Hoppa yfir valmynd

06 Hagskýrslugerð og grunnskrár

Forsætisráðuneytið
Innviðaráðuneytið
Menningar-٫ nýsköpunar- og háskólaráðuneytið
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð forsætisráðherra, innviðaráðherra, fjármála- og efna­hags­ráðherra og menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Undir það heyrir einn málaflokkur sem ber sama heiti og sviðið. Í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefna­sviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.

Útgjaldarammi

Helstu áherslur 2026–2030

Áreiðanleg, aðgengileg og tímanleg gögn

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að tryggð verði í hvívetna gæði opinberrar hagskýrslugerðar og samræmi verði tryggt í vinnubrögðum og aðferðum innan hagskýrslu­kerfisins. Enn fremur að tryggja gæði, áreiðanleika og hagkvæmni við rekstur grunnskráa ríkisins og bæta samvirkni milli þeirra. Ísland verði leiðandi í gagnadrifinni nýsköpun og þjónustu á alþjóðavísu með öflugum tæknilegum innviðum, samkeppnishæfu regluverki sem styður við tækniþróun og verðmætasköpun byggða á gögnum.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að stuðla að góðu aðgengi að áreiðanlegum og tímanlegum gögnum um íslenskt samfélag og tryggja að grunnskrár byggist á bestu fáanlegu upplýsingum, viðföng þeirra séu aðeins skráð einu sinni og að skrárnar séu varðar með bestu tæknilegu lausnum á hverjum tíma.

Stefna málefnasviðsins

Vandaðar og áreiðanlegar opinberar tölfræðiupplýsingar eru mikilvægar undirstöður í upplýsingakerfi sérhvers lýðræðisþjóðfélags. Þær eru í senn nauðsynleg forsenda lýðræðis­legrar umræðu og grundvöllur vandaðra ákvarðana meðal stjórnvalda, fyrirtækja og einstaklinga.

Hagstofa Íslands og aðrir framleiðendur opinberra tölfræðiupplýsinga standa frammi fyrir margvíslegum áskorunum við að mæta vaxandi og fjölbreyttri upplýsingaþörf samfélagsins. Á sama tíma og eftirspurn eftir gögnum vex, og kröfur um tímanlegar hágæða hagtölur sömuleiðis, reynist erfiðara en áður að afla þeirra með úrtaksrannsóknum. Þá hefur framboð af margvíslegum tölfræðiupplýsingum að misjöfnum gæðum aukist mikið samfara tækni- og samfélagsbreytingum.

Mikil tækifæri eru fyrir hendi til að efla Hagstofu Íslands sem miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar og treysta samhæfingarhlutverk hennar innan hagskýrslukerfisins. Unnið verður að margvíslegum umbótum með þessi markmið að leiðarljósi á næstu árum. Þá verður jafnframt unnið að því að finna Hagstofunni skýrara hlutverk í íslensku gagnahagkerfi og þannig styðja við innleiðingu á gagnastefnu ríkisins sem nú er í smíðum. Til viðbótar liggja margvísleg tækifæri í notkun gervigreindar við hagskýrslugerð. Meðal forsendna hagnýtingar gervigreindar við hagskýrslugerð og aukinnar sjálfvirkni er samræmd gagnahögun og bættir gagnainnviðir. Þá verður unnið að bættri högun stjórnsýslugagna til að auka hagkvæmni og efla getu Hagstofunnar til að bregðast við brýnum þörfum notenda hagtalna, ekki síst stjórnvalda. Enn fremur er stefnt að því að tryggja markvissari innleiðingu þeirra tölfræðigerða sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn.

Að störfum er hagtalnanefnd sem falið er að fjalla um áskoranir við opinbera hagskýrslugerð og gera tillögur til úrbóta sem stuðlað geta að bættu aðgengi greinenda og almennings að gögnum og tryggja áreiðanlegri og fyrirsjáanlegri birtingu mikilvægra opinberra tölfræðiupplýsinga. Nefndin mun skila tillögum sínum til ráðherra um mitt ár 2025. Á grunni þeirra tillagna er stefnt að því að vinna að ofangreindum umbótum við hagskýrslugerð og styrkja samhæfingar- og forystuhlutverk Hagstofunnar í opinberri hagskýrslugerð.

Áreiðanlegar og öruggar grunnskrár ríkisins sem byggjast á bestu fáanlegu gögnum hverju sinni eru forsenda yfirsýnar yfir þegna ríkisins og aðra sem búa í landinu, undirstaða allrar skattheimtu, almannatryggingakerfisins, þegar vá ber að höndum, auk hagskýrslugerðar. Megingrunnskrá þjóðarinnar er þjóðskrá sem er í raun miðlægt safn upplýsinga, stór gagnagrunnur, um tiltekinn hóp einstaklinga. Af þjóðskrá eru leiddar svokallaðar tengdar skrár, stundum nefndar hliðsettar skrár, svo sem lögheimilisskrá, íbúaskrá o.fl. Þjóðskrá Íslands er miðstöð almannaskráningar á Íslandi. Komið hefur í ljós að tölulegar upplýsingar um fjölda einstaklinga sem skráðir eru í þjóðskrá með búsetu á Íslandi eru ekki nákvæmar. Röng skráning getur m.a. haft í för með sér að bótaréttur úr almannatryggingakerfinu er ekki rétt metinn. Lokið hefur verið við greiningu af hálfu Þjóðskrár Íslands og Tryggingastofnunar hvernig mætti leiðrétta þessar upplýsingar hjá stofnunum og á tíma fjármálaáætlunarinnar er fyrirhugað að vinna að nauðsynlegum lagabreytingum sem munu opna á flæði upplýsingar milli stofnana. Þá gegnir Þjóðskrá hlutverki í aukinni stafrænni þjónustu þvert á landmæri, en í norrænu og evrópsku samstarfi er markvisst unnið að því að hægt sé að nýta rafræn skilríki í heimalandi til að fá aðgang að þjónustu í öðru landi.

Skortur á stöðlun og samhæfingu á gögnum þýðir að gögn sem ein stofnun safnar geta ekki auðveldlega verið notuð af annarri. Þetta leiðir til tvíverknaðar og sóunar á auðlindum. Að meðhöndla gögn í opinbera geiranum sem stefnumiðaða eign, með viðeigandi stjórnun, mun spara tíma og fjármuni og skila betri árangri fyrir samfélagið í heild. Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun ráða gagnastjóra sem hefur það hlutverk að vera leiðbeinandi um stjórnskipulag gagna ríkisins og yfirsýn, móta tæknileg og rekstrarleg viðmið opinberra aðila fyrir bætta hagnýtingu gagna í þjónustuveitingu og ákvarðanatöku í ríkisrekstrinum. Þá mun fjármála- og efnahagsráðherra mæla fyrir frumvarpi á Alþingi um skipan upplýsingatækni í rekstri ríkisins hvar eitt þriggja markmiða er að skylda ríkisaðila til að miðla gögnum sín á milli.

Opin gögn skapa jákvæð samfélagsleg, efnahagsleg og pólitísk áhrif, t.d. í formi bættrar þjónustu og ákvarðanatöku, gagnsæis og nýsköpunar hjá hinu opinbera og á einkamarkaði. Nýsköpunarmöguleikar hafa aukist enn frekar með aðgengilegri gervigreind en áreiðanleg gögn eru forsenda fyrir hagnýtingu hennar. Lagt verður fram frumvarp um stjórnskipulag gagna þar sem settur er rammi fyrir endurnotum tiltekinna flokka verndaðra gagna sem eru í vörslu opinberra aðila. Vegna viðkvæmni slíkra gagna þarf að uppfylla tilteknar tæknilegar og lagalegar kröfur áður en þau eru gerð aðgengileg. Þá verður sett reglugerð sem kveður á um frumkvæðisbirtingu mikilvægra gagnasetta á notendavænan hátt og án endurgjalds.

Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins

Útgjaldarammi málefnasviðsins lækkar um 228,2 m.kr. vegna hagræðingar og leiðréttingar á sértekjum. Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta