Hoppa yfir valmynd

23 Sjúkrahúsþjónusta

Heilbrigðisráðuneytið

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð heilbrigðisráðherra. Það skiptist í þrjá mála­flokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefna­sviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.

Heildarútgjöld í m.kr.

Helstu áherslur 2026–2030

Aðgengi, gæði, hagkvæmni

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er hin sama og á öðrum málefnasviðum heilbrigðis­ráðuneytisins, að íslensk heilbrigðisþjónusta sé á heimsmælikvarða og að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir sé hluti af allri þjónustu. Árangur heilbrigðisþjónustunnar er metinn með því að mæla gæði þjónustunnar, öryggi hennar, hversu aðgengileg hún er og hvað hún kostar. Framtíðarsýn um stafræna þróun í heilbrigðisþjónustu lýsir því að íslenskur almenningur hafi tækifæri til að styrkja og viðhalda eigin heilbrigði með stafrænum lausnum í öruggu og samtengdu upplýsingaumhverfi. Fjárfesting miðar að því að styrkja stoðir heilbrigðisþjónustu um land allt.

Meginmarkmiðið er að veitt sé örugg, aðgengileg og hagkvæm heilbrigðisþjónusta þar sem sjúklingum er tryggð greið leið að réttri þjónustu á réttum stað. Markmiðið er að setja þarfir einstaklingsins í forgrunn og einfalda dagleg störf heilbrigðisstarfsfólks með því að styrkja stafræna upplýsingagrunna sem ganga þvert á heilbrigðiskerfið ásamt því að tryggja öryggi og gæði.  

Stefna málefnasviðsins

Meginviðfangsefni málefnasviðsins er að standa vörð um sérhæfða þjónustu Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri og tryggja tímanlegt aðgengi að mikilvægri heilbrigðisþjónustu. Unnið er að nánari skilgreiningu og hlutverki Sjúkrahússins á Akureyri sem varasjúkrahúss af starfshópi sem skipaður var af heilbrigðisráðherra.

Að mæta aukinni eftirspurn og þörf fyrir sérhæfða þjónustu er áskorun sem orsakast af öldrun þjóðarinnar, aukningu á geðrænum áskorunum óháð aldri, aukningu í lífstílstengdum sjúkdómum, fólksfjölgun og fleiri ytri áhrifaþáttum. Mönnun í heilbrigðisþjónustunni er hér sem annars staðar ein af stærstu áskorunum málefnasviðsins því samkeppni er um vel menntað heilbrigðisstarfsfólk. Áfram verður fylgst með mælikvörðum sem tengjast mönnun og álagi sem hefur áhrif á öryggi heilbrigðisþjónustu. Tækifærin til að tryggja viðunandi fagmönnun felast helst í því að finna leiðir til að halda í núverandi starfsfólk, laða að nýtt starfsfólk og nýta sem best sérhæfingu hverrar starfstéttar og horfa til færslu verkefna milli starfsstétta í því sambandi.

Stefnt verður að því að nýta tækifæri og möguleika þjónustutengdrar fjármögnunar í auknum mæli til að tryggja afköst, hagkvæmni og gæði sjúkrahúsþjónustu í gegnum samning um þjónustutengda fjármögnun við Sjúkratryggingar. Á næstu misserum verður unnið að því að bæta sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni við þessa tegund fjármögnunar sem tryggir gagnsæi hennar og endurspeglar raunverulegt umfang sjúkrahúsþjónustu. Miðlæg mælaborð sem sýna bið eftir þjónustu eru aðgengileg fyrir öll. Unnið verður að því að bæta sjúkraskrárkerfi á þann hátt að þau auki skilvirkni og minnki skrifræði, eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar, með hagnýtingu tækni og nýsköpunar.   

Áfram verður unnið að því að gera nám heilbrigðisstétta aðgengilegt óháð búsetu og aðstæðum enda eykur það líkur á því að sérhæft starfsfólk nýti sína sérþekkingu í heimabyggð. Á landsbyggðinni er mönnun einnig sérstök áskorun og snýr hún helst að því að tryggja viðeigandi læknisþjónustu og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Til að tryggja sem best aðgengi, gæði, öryggi og hagkvæmni þjónustunnar er áfram horft til samvinnu milli sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana, heilsugæslu, sveitarfélaga og annarra þjónustuveitenda ásamt því að samnýta þekkingu og hæfni heilbrigðisstarfsmanna milli stofnana. Til að jafna aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu verða möguleikar fjarheilbrigðisþjónustu nýttir til að færa þjónustuna nær íbúum svæðisins og áfram verður stutt við vöxt hugverkaiðnaðar, nýsköpunar og tækni innan heilbrigðisþjónustu í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar.

Önnur áskorun felst í að tryggja aðgengi að viðeigandi þjónustuúrræðum fyrir þá einstaklinga sem lokið hafa meðferð á stofnunum og mæta þörfum einstaklinga á viðeigandi þjónustustigi. Verulega hefur verið bætt í þá þjónustu, sjá nánari umfjöllun í köflum um málefnasvið 24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa og 25 Hjúkrunar- og endurhæfingar-þjónusta

Í ákveðnum aðgerðaflokkum, eins og t.d. efnaskiptaaðgerðum, hefur verið töluverð aukning á því að sjúklingar fari erlendis til aðgerða og fái til þess greiðsluþátttöku frá Sjúkratryggingum Íslands vegna biðtímareglugerðar. Ef til staðar er geta innanlands til að framkvæma aðgerðirnar felast tækifærin helst í því að ná hagkvæmum samningum við aðila  sem tryggt geta örugga og árangursríka meðferð á Íslandi.

Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins

Fjárveitingar málefnasviðsins hækka  um 28,3 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunar, þar af er 1,5 ma.kr. vegna áherslumála ríkisstjórnarinnar og 10,8 ma.kr. vegna byggingar Nýs Landspítala við Hringbraut. Einnig er rekstur nýrra öryggisvistunarrýma tryggður. Þá hefur verið gert ráð fyrir hagræðingu á málefnasviðinu en fyrirhuguð er stofnun fagráðs um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu í heild sinni sem ætlað er að koma með tillögur um aðgerðir til hagræðingar og taka fjárveitingar tímabilsins mið af þeirri vinnu.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi í m.kr.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta