05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026–2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýn málefnasviðsins er að styrk stjórn fjármála stuðli að stöðugleika og styðji við skilvirka þjónustu og bætt lífskjör á Íslandi.
Meginmarkmið málefnasviðsins er að rekstur og þjónusta ríkisins stuðli að verðmætasköpun og sé samræmd, gagnsæ og hagkvæm.
Stefna málefnasviðsins
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að fyrsta verk hennar verði að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta, með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Til að ná þeim markmiðum þarf stjórn ríkisfjármála að skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta sem verður unnið að með innleiðingu á stöðugleikareglu, auk þess sem stöðva þarf hallarekstur. Tækifæri felast í upptöku á verklagsreglum um rammafjárlagagerð ásamt bættri nálgun við vinnslu fjármálaáætlunar, öflugri rýni á útgjaldaáhættu og útgjaldaþróun innan ársins. Jafnframt eru tækifæri til að stýra efnahagsreikningi ríkisins með markvissari hætti til að ná fram meiri arðsemi, auknum arðgreiðslum og öðrum ábata af eignum ríkisins, m.a. með bættri umgjörð um undirbúning og ákvarðanir um stærri framkvæmdir og fjárfestingar ríkisins.
Á sama tíma hyggst ríkisstjórnin bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu. Styrkja þarf tekjustofna og sjálfbæra tekjuöflun ríkisins til að tryggja fjármögnun opinberrar þjónustu og innviða. Þróun gervigreindar og tengdrar tækni hefur leitt til mikilla breytinga á sviði stafrænna viðskipta. Tækifæri felast í aukinni áherslu á stöðlun gagna og aukinni sjálfvirknivæðingu í skatta- og tollakerfum. Þá er mikilvægt að geta brugðist með markvissum hætti við skattundanskotum með öflugu skatt- og tolleftirliti í rauntíma með áherslu á áhættugreiningu og að uppræta peningaþvætti. Í því skyni verður sjónum beint að því að styðja við kerfislægar stafrænar umbreytingar þar sem þróun regluverks og samtímaeftirlits gegnir m.a. mikilvægu hlutverki.
Stofnanakerfið einkennist af mörgum smærri rekstrareiningum og er því skilvirkni og stærðarhagkvæmni mikil áskorun. Eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar verður að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Með því verða til öflugri einingar sem geta skilað bættri þjónustu og meira virði fyrir samfélagið. Tækifæri felast í betri nýtingu gagna og upplýsinga um ríkisfjármál, innkaup og mannauð sem og skýrari framsetningu helstu frammistöðumælikvarða. Helsti ávinningurinn er bætt ákvarðanataka, eftirfylgni og aukið gagnsæi. Unnið verður að því að auka framboð stafrænnar þjónustu sem er skipulögð út frá lífsviðburðum, auk þess að auka samræmingu í upplýsingatækni og gagnahögun ríkisins. Margvíslegar áskoranir felast í samfélagsbreytingum nútímans, s.s. auknum fjölbreytileika, aukinni tæknivæðingu og kröfum í starfsumhverfi. Einn þriðji hluti ríkisstarfsfólks er eldri en 55 ára og mikilvægt er að ekki eingöngu yfirfærsla þekkingar sé tryggð heldur einnig að viðeigandi þekking sé til staðar svo þjóna megi betur kröfum samfélagsins. Því er nauðsynlegt að huga að auknum sveigjanleika í kerfinu til að mæta þessum breytingum. Nánar er fjallað um fyrirhugaðar umbætur í starfsemi ríkisins í kafla 3.5 í almennri greinargerð fjármálaáætlunar.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Gert er ráð fyrir lækkun útgjalda vegna hagræðingar eða niðurfellingar tímabundinna fjárheimilda um 1.455 m.kr. frá fjárlögum ársins 2025 til ársins 2030. Jafnframt er gert ráð fyrir 1.558 m.kr. lækkun á rekstrarumfangi málefnasviðsins sem fjármagnað er með sértekjum en þær breytingar hafa ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem þær hafa samsvarandi áhrif á tekjuhlið. Auk þess er gert ráð fyrir 100 m.kr. útgjaldasvigrúmi á málefnasviðinu. Breyting fjárheimilda málefnasviðsins nemur því 2,9 ma.kr. til lækkunar á tímabilinu.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.