Hoppa yfir valmynd

30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð félags- og húsnæðismálaráðherra. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.

Heildarútgjöld

Helstu áherslur 2026–2030

Heilbrigður vinnumarkaður

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Heilbrigður vinnumarkaður er undirstaða þess að á Íslandi ríki velferð og fólk búi við afkomuöryggi. Á heilbrigðum vinnumarkaði er virkt eftirlit og þar líðast hvorki félagsleg undirboð né skipulögð glæpastarfsemi og vinnumansal. Á slíkum vinnumarkaði er vinnuumhverfi öruggt og heilsusamlegt.

Á heilbrigðum vinnumarkaði er pláss fyrir alla, óháð kyni, aldri, búsetu, uppruna eða fötlun. Þar er enginn útilokaður, enginn vanmetinn. Fólk fær aðstoð við að fá vinnu ef þörf er á og markvisst er unnið að virkri þátttöku sem flestra enda er almenn þátttaka á vinnumarkaði talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun, vanlíðan og fátækt.

Heilbrigður vinnumarkaður snýst ekki bara um vinnu – hann snýst um lífsgæði, samheldni og samtakamátt. Með heilbrigðum vinnumarkaði tryggjum við velsæld til framtíðar og þangað liggur leiðin.

Stefna málefnasviðsins

Ríkisstjórn Íslands ætlar að taka fast á félagslegum undirboðum, m.a. með því að herða eftirlit með starfsmannaleigum, innleiða keðjuábyrgð í stærri verklegum framkvæmdum, efla heimildir til vinnustaðaeftirlits og lögfesta skýrari refsiákvæði vegna vinnumansals.

Markvisst verður unnið að því að sem flestir séu virkir þátttakendur á vinnumarkaði og ráðist í margvíslegar aðgerðir til að auka atvinnuþátttöku fólks með mismikla starfsgetu. Með því sköpum við vinnumarkað sem er fyrir okkur öll, hvort sem við höfum fulla eða skerta starfsgetu. Um leið er áhersla lögð á gott og heilbrigt vinnuumhverfi.

Helstu áskoranir felast í flóknari og opnari vinnumarkaði þar sem ný tegund ráðningarforma hefur í för með sér að vandasamt getur verið að tryggja eftirlit. Enn fremur tekur tíma að breyta vinnustaðamenningu þannig að fólk með skerta starfsgetu fái aukna möguleika á að taka þátt og tilheyra. Tækifæri liggja á hinn bóginn í því að á Íslandi eru aðilar vinnumarkaðarins öflugir og vinnumarkaðurinn vel skipulagður. Með samhentu átaki náum við árangri og stuðlum að heilbrigðum vinnumarkaði.

Mikilvægt þykir að sem flestir séu þátttakendur á vinnumarkaði og er Vinnumálastofnun með fjölmörg úrræði til að aðstoða fólk í þeim efnum. Aðgerðir til að draga úr langtíma­atvinnuleysi hafa skilað miklum árangri og reynslan sýnt að snemmtæk íhlutun skiptir þar sköpum. Því lengur sem fjarvera einstaklings frá vinnumarkaði varir þeim mun ólíklegra er viðkomandi snúi til baka á vinnumarkað. Brýnt er þannig að fjarveran sé ekki of löng. Í ljósi þess er lagt til að stytta tímabil sem fólk getur verið samfleytt á framfærslu atvinnuleysis­trygginga. Nú er tímabilið tvö og hálft ár sem er það lengsta á Norður­löndunum. Samhliða styttingu bótatímabilsins verður aukin áhersla lögð á úrræði sem ætlað er að hjálpa fólki aftur á vinnumarkað sem hefur verið lengi án atvinnu sem og fólki sem hefur fullnýtt rétt sinn hjá Atvinnuleysistryggingasjóði.

Sömu áherslu eru að finna í úrræðum sem tengjast nýju örorkulífeyriskerfi sem tekur gildi 1. september 2025 þar sem áhersla er lögð á að aðstoða fólk með skerta starfsgetu við að fá störf á vinnumarkaði. Í nýju kerfi getur fólk í fyrsta sinn fengið svokallaðan hlutaörorkulífeyri þar sem frítekjumörk eru hærri en í öðrum bótaflokkum sem býr til sterkari hvata en áður fyrir fólk með mismikla starfsgetu til að taka þátt á vinnumarkaði. Í nýju örorkulífeyriskerfi er líka rík áhersla á endurhæfingu en í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að framlög vegna endurhæfingarlífeyris aukist verulega. Frekari umfjöllun um nýtt örorkukerfi er að finna í umfjöllun um málefnasvið 27.

Það er ekki svo að flestir sem rekast í þak atvinnuleysisbótatímabilsins þurfi að sækja í önnur úrræði því gögn Vinnumálastofnunar benda til þess að meirihluti fólks sem fullnýtir rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins fari aftur á vinnumarkað. Gera á fleiri breytingar á Atvinnuleysistryggingasjóði og snúa þær að auknu eftirliti með greiðslum úr sjóðnum til að draga úr bótasvikum og breytingum á ávinnslutímabili atvinnuleysistrygginga.

Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins

Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins lækki um 1,9 ma.kr. á tímabili áætlunar­innar. Stærstu breytingarnar snúa að útgjöldum vegna atvinnuleysistrygginga en áætlað er að framlögin aukist um 930 m.kr. árið 2026. Ári síðar er áætlað að útgjöld dragist saman um 3.500 m.kr. vegna minna atvinnuleysis og breytinga á reglum og rekstri Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta