16 Markaðseftirlit og neytendamál
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð atvinnuvegaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Undir málefnasviðinu er einn málaflokkur sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026–2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýn stjórnvalda er skilvirk efnahagsstarfsemi og velferð á grunni stöðugleika, virkrar samkeppni, gagnsæis og heilbrigðra viðskiptahátta. Meginmarkmið málefnasviðsins er alþjóðleg samkeppnishæfni atvinnulífs sem byggist á efnahagslegu, umhverfislegu og samfélagslegu jafnvægi.
Framtíðarsýn og meginmarkmið málefnasviðsins felast í virku markaðseftirliti sem styður við markmið um góða atvinnu og hagvöxt, ábyrga neyslu og framleiðslu, nýsköpun og uppbyggingu, jöfnuð og framþróun á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Þau styðja jafnframt við heimsmarkmið um að reglusetning og eftirlit með alþjóðlegum fjármálamörkuðum og fjármálastofnunum verði bætt og beiting slíkra reglna efld og um að þróaðar verði skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum sem hafi gagnsæi að leiðarljósi.
Stefna málefnasviðsins
Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður lögð áhersla á sterkt samkeppniseftirlit, öfluga neytendavernd og hagstæð rekstrarskilyrði fyrirtækja. Ríkisstjórnin hyggst jafnframt auka skilvirkni í samskiptum fyrirtækja og hins opinbera.
Skilvirkni í eftirliti með samkeppni og starfsháttum fyrirtækja og traust umgjörð samkeppnismála er mikilvægur þáttur í að tryggja að ábati samkeppninnar skili sér til neytenda.
Á sviði neytendamála er unnið að því að mæta ýmsum áskorunum í málaflokknum með heildarstefnumótun. Snýr sú vinna að nokkrum þáttum sem kemur fram í tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda í neytendamálum til 2030 sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Þar er mörkuð sú framtíðarsýn að á Íslandi verði traust umgjörð neytendamála sem stuðli að virkri samkeppni og veiti neytendum vernd og nauðsynlegar upplýsingar til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um leið og óréttmætum viðskiptaháttum er mætt af festu. Þessari framtíðarsýn verður fylgt eftir með ýmsum aðgerðum sem koma fram í þingsályktunar-tillögunni.
Á sviði fjármálaeftirlits verður lögð áhersla á bætta upplýsingagjöf til eftirlitsskyldra aðila í því skyni að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika í störfum Fjármálaeftirlitsins. Þá verður áfram stefnt að því að auka fræðslu um gildandi rétt og bæta aðgengi að upplýsingum um lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem gilda um eftirlitsskylda aðila á fjármálamarkaði.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins hækki um 614 m.kr