Hoppa yfir valmynd

26 Lyf og lækningavörur

Heilbrigðisráðuneytið

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð heilbrigðisráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilin­u 2023–2025.

Heildarútgjöld í m.kr.

Helstu áherslur 2026–2030

Bætt lyfjafræðileg þjónusta og skilvirk notkun hjálpartækja

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er sameiginleg öllum málefnasviðum heilbrigðis­ráðuneytisins, að almenningur á Íslandi búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra landsmanna sé tryggt. Íslensk heilbrigðisþjónusta verði á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar. Árangur innan heilbrigðisþjónustunnar verði metinn með því að mæla gæði hennar, öryggi, hversu aðgengileg hún er og hvað hún kostar.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að taka þátt í kostnaði einstaklinga við kaup á tilteknum lyfjum, lækningatækjum og hjálpartækjum og tryggja aðgengi að nýjum og/eða kostnaðar­sömum lyfjameðferðum samkvæmt lögbundinni ákvarðanatöku.

Sameiginlegt markmið lyfja, lækningatækja og hjálpartækja er að bæta heilsu og lífsgæði einstaklinga með áherslu á stafræna þróun.

Stefna málefnasviðsins

Ein helsta áskorun málefnasviðsins er öldrun þjóðarinnar en lyfjanotkun vex hratt frá miðjum aldri. Þetta felur í sér aukna eftirspurn eftir lyfjafræðilegri þjónustu og þörf fyrir kostnaðarsama og sérhæfða lyfjameðferð. Við bætist ör framþróun líftæknilyfja og genalyfja­meðferða, aukning í lífsstílstengdum sjúkdómum, s.s. offitu, fólksfjölgun og fleiri ytri áhrifa­þættir. Þessir þættir kalla á kostnaðaraðhald og forgangsröðun sem byggt sé á heilsuhagfræði­legu mati án þess að sjúklingum eða sjúkdómaflokkum sé mismunað. Tækifæri felast í aukinni lyfjafræði­legri þjónustu, sbr. niðurstöðu hvítbókar um aukna lyfjafræðilega þjónustu, sem felur í sér gagnreyndar aðferðir til að auka gæði og öryggi lyfjameðferða, með kostnaðarhagkvæmni að leiðarljósi. Leitað verður leiða til að bæta samningsstöðu við opinber innkaup á lyfjum og lækningatækjum og tryggja aðkomu Íslands að sameiginlegum innkaupum með öðrum löndum.

Mikilvægt er að ákvarðanataka varðandi greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði sé gagnsæ, byggi á hlutlægum og faglegum forsendum og að jafnræði sé tryggt. Tækifæri til að ná því markmiði liggja í innleiðingu heilbrigðistæknimats við ákvarðanatöku um greiðsluþátttöku. Slíkt mat felur í sér að ákvarðanir byggi á kostnaðarhagkvæmni og mati á gagnreyndu notagildi en einnig að hugað sé að kostnaðaráhrifum ákvarðana til lengri tíma og þær séu endurmetnar reglulega. Samstarf við hin Norðurlöndin um framkvæmd heilbrigðistæknimats er mikilvægur liður í innleiðingu slíks mats hér á landi, sbr. framtíðaráherslur í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 en Ísland er hluti að sameiginlegu samstarfi norrænna HTA-stofnana (e. JNHB).

Önnur áskorun er flókin stjórnsýsla lyfjamála sem er á höndum margra stofnana. Tækifærin felast í einföldun á stjórnsýslunni og ferlum innan hennar til hagsbóta fyrir ríkið, hagsmuna­aðila, heilbrigðisstarfsfólk og almenning. Samlegðaráhrif innan stjórnsýslu lyfjamála verða metin sem og notkun rafrænna lausna til að bæta upplýsingagjöf og skilvirkni enda mikilvægir þættir við að einfalda stjórnsýsluna. Er það í samræmi við áherslur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um einföldun á stjórnsýslu og hagnýtingu á tækni til að draga úr skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu.

Lyfjaskortur og takmarkað framboð lyfja hér á landi er mikil áskorun. Tækifæri eru til að endurskoða regluverk lyfjamála með það að markmiði að hvetja til skráningar fleiri lyfja hér á landi. Jafnframt þarf að skoða aukna lyfjanotkun hér á landi, með tilheyrandi kostnaðarauka, og ástæður sem liggja þar að baki, með sparnað og bættan ávinning sjúklinga að leiðarljósi. Mikilvægt er að upplýsingar um lyfjanotkun, áhrif hennar og árangur séu aðgengilegar, bæði fyrir almenning og heilbrigðisstarfsfólk sem kemur að lyfjameðferðum einstaklinga.

Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins

Fjárveitingar málefnasviðsins hækka um 5,9 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunar. Þar af eru 1,7 ma.kr. vegna áherslumála ríkisstjórnarinnar og til að styrkja þjónustu vegna lyfja og lækningatækja.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi í m.kr.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta