32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.

Helstu áherslur 2026–2030

Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýnin er velferð fyrir alla þar sem þjónustan er framúrskarandi og að landsmenn eigi kost á bestu mögulegu heilsu og vellíðan og búi við velferð þar sem jafnrétti og mannréttindi eru virt. Jöfn staða og jöfn réttindi allra skal höfð að leiðarljósi við allar opinberar ákvarðanatökur jafnframt því að standa með jaðarsettum hópum og uppræta rótgróna fordóma í samfélaginu.
Meginmarkmið er að efla heilbrigðisþjónustu um allt land með áherslu á heilsueflingu og forvarnir sem verði ríkur hluti af allri þjónustu, sér í lagi þjónustu heilsugæslunnar, með nýsköpun og hagnýtingu stafrænna lausna. Þá eiga allar manneskjur að hafa jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína, óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu og stuðla á að virkri þátttöku allra hópa í samfélaginu.
Stefna málefnasviðsins
Lykiláskoranir felast í hækkandi aldri þjóðar, vanlíðan barna og fjölgun þeirra sem þurfa á heilbrigðis- og velferðarþjónustu að halda. Mikilvægt er að styrkja stoðir heilbrigðis- og öldrunarþjónustu, efla forvarnir og heilsueflingu með áherslu á alla hópa samfélagsins, sér í lagi börn og ungmenni, til að fyrirbyggja heilsubrest og bæta heilsu og velferð þjóðarinnar til framtíðar. Auka þarf heilsufarslegan jöfnuð og tryggja aðgengi að hvers konar heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Þá er mönnun í bæði heilbrigðis- og félagsþjónustu einnig stór áskorun. Unnið er að styrkingu þverfaglegrar teymisvinnu og að stöðugum umbótum og framþróun starfa innan heilbrigðis- og félagsþjónustu. Horft er til nýliðunar einstakra stétta, m.a. til aldurssamsetningar þeirra. Þá er horft til sértækra aðgerða til að jafna aðgengi að ýmiss konar sérfræðiþjónustu óháð búsetu, s.s. með tímabundnum ívilnunum. Áskoranir eru víða í húsnæðismálum og aðstöðu, þar sem sér í lagi skal huga að aðgengi fatlaðs fólks. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar verður lögð áhersla á að jafna stöðu og réttindi allra og uppræta rótgróna fordóma í samfélaginu, m.a. með jafnréttis- og hinseginfræðslu. Gert er ráð fyrir áframhaldandi vinnu við virðismat starfa í þágu launajafnréttis.
Forvarnir verða efldar til að bæta heilsu og unnið verður að því að draga skipulega úr skriffinnsku í heilbrigðis- og velferðarkerfinu og hagnýta betur tæknilausnir og nýsköpun á sviði heilbrigðis- og velferðarmála til hagsbóta fyrir landsmenn alla óháð búsetu. Þetta mun fela í sér aukið aðgengi, gæði og skilvirkni í allri þjónustu og þannig eykst svigrúm til að veita rétta þjónustu á réttum stað og innan ásættanlegra tímamarka, þvert á stoðir samfélagsins.
Þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum sem tekur til áranna 2025–2029 verður lögð fram á Alþingi vorið 2025. Í þingsályktunartillögunni sem tekur við af fyrri áætlun er stefna stjórnvalda skilgreind og aðgerðir í þágu kynjajafnréttis eru settar fram.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.