17 Umhverfismál
Starfsemi á málefnasviði umhverfismála er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og skiptist í fimm málaflokka. Í eftirfarandi töflu má sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026–2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Til þess að sporna við og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og auka aðlögunarhæfni íslensks samfélags að breyttum heimi uppfyllir Ísland alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum skv. Parísarsamkomulagi og vinnur að markmiði um kolefnishlutleysi sem hefur verið lögfest fyrir árið 2040. Ísland er í fremstu röð loftslags- og umhverfisvænna samfélaga og byggir á réttlátum umskiptum við framkvæmd og eftirfylgni markvissra aðgerða sem miða að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, bindingu kolefnis og aðlögun að loftslagsbreytingum.
Öryggi almennings, eigna og mikilvægra innviða gagnvart náttúruvá er eins og best er á kosið. Þetta er tryggt með framkvæmd hættumats, uppbyggingu varnarvirkja, vöktun og rannsóknum á náttúruvá, menntun sérfræðinga í málaflokknum og aðlögun að loftslagsbreytingum.
Verndun náttúrufarslegra verðmæta er í fyrirrúmi og Ísland stendur við alþjóðlegar skuldbindingar sínar um vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Lögð er áhersla á viðhald og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni, vernd óbyggðra víðerna, virkar stjórnunar- og verndaraðgerðir og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Vatn, þessi undirstöðuauðlind þjóðarinnar, er vaktað og verndað og nýtt með sjálfbærum og ábyrgum hætti.
Ísland uppfyllir alþjóðlegar skuldbindingar sínar um minni myndun og urðun úrgangs og aukna endurnýtingu. Hringrásarhagkerfi með vörur og þjónustu er fest í sessi til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans.
Stefna málefnasviðsins
Til að ná þeim markmiðum, sem hafa verið sett bæði innan lands og alþjóðlega í loftslagsmálum, þarf að tryggja framkvæmd og eftirfylgni loftslagsaðgerða sem fram koma í aðgerðaáætlun stjórnvalda gagnvart losun frá samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu en einnig vegna landnotkunar. Ráðast þarf í forgangsröðun aðgerða á grunni kostnaðar- og ábatamats til að tryggja að sem mestur árangur náist á sem hagkvæmastan hátt sem allra fyrst. Samdráttur í losun frá landi er mikil áskorun en mestum árangri má ná með því að endurheimta framræst votlendi ásamt markvissum aðgerðum í landgræðslu og skógrækt.
Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum er kemur að vörnum, vöktun og viðbrögðum gagnvart náttúruvá. Tíðni eldgosa hefur margfaldast síðan Reykjaneseldar hófust. Loftslagsbreytingar valda auknum öfgum í veðurfari og vegna þeirra er búist við tíðari vatnsflóðum í ám, hækkun sjávarstöðu og auknum ágangi sjávar inn á strandsvæði og fleiri og stærri skriðuföllum. Þessi þróun hefur aukið álag á þá starfsemi sem lýtur að náttúruvá. Brugðist hefur verið við, einkum með aukinni uppbyggingu varnarmannvirkja gegn snjóflóðum og landbroti, átaki í framkvæmd hættumats, einkum á Reykjanesi, og uppsetningu sérhæfðra mælitækja um allt land. Fyrirhugað er að ljúka eins fljótt og kostur er uppbyggingu snjóflóðavarna fyrir byggð í samræmi við skýrslu um þörf fyrir snjóflóðavarnarvirki á Íslandi frá árinu 1996. Einnig að flýta hættumatsvinnu vegna eldgosa, vatns- og sjávarflóða og kortleggja skriðuhættu í óstöðugum hlíðum í því skyni að koma í veg fyrir að byggð þróist inn á skilgreind hættusvæði. Hættumat og kortlagning er forsenda þess að meta þörf á uppbyggingu varna og efla viðbragð. Aukið umfang og viðvarandi álag kallar á enn þéttara net mælitækja fyrir veðurfar, eldvirk svæði, ofanflóð, til mælinga á sjávarhæð og til mælinga á vatnsföllum til að tryggja öryggi íbúa, ferðamanna og mikilvægra innviða, líkt og fram kemur í skýrslu starfshóps um náttúruvá.
