20 Framhaldsskólastig
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð mennta- og barnamálaráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026–2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýn fyrir málefnasviðið er að fleiri einstaklingar verði virkir og skapandi þátttakendur í samfélaginu, vel undirbúnir fyrir þátttöku á vinnumarkaði, tæknibreytingar og fræðilegt og/eða starfstengt framhaldsnám. Veita á framúrskarandi menntun um allt land með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur í umhverfi sem hlúir að öllum nemendum. Markmiðið er að mæta fjölbreyttum námsþörfum einstaklinga og gera öllum kleift að ljúka námi sem stenst alþjóðlegan samanburð.
Stefna málefnasviðsins
Menntastefna til ársins 2030 byggir á þeirri sýn að veitt skuli framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem öll geta lært. Framhaldsskólakerfið hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár. Börnum í viðkvæmri stöðu hefur fjölgað og stórefla þarf stuðning við framhaldsskólanemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn til að auka möguleika þessa hóps til að stunda nám við framhaldsskóla með það að markmiði að efla stöðu á vinnumarkaði eða fara í áframhaldandi nám. Ýmsar áskoranir eru fram undan varðandi stafrænt umhverfi og brýnt er að styðja við námsgagnagerð á framhaldsskólastigi en það er mikilvægur þáttur í að tryggja gæði náms og kennslu og að efla íslenska tungu.
Á málefnasviðinu er lögð áhersla á sókn í menntamálum, bæta umhverfi nemenda og kennara og styðja við skólakerfið. Þá verður sérstaklega lögð áhersla á íslenskukennslu og iðn- og verknám. Á málefnasviðinu er áfram lögð áhersla á að fjölga þeim sem innritast í starfsnám að loknum grunnskóla og fjölga þeim sem útskrifast. Mikilvægur liður í því er að vinna náið með aðilum vinnumarkaðar og ráðast í aðgerðir sem miða að því að jafna þá miklu kynjaslagsíðu sem er í flestum starfsmenntagreinum en illa hefur gengið að ná fram breytingum þar á undanfarin ár. Nemendum í starfsnámi fjölgaði um 8% frá 2016–2023. Fjölgunin var nær eingöngu meðal karla en þeir voru rúmlega tvöfalt fleiri en konur í starfsnámi árið 2023.
Ríkisstjórnin leggur áherslu á íslenskukennslu, læsi og aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum en unnið er að nýjum heildarlögum um námsgögn. Þá er einnig lögð áhersla á stuðning við skólakerfið til að mæta áskorunum og tryggja inngildingu barna sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Stefnt er að því að stórefla stuðning við framhaldsskólanemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn en unnið hefur verið að því að auka námsframboð fyrir þennan nemendahóp undanfarin ár. Þá verður áfram stutt við MEMM-verkefnið – menntun, móttaka og menning, en stofnað hefur verið fagteymi fyrir framhaldsskóla sem ætlað er að styðja við nýjar íslenskubrautir og teikna upp verklag um móttöku og menntun barna og ungmenna á framhaldsskólaaldri.
Þá er brýnt að greina breytingar á náms- og þjónustuþörfum nemenda á framhaldsskólastigi og styðjast við slíka greiningu við gerð úthlutunarlíkans. Taka þarf mið af fjölda nemenda en einnig af kerfislægum þáttum, s.s. tegund náms, uppruna og þjónustuþörfum nemenda. Nýta þarf fjármagn betur samhliða því sem mæta þarf auknum fjölbreytileika í skólakerfinu og skoða þarf möguleika á sameiningu rekstrar framhaldsskóla til að mæta betur þeim miklu áskorunum sem framhaldsskólakerfið stendur frammi fyrir.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins lækki um 2,5 ma.kr. á tímabili áætlunarinnar. Helstu breytingar til hækkunar eru þær að auka aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum. Þá eru helstu breytingar til lækkunar tilkomnar vegna aðhaldstillagna frá hagræðingarhópi. Jafnframt falla niður tímabundnar fjárheimildir. Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.