07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð menningar-, nýsköpunar-, og háskólaráðherra, fyrir utan ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun sem heyrir undir forsætisráðherra og málefni Matvælasjóðs og faggildingarsviðs Hugverkastofu sem heyrir undir atvinnuvegaráðherra.
Málefnasviðið skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026-2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Lykillinn að velsæld, verðmætasköpun og samkeppnishæfu íslensku atvinnulífi felst í langtímafjárfestingu í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum. Þekkingargreinar, á breiðum grundvelli, eru fjórða stoð íslensks efnahagslífs og mikilvægt að hlúa vel að þessum greinum á öllum sviðum, allt frá fyrstu skólastigum. Íslenskt nýsköpunar- og vísindaumhverfi er fámennt og nýta verður þá styrkleika sem fyrir eru hér á landi, byggja upp öflugt stuðningsumhverfi sem stenst alþjóðlegan samanburð og tryggja virka þátttöku á alþjóðavettvangi.
Stefna málefnasviðsins
Málefnasvið rannsókna, nýsköpunar og þekkingargreina er síbreytilegt þar sem tæknibyltingar, jarðhræringar og faraldrar geta kollvarpað fyrri skilningi og kallað fram skyndilegar breytingar á áherslum og forgangsröðun stjórnvalda. Því verða grunninnviðir rannsókna og nýsköpunar að vera hvort tveggja í senn, sveigjanlegir og sterkir.
Stefna stjórnvalda felur í sér að vísindi, tækniþróun og nýsköpun verði helstu drifkraftar sterks samfélags og samkeppnishæfs hagkerfis sem sé í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði. Fjármagn sem varið er í rannsóknir og þróun nemi á árinu 2035 3,5% af vergri landsframleiðslu og nýsköpunardrifið þekkingarsamfélag – með stuðningi við grunnrannsóknir á öllum fræðasviðum, markvissum hagnýtum rannsóknum á lykilsviðum og öflugu frumkvöðla- og sprotastarfi – stuðli að því að bæta heilsu, lífsgæði, hagsæld og verndun umhverfis. Horft verður til þess að styrkja stuðningskerfi rannsókna og nýsköpunar um allt land, ásamt því að efla alþjóðlegt samstarf og þátttöku í evrópskum samstarfsáætlunum, með áherslu á heilbrigðisþjónustu, loftslagsmál, matvælaframleiðslu og gervigreind.
Áskoranir málefnasviðsins snúa m.a. að brotakenndu og flóknu stuðningsumhverfi og því verður unnið að uppbyggingu heildstæðs stuðningsumhverfis með skilvirkri, opinberri þátttöku þar sem mest er þörf hverju sinni. Fjölmargir sjóðir fjármagna rannsókna- og nýsköpunarverkefni og tækifæri felast í sameiningu opinberra sjóða og sameiginlegri sjóðagátt til að ná fram heildstæðari nálgun, betri þjónustu og meiri yfirsýn yfir fjárveitingar stjórnvalda, bæði innanlands og í alþjóðlegu samstarfi. Smæð vísinda- og nýsköpunarumhverfisins er einnig áskorun en samtímis felast mikil tækifæri í aukinni samnýtingu rannsókna- og tækniinnviða og samnýtingu gagna, þvert á stofnanir og fyrirtæki. Frjálst flæði þekkingar og alþjóðlegt samstarf á sviði vísinda og nýsköpunar ýta undir vöxt þekkingarsamfélagsins og veita íslenskum aðilum aukna möguleika til vaxtar, óháð staðsetningu.
Ýmsar áskoranir eru enn til staðar hvað varðar kynjahlutfall í nýsköpun og þekkingargreinum. Því er mikilvægt að gera opinberan stuðning aðlaðandi fyrir alla og auka þátttöku kvenna með fjölbreyttari hvatningu til umsækjenda. Sama á við um þátttöku stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka á landsbyggðinni.
Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar skilar miklu til samfélagsins og eykur samkeppnishæfni fyrirtækja í nýsköpun. Á tímabilinu verður unnin heildarendurskoðun á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki en mikilvægt er að þessi stuðningur nýtist sem best þeim fyrirtækjum sem sinna rannsóknum og þróun og að regluverk og framkvæmd þessa stuðnings sé skýr. Þá er mikilvægt að Nýsköpunarsjóðurinn Kría nýtist með sveigjanlegum hætti sem opinber stuðningur við fjárfestingu í sprotafyrirtækjum á fyrstu stigum, ekki síst á þeim sviðum nýsköpunar sem kalla á langt þróunartímabil.
Örar tæknibreytingar og stafræn umbreyting, m.a. á sviði gervigreindar, fela í sér tækifæri til framfara en eru jafnframt áskorun fyrir atvinnulíf og samfélag. Innleidd verður heildstæð löggjöf um gervigreind, ásamt aðgerðaáætlun, byggð á reglugerð ESB um sama málefni sem tekur þó tillit til íslenskra aðstæðna og gilda. Stutt verður við þær stofnanir og fyrirtæki sem ryðja brautina í innleiðingu gervigreindar á ólíkum sviðum um allt land, með aukna skilvirkni að leiðarljósi. Unnið verður sérstaklega að innleiðingu og þróun gervigreindar á heilbrigðissviði og áfram verður stutt við þróun mállíkana til að auka hlut íslensku í notkun og þróun gervigreindar. Mótuð verður gagnastefna og unnið að uppbyggingu gagnainnviða til að undirbyggja markvissa og ábyrga nýtingu gervigreindar og stuðlað verður að því að auka reiknigetu hjá íslenskum stofnunum og fyrirtækjum til að efla samkeppnishæfni þeirra í alþjóðlegum samanburði.
Auka þarf útflutning og verðmætasköpun í skapandi greinum og unnið verður að umbótum á starfs- og rekstrarumhverfi atvinnulífs skapandi greina. Í því felst m.a. aukin samhæfing stuðnings- og sjóðakerfa með bætt aðgengi og skilvirkni að leiðarljósi. Stefnumótun mismunandi listgreina miðar einnig að aukinni gagnaöflun, greiningum og kortlagningu á samfélagslegu mikilvægi og áhrifum menningar og skapandi greina hér á landi.
Vöxtur hefur verið í kvikmyndaiðnaði á Íslandi á undanförnum árum með mælanlegum jákvæðum efnahags- og samfélagslegum áhrifum. Unnið verður að endurskoðun á lögum um endurgreiðslukerfi kvikmyndagerðar. Áhersla verður á að kerfið nýtist íslenskri kvikmyndagerð sem best, fyrirsjáanleika fjármögnunar, samkeppnishæfni og skilvirkni. Sama gildir um endurgreiðslukerfi vegna hljóðritana á Íslandi þar sem einnig hefur verið vöxtur á undanförnum árum.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Útgjaldarammi málefnasviðsins hækkar um 5,1 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunar. Hækkunin skýrist helst af styrkjum til nýsköpunarfyrirtækja sem byggja á endurmati á útgjaldaþróun ásamt nýjum fjárveitingum vegna aðgerða í nýsköpun. Á móti er gert ráð fyrir lækkun útgjalda vegna hagræðingar eða niðurfellingar tímabundinna fjárheimilda ásamt endurskoðunar styrkjaumhverfis.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.