Hoppa yfir valmynd

08 Sveitarfélög og byggðamál

Innviðaráðuneytið

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð innviðaráðherra. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.

Heildarútgjöld

Helstu áherslur 2026–2030

Sjálfbærar byggðir og sveitarfélög

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tenging byggða og Íslands við umheiminn sé í jafnvægi við umhverfið.

Meginmarkmið málefnasviðsins er sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um land allt og að innviðir og þjónusta mæti þörfum samfélagsins. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að treysta stoðir hinna dreifðu byggða og jafna búsetuskilyrði á landsbyggðinni. Byggða- og sveitarstjórnarmál verði samhæfð við aðra málaflokka eftir því sem við á. Í allri stefnumörkun og áætlanagerð hins opinbera verði áhrif á þróun einstakra byggða og búsetu skoðuð og metin.

Stefna málefnasviðsins

Í gildi er langtímastefnumótun fyrir byggða- og sveitarstjórnarmál. Þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024–2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 var samþykkt á Alþingi í desember 2023. Stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036, auk aðgerðaáætlunar fyrir árin 2022–2026, var samþykkt á Alþingi í júní 2022. Stefnurnar eru samhæfðar við aðrar opinberar áætlanir eftir því sem við á, ekki hvað síst áætlanir í málaflokkum ráðuneytisins.

Helstu áskoranir á málefnasviðinu eru fjöldi fámennra sveitarfélaga og aukin krafa um þjónustu, að takast á við fækkun/fjölgun íbúa og breytta íbúasamsetningu, einhæft atvinnulíf, tækniþróun, samspil þéttbýlis og dreifbýlis, uppbyggingu innviða, umhverfis- og loftslagsmál og samkeppnishæfni.

Íslenska sveitarstjórnarstigið einkennist af fjölda fámennra sveitarfélaga. Af 62 sveitarfélögum eru 28 með íbúafjölda innan við 1.000 og níu undir 250. Mikilvægt er að efla sveitarfélögin til að gera þau fær um að tryggja íbúum sínum jöfn réttindi, aðgengi að þjónustu og sambærileg búsetuskilyrði. Grundvöllurinn að því markmiði er að stuðla að fjárhagslegri, samfélagslegri og umhverfislegri sjálfbærni þeirra. Aðgerðir á borð við úrlausn áskorana á sviði fjármála og regluverks sveitarfélaga miða að því að treysta fjárhag sveitarfélaganna til langs tíma í samræmi við markmið laga um opinber fjármál.

Í sveitarstjórnarlögum er að finna ákvæði sem segir að stefnt skuli að því að lágmarks­íbúafjöldi sveitarfélags sé ekki undir 1.000. Stuðlað er að sameiningum sveitarfélaga með fjárhagslegum stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en í frumvarpi til laga um heildarlög um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er m.a. það markmið að regluverk sjóðsins dragi úr neikvæðum hvötum til sameininga sveitarfélaga. Með sameiningu sveitarfélaga skapast tækifæri til að byggja upp hagkvæmari og öflugri stjórnsýslu sem væri þar með færari um að standa að veitingu þjónustu innan sveitarfélagsins. Lagður er grunnur að því að efla þjónustu, lækka útsvar og/eða byggja upp innviði í sveitarfélaginu. Jafnframt verður til frekari grundvöllur fyrir því að endurskoða ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga til að efla nærþjónustu og eyða gráum svæðum þar sem valdsvið og ábyrgð skarast. Með eflingu sveitarstjórnarstigsins er jafnframt stutt við sjálfstjórn sveitarfélaga. Ljóst er að aðgerðir stjórnvalda, faglegur stuðningur og fjárstuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru mikilvægur þáttur í því að styrkja sveitarfélög í gegnum sameiningar á næstu árum.

Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins

Heildarframlög til málefnasviðsins á tímabili áætlunarinnar nema um 198,3 ma.kr. Helstu breytingar á tímabilinu skýrast fyrst og fremst af auknu lögboðnu framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í samræmi við tekjuspá. Auk þess falla niður tímabundin framlög í byggðamálum árið 2026. Jafnframt falla niður framlög til framkvæmdanefndar um málefni Grindavíkurbæjar árin 2026 og 2027 en nefndin var skipuð tímabundið vegna afleiðinga jarðhræringa í sveitar­félaginu.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjladarammi

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta