13 Sjávarútvegur og fiskeldi
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð atvinnuvegaráðherra. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026–2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Sjávarútvegur og lagareldi á Íslandi eru í fremstu röð og eru samkeppnishæf á alþjóðavettvangi. Framleiðsla byggist á sjálfbærri auðlindanýtingu, hámarksnýtingu afurða, aukinni framleiðni og hefur vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Atvinnugreinarnar styðja við byggð í landinu og uppbyggingu þekkingar í samfélaginu. Gjöld af nýtingu auðlinda renna að hluta til þeirra samfélaga þar sem verðmætin eru sköpuð.
Meginmarkmið málefnasviðsins er að efla framleiðni greinanna á sjálfbæran hátt sem eykur samkeppnishæfni þeirra á alþjóðamarkaði og skapar verðmæt störf um land allt.
Stefna málefnasviðsins
Á undanförnum árum hefur verið unnið að víðtækri greiningu á helstu tækifærum, áskorunum og framtíð lagareldis á Íslandi. Í því samhengi fól ráðuneytið greiningarfyrirtækinu Boston Consulting Group (BCG) að vinna úttekt á vaxtartækifærum greinarinnar. Jafnframt var Ríkisendurskoðun falið að vinna stjórnsýsluúttekt á regluverki fiskeldis á Íslandi.
Skýrsla BCG lagði áherslu á þau miklu tækifæri sem felast í lagareldi, bæði hvað varðar efnahagsleg áhrif og sjálfbæra þróun. Þar var dregið fram hvernig greinin gæti orðið ein af meginefnahagsstoðum þjóðarinnar með markvissri stefnumótun og skýrum lagaramma. Með aukinni áherslu á sjálfbært eldi, tækniþróun og bætta dýravelferð gæti Ísland skipað sér í fremstu röð. Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar varpar hins vegar ljósi á helstu áskoranir sem greinin stendur frammi fyrir. Þar kemur m.a. fram að styrkja þurfi eftirlit með sjókvíaeldi þar sem greinin hafi vaxið hraðar en stjórnsýslan hafi ráðið við.
Í ljósi þessa er stefnt að því að leggja fram heildstætt frumvarp til laga um lagareldi. Markmið frumvarpsins er að skapa lagareldi á Íslandi skýran lagaramma og ýta undir vöxt og verðmætasköpun greinarinnar með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Verður í þeim efnum m.a. litið til innleiðingar á hvötum til eldis á ófrjóum laxi og eldis í lokuðum kvíum til að sporna við neikvæðum áhrifum á lífríki.
Sjávarútvegur býr við mikla alþjóðlega samkeppni og því þarf að búa greininni samkeppnishæft umhverfi og stuðla þar með að vexti íslensks atvinnulífs og samfélags. Öflugar hafrannsóknir og eftirlit með sjávarauðlindinni eru þar lykilatriði. Fylgjast þarf vel með markaðsaðstæðum og fylgja eftir vottunum íslenskra sjávarafurða til að tryggja samkeppnishæfni á alþjóðavettvangi. Íslensk stjórnvöld eru virk í alþjóðasamstarfi þar sem reglur um nýtingu auðlinda hafsins eru mótaðar hjá alþjóðastofnunum. Breytingar í hafi vegna loftslagsbreytinga eru háðar verulegri óvissu, m.a. hvað varðar áhrif súrnunar á vistkerfi og þar með lífríki. Mikilvægt er að vöktun í hafi beinist að því að fylgjast með þessum breytingum. Greina þarf helstu áhættu vegna þessara breytinga og móta aðlögunaráætlun vegna haftengdrar starfsemi.
Í ljósi framangreindra áskorana verður lögð áhersla á að viðhalda stuðningi við sjávarútveg með öflugum rannsóknum, eftirliti og þátttöku í erlendu samstarfi. Þá verður ýtt undir orkuskipti og stutt við nýsköpun til að styðja við samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna sjávarútvegs og aukna framleiðni. Jafnframt verður unnið að sátt um íslenskan sjávarútveg með auknu gagnsæi í eignarhaldi. Þá verður strandveiðum veittur sterkari grunnur í því skyni að styðja við byggð í landinu.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins lækki um 548 m.kr. frá fjárlögum 2025 til ársins 2030. Helstu breytingar á fjárheimildum á tímabilinu snúa í fyrsta lagi að auknum framlögum til eflingar hafrannsókna. Í áætluninni er gert ráð fyrir 220 m.kr. hækkun á árinu 2026 og verður þá viðbótarframlag til verkefnisins komið í 630 m.kr. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir auknum framlögum til að styrkja stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi en útfærsla verkefnisins hefur fallið til bæði á málefnasviði 12 og 13. Í áætluninni er gert ráð fyrir að framlagið hækki um 100 m.kr. á árinu 2026 og verði þá komið í 452 m.kr. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir áframhaldandi aukningu framlaga í Fiskeldissjóð og er miðað við að framlagið verði komið í 649 m.kr. frá og með 2028. Aðrar helstu breytingar á fjárheimildum málefnasviðsins snúa að almennri og sértækri aðhaldskröfu, niðurfellingu á tímabundnum framlögum og breytingum á tekjuáætlun ríkisaðila sem samtals nema um 1.036 m.kr. til lækkunar á tímabilinu.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.