Þegar kemur að verndun náttúrufarslegra verðmæta og líffræðilegri fjölbreytni er áskorun að sífellt er lengra gengið í breytingum á náttúrulegu umhverfi og vistkerfum sem leiðir til breytinga á búsvæðum lífvera, landslagi og jarðmyndunum. Hér á landi einkenna hnignuð vistkerfi víðáttumikil landsvæði þar sem vinna þarf að stöðvun hnignunar og endurheimt vistkerfa. Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um vernd líffræðilegrar fjölbreytni sem gera auknar kröfur til verndunar og endurheimtar vistkerfa á landi og í hafi. Forsendan fyrir vernd náttúrufarslegra verðmæta og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda er að fyrir liggi fullnægjandi gögn og rannsóknir til að undirbyggja ákvarðanir og að viðeigandi stjórntækjum sé beitt með markvissum hætti. Lögð verður áhersla á gerð þolmarkarannsókna þar sem álag er mikið, byggðir upp innviðir á friðlýstum svæðum að teknu tilliti til verndarhagsmuna og farið verður í stjórnunar- og verndaraðgerðir, m.a. gerð stjórnunar- og verndaráætlana, til að tryggja að náttúran sé nýtt á sjálfbæran hátt. Gildandi lagaákvæði um skilgreiningu á óbyggðum víðernum er óskýrt sem torveldar kortlagningu og hindrar þar með aukna vernd þeirra. Unnið er að reglugerð um hvaða viðmið og forsendur skuli liggja til grundvallar kortlagningu óbyggðra víðerna. Stór svæði á landi njóta verndar vegna náttúrufarslegra verðmæta en það gildir hins vegar um afar lítinn hluta hafsvæða við Ísland. Fyrir liggja tillögur um fleiri svæði á landi sem þarfnast frekari verndunar en þekking á vistkerfum í hafi er hins vegar minni og stefnt er að aukinni verndun viðkvæmra tegunda, vistkerfa og vistgerða í hafi. Til að aukið umfang loftslagsaðgerða í landnotkun hafi ekki neikvæðar afleiðingar á líffræðilega fjölbreytni og aðra þætti náttúruverndar verða innleidd skýr markmið um val á landi til slíkra aðgerða. Sama máli gegnir um aðgerðir í hafi sem verða að byggja á ítarlegum rannsóknum á mögulegum hliðaráhrifum á lífríki.
Atvinnulíf í landinu og lífsgæði fólks byggjast að miklu leyti á tryggu aðgengi að vatni. Þar blasir við sú áskorun að eftirspurn eftir vatni er sífellt að aukast og því er mikilvægt að tryggja framboð og gæði vatns og að nýting þess sé sjálfbær ásamt því að viðhalda bæði líffræðilegri fjölbreytni og náttúrulegu ástandi vistkerfa ferskvatns og strandsjávar. Heilnæmt vatn er jafnframt til marks um hreina náttúru og styrkir ímynd Íslands út á við. Unnið er skv. stefnu sem birtist í vatnaáætlun sem jafnframt felur í sér aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun. Yfir stendur úttekt á framkvæmd gildandi áætlunar og fyrirhugað er að hefja undirbúning að næstu endurskoðun vatnaáætlunar sem lið í því að tryggja fullnægjandi vöktun og aðgerðir í vatnamálum svo öll okkar áform um nýtingu vatnsauðlindar geti náð fram að ganga.
Einn lykilþátta í að hægt verði að standa við alþjóðlegar skuldbindingar varðandi loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni er að virkt hringrásarhagkerfi komist á hér á landi. Undanfarin ár hefur verið unnið að margvíslegum aðgerðum er snúa m.a. að betri nýtingu hráefnis, aukinni endurvinnslu úrgangs og minni urðun. Samdráttur í urðun úrgangs hefur bersýnilega skilað árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda innan samfélagslosunar. Áfram verður haldið á sömu vegferð og miðað að því að beita eins markvissum aðgerðum og unnt er. Í tengslum við þetta er í mótun ný stefna um úrgangsforvarnir en þær miða einkum að því að draga úr magni úrgangs, neikvæðum áhrifum vegna úrgangs sem hefur myndast og innihaldi skaðlegra efna í vörum og úrgangi.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Helstu breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins er eiga uppruna úr fyrri fjármálaáætlunum felast í 600 m.kr. niðurfellingu fjárheimilda til grænna fjárfestinga í loftslagsmálum árið 2026 og alls 400 m.kr. niðurfellingu fjárheimilda vegna eldgosa á Reykjanesi. Á móti kemur alls 900 m.kr. aukin fjárheimild til styrkingar mannvirkjagerðar vegna ofanflóðavarna. Auk þess koma til 900 m.kr. breytingar á fjárheimildum í tengslum við losunarheimildir til flugfélaga.
Í fjármálaáætlun 2026–2030 er gert ráð fyrir alls 2 ma.kr. til nýrra og aukinna verkefna vegna náttúruvár til fjárfestinga og reksturs í tengslum við uppbyggingu ofanflóðavarna og aukna vöktun og viðbragðsgetu. Auk þess kemur hækkun á sértekjuáætlunum Úrvinnslusjóðs og Endurvinnslunnar, alls 2 ma.kr.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.