10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála
Málefnasviðið nær yfir starfsemi stjórnvalda sem miðar með einum eða öðrum hætti að því að veita einstaklingum þjónustu og tryggja grundvallarréttindi þeirra. Starfsemi málefnasviðsins er á ábyrgð dómsmálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra og skiptist það í fimm málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026–2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Meginmarkmið málefnasviðsins eru þrjú. Í fyrsta lagi að réttindi einstaklinga séu virt og gerð aðgengileg með greinargóðri upplýsingagjöf stjórnvalda. Í öðru lagi að stjórnsýsla málefnasviðsins sé hagkvæm, fagleg og góð, þannig stefnt sé að hámarksnýtingu þess fjármagns sem til ráðstöfunar er. Í þriðja lagi að reglur um útlendinga séu til samræmis við nágrannaríki þar sem m.a. verður lögð áhersla á mannúðlegt og skilvirkt kerfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar.
Stefna málefnasviðsins
Eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar er að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Í því skyni hefur verið lagt til frumvarp sem sameinar sýslumannsembættin níu í eitt, með það að meginmarkmiði að bæta þjónustu hins opinbera á öllu landinu með einfaldari stjórnsýslu og jöfnu aðgengi að opinberri þjónustu óháð búsetu. Sameining hefur í för með sér sparnað í tíma og útgjöldum sem þykir betur varið til að bæta þjónustu embættanna og styrkja stoðir hinna dreifðu byggða. Með auknu framboði stafrænna lausna undanfarin ár er ljóst að frekari tækifæri eru fyrir hendi til að bæta þjónustuna og þykir ljóst að sameinað embætti sé í betri stöðu til að gera það en níu jafnsett embætti. Á tímabili áætlunarinnar verður leitað leiða til að veita betri þjónustu með hagkvæmari hætti en áður.
Málefni útlendinga hafa verið vaxandi málaflokkur síðustu ár. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að draga úr séríslenskum reglum og að samræmis skuli gætt við reglur nágrannaríkja á sviði útlendingamála. Eins er lögð áhersla á að stjórnsýslan verði styrkt til að tryggja mannúðlegt og skilvirkt móttökukerfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Jafnframt þarf að uppfylla skuldbindingar Íslands sem aðildarríkis Schengen-samstarfsins. Liður í því er innleiðing á verndarsamkomulagi ESB (e. The Pact on migration and asylum), sem felur m.a. í sér að koma á fót greiningarmiðstöð og búsetuúrræði í grennd við flugvöll fyrir einstaklinga sem dvelja ólöglega í landinu og neita samvinnu við stjórnvöld. Frumvarp þess efnis hyggst ráðherra leggja fram á haustþingi 2025.
Umsóknum um dvalarleyfi og ríkisborgararétt hefur fjölgað undanfarin ár en á sama tíma hafa umsóknir um alþjóðlega vernd dregist saman. Ein helsta áskorun útlendingamála snýr að óvissu um fjölda umsókna um alþjóðlega vernd á ári hverju. Niðurstaðan ræðst af ytri þáttum sem ómögulegt er að hafa stjórn eða áhrif á. Óvissuþátturinn er einnig áskorun þegar kemur að þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og eins breytileg samsetning hópsins hverju sinni, þröngur húsnæðismarkaður og að búsetuúrræði fyrir umsækjendur eru ekki skilgreind í lögum líkt og áþekk úrræði fyrir aðra hópa. Tækifæri eru til aukinnar hagræðingar.
Vernd persónuupplýsinga heyrir til grundvallarréttinda sem gæta þarf í uppbyggingu stafrænnar þróunar. Vinnsla persónuupplýsinga eykst stöðugt í takt við stafrænar umbætur og óteljandi möguleikar myndast á aukinni dreifingu, miðlun og vinnslu þeirra. Samhliða hraðri tækniþróun sækjast bæði einstaklingar almennt og þeir sem vinna með persónuupplýsingar í auknum mæli eftir ráðgjöf og leiðbeiningum frá Persónuvernd.
Áskoranir eru í málefnum er varða bálstofur og líkgeymslur. Endurnýja þarf einu bálstofu landsins sem hefur verið rekin frá 1948 í Fossvogi, m.a. vegna mengunarvarnakrafna. Til að mæta rekstrarvanda líkhúsa stendur til að heimila kirkjugörðum að innheimta gjald til að standa undir rekstri þeirra. Jafnframt þarf að vinna að áframhaldandi stefnumótun í málaflokknum ásamt því að endurskoða gildandi kirkjugarðasamkomulag sem tryggir kirkjugörðunum fjárheimildir fyrir lögbundna þjónustu.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Fjárveitingar lækka útgjaldaramma málefnasviðsins um 6,4 ma.kr. Í þeirri fjárhæð er gert ráð fyrir lækkun útgjalda um 5 ma.kr. vegna þjónustu og málmeðferðar vegna umsækjanda um alþjóðlega vernd.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.