14 Ferðamál
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð atvinnuvegaráðherra. Undir málefnasviðinu er einn málaflokkur sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2026–2030.
Helstu áherslur 2026–2030

Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni jafnvægis á milli efnahags-, umhverfis- og samfélagslegra þátta. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf og starfi í sátt við bæði land og þjóð. Framtíðarsýnin innifelur að íslensk ferðaþjónusta stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld, að hún sé þekkt fyrir gæði og einstaka upplifun og sé fest í sessi sem ein af grundvallarstoðum íslensks efnahagslífs.
Meginmarkmið málefnasviðsins er í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem fela m.a. í sér að ferðaþjónusta verði sjálfbær atvinnugrein og stuðli að auknum efnahagslegum tækifærum, aukinni velmegun og byggi á ábyrgri nýtingu auðlinda.
Stefna málefnasviðsins
Ferðamálastefna og aðgerðaáætlun til 2030 var samþykkt á Alþingi í júní árið 2024. Samkvæmt stefnunni verður áhersla lögð á jafnvægi og samþættingu á milli fjögurra lykilstoða: efnahags, samfélags, umhverfis og gesta. Undir efnahagslegum þætti verður m.a. lögð áhersla á að auka framleiðni í ferðaþjónustu, verðmætasköpun og samkeppnishæfni um land allt. Undir samfélagslegum þætti verður m.a. lögð áhersla á jákvæð áhrif ferðaþjónustu á nærsamfélög, mannauð og aukin lífsgæði um land allt. Undir umhverfislegum þætti verður m.a. lögð áhersla á minnkandi kolefnisspor ferðaþjónustu og forystuhlutverk í orkuskiptum, með nýtingu vistvænna orkugjafa og jafnvægi milli hagnýtingar og verndar náttúru. Undir þeim þætti sem snýr að gestinum verður m.a. lögð áhersla á einstaka upplifun, gæði og öryggi.
Ferðaþjónusta er ein stærsta útflutningsgrein landsins og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar. Gangi spár eftir eru horfur góðar fyrir ferðaþjónustu og þá verðmætasköpun sem á henni byggir. Tekjur af erlendum ferðamönnum á þriðja ársfjórðungi 2024 námu tæplega 241 ma.kr. samanborið við 235 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi 2023. Samkvæmt Alþjóðaferðamálastofnuninni (UNWTO) mun ferðamönnum á heimsvísu halda áfram að fjölga, um að meðaltali 3,3% milli ára til ársins 2030. Innlendar spár gera ráð fyrir hóflegum vexti í komum erlendra ferðamanna til landsins á næstu árum. Árið 2025 verði svipaður fjöldi og árið 2024 eða 2,3 milljónir brottfara erlendra farþega, árið 2026 2,5 milljónir og árið 2027 2,6 milljónir.
Árið 2024 kom metfjöldi farþega með skemmtiferðaskipum til landsins eða um 322.000 farþegar. Flest skipin komu á tímabilinu júní til september. Gera má ráð fyrir að hvert skip hafi að meðaltali viðkomu í þremur til fjórum höfnum í ferð sinni um Ísland. Farþegaspár gera ráð fyrir svipuðum fjölda farþega árið 2025.
Þrátt fyrir jákvæðar horfur stendur íslensk ferðaþjónusta frammi fyrir margvíslegum áskorunum sem geta haft áhrif á samkeppnishæfni og rekstrarumhverfi greinarinnar. Sem dæmi má nefna hátt vaxtastig, verðbólgu, sterkt gengi krónunnar, óstöðugleika á heimsvísu og jarðhræringar á Reykjanesi. Áframhaldandi fjölgun ferðamanna felur einnig í sér áskoranir, t.d. varðandi álag á náttúru, samfélag og afkastagetu innviða í víðum skilningi.
Til að mæta þessum áskorunum leggja stjórnvöld áherslu á að ná stöðugleika í efnahagslífi, auka verðmætasköpun og fjárfesta í innviðum. Ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 mun verða fylgt eftir en fjöldi aðgerða endurspeglar brýna áframhaldandi þörf fyrir endurbætur á ýmsum sviðum. Þar má t.d. nefna þörf fyrir bætt öryggi, álagsstýringu, rannsóknir, náttúruvernd, innviðauppbyggingu og aðgerðir til þess að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna. Í samræmi við áherslur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður tekið til skoðunar auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands sem og breyttar reglur um skammtímaleigu, með það að markmiði að fleiri íbúðir nýtist sem heimili fólks.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins lækki um 131 m.kr. frá fjárlögum 2025 til ársins 2030. Þessi lækkun á fjárheimildum málefnasviðsins snýr að almennri og sértækri aðhaldskröfu, uppfærslu á tekjuáætlun ríkisaðila og niðurfellingu á tímabundnu framlagi.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.