19 Fjölmiðlun
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Undir málefnasviðinu er einn málaflokkur sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026–2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýn fyrir fjölmiðlun er að fólk hafi greiðan aðgang að fjölbreyttum, ábyrgum og sjálfstæðum fjölmiðlum sem miðla fréttum, samfélagsumræðu og menningu og efla lýðræðislega umræðu. Öll hafi jafna möguleika á þátttöku í lýðræðislegri umræðu þar sem tjáningarfrelsi er virt.
Meginmarkmið stjórnvalda á sviði fjölmiðlunar er að stuðla að lýðræðislegri umræðu og lýðræðisþátttöku fólks með því að auka fjölbreytni, fagmennsku og fjölræði í fjölmiðlum. Einnig er markmið að skapa starfsumhverfi sem stuðlar að öflugri fjölmiðlun fyrir almenning með virkri þátttöku ólíkra og fjölbreyttra fjölmiðla. Brugðist verði við áskorunum samtímans á sviði tækni og stafrænna miðla, m.a. með því að efla upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi. Stjórnsýslueftirlit með fjölmiðlum taki einkum mið af vernd barna gegn skaðlegu efni.
Stefna málefnasviðsins
Áskorun stjórnvalda felst í því að stuðla að fjölbreyttu fjölmiðlaumhverfi og starfsumhverfi sem styður við fjölbreytileika og fagmennsku í fjölmiðlun. Upplýst, fræðandi og gagnrýnin umræða er nauðsynleg. Frjálsir fjölmiðlar eru forsenda lýðræðislegar umræðu og veita valdhöfum, atvinnulífi og lykilstofnunum samfélagsins aðhald. Til þess þarf fjölbreytta flóru fjölmiðla, bæði einkarekna fjölmiðla og burðugt almannaútvarp.
Ein helsta áskorun íslenskra fjölmiðla um þessar mundir er erfitt rekstrarumhverfi sem stafar m.a. af alþjóðlegri samkeppni og örri tækniþróun sem felur bæði í sér tækifæri og áskoranir. Til að fjölmiðlar geti sinnt lýðræðis- og aðhaldshlutverki sínu og náð eyrum og augum almennings þarf starfsemi þeirra að taka mið af tækniþróun og nýsköpun. Innleiða þarf nýja þekkingu á fjölmiðlum og styðja við nýsköpun og þróun til að unnt sé að koma nýjungum í framkvæmd, m.a. stafrænum lausnum sem byggja á gervigreind.
Helstu áskoranir fjölmiðla, þar á meðal Ríkisútvarpsins, næstu árin snúa að því að viðhalda samfélagslegu trausti á tímum djúpfalsana og annars konar upplýsingaóreiðu á samfélagsmiðlum. Traust til Ríkisútvarpsins hefur mælst hátt, sbr. árlegar mælingar þar að lútandi. Þá stendur Ríkisútvarpið enn frammi fyrir því að lækka þarf skuldir félagsins.
Stuðningskerfi við einkarekna fjölmiðla verður fest í sessi á tímabilinu. Ljóst er að stuðningur til einkarekinna fjölmiðla hefur haft mikla þýðingu fyrir rekstur þeirra. Einkareknir fjölmiðlar gegna mikilvægu lýðræðishlutverki í íslensku samfélagi og eru ein meginforsenda þess að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum og faglega unnum fréttum. Rekstrarstuðningur stjórnvalda að norrænni fyrirmynd hefur í sumum tilfellum verið grundvöllur þess að fjölmiðlar geti starfað áfram í óbreyttri mynd og sótt fram.
Lögð verður fram heildarstefna í málefnum fjölmiðla í fyrsta sinn á Íslandi. Fjölmiðlastefnan tekur til einkarekinna fjölmiðla og fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Í stefnunni birtast skýr áform um að styðja við starfsemi einkarekinna fjölmiðla og tryggja greiðan aðgang að vandaðri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Fjölmiðlastefnu er ætlað að stuðla að umbótum sem styrkir fjölbreytni á íslenskum fjölmiðlamarkaði og styðja við starfsemi íslenskra fjölmiðla sem sinna mikilvægu lýðræðislegu og menningarlegu hlutverki.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Ný tekjuáætlun hækkar útgjaldaramma málefnasviðsins um 1.810 m.kr. en á móti er gert ráð fyrir lækkun útgjalda vegna hagræðingar eða niðurfellingar tímabundinna fjárheimilda um 240,9 m.kr. yfir tímabil fjármálaáætlunar. Breyting fjárheimilda málefnasviðsins nemur því 1.569,1 m.kr. til hækkunar á tímabili fjármálaáætlunar.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.