar sem bæta hag þeirra sem fara á ellilífeyri og voru ung metin með örorku og eiga engin eða mjög takmörkuð atvinnutengd réttindi til ellilífeyris. Það er gert með því að tryggja að aldursviðbót þeirra sem bætist ofan á greiðslur vegna örorku falli ekki niður þegar þau ná ellilífeyrisaldri. Þessar aðgerðir, ásamt áherslum um að draga úr vægi tekjutenginga, vega þungt í baráttunni gegn fátækt og fyrir betri kjörum eldra fólks.

Þjóðin er að eldast og það eitt og sér felur í sér margvíslegar áskoranir, bæði þegar kemur að því að tryggja öllum framfærslu og heilbrigðisþjónustu. Í skýrslu fjármála- og efnahagsráðu­neytisins Langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum er að finna ítarlegri umfjöllun en þar segir að fólki sem er 80 ára og eldra muni fjölga úr 15.000 í 39.000 næstu þrjá áratugi. Áskorun er falin í því að ná að stuðla að heilbrigðri öldrun hjá hópi sem stækkar stöðugt. Tækifærin eru hins vegar fjölmörg. Eldra fólk er almennt virkara og hraustara en nokkru sinni fyrr. Stórar breytingar eru í farvatninu sem bæta munu hag eldra fólks hér á landi. Sóknarfæri eru fólgin í því að tryggja að eldra fólk geti framfleytt sér, fengið samþætta og góða þjónustu, búið sem lengst á eigin heimili og lifað sjálfstæðu lífi. Og þá verður gott að eldast á Íslandi.

Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins

Nýjar fjárveitingar hækka útgjaldaramma málefnasviðsins um 5,3 ma.kr. en á móti er gert ráð fyrir lækkun útgjalda vegna hagræðingar eða niðurfellingar tímabundinna fjárheimilda um 4 ma.kr. Breyting fjárheimilda málefnasviðsins nemur því 1,3 ma.kr. til hækkunar auk 18,6 ma.kr. vegna 3% kerfislægs vaxtar vegna fjölgunar aldraðra. Samtals hækka fjárheimildir um 19,9 ma.kr. á tímabili áætlunarinnar.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar. Gert er ráð fyrir samtals 5 ma.kr. hækkun á árunum 2026–2028 til að hækka almennt frítekjumark ellilífeyrisþega í þrepum og eins er gert ráð fyrir 300 m.kr. árlegum viðbótarframlögum til að aldursviðbót vegna örorku verði greidd með ellilífeyri.

Útgjaldarammi í m.kr.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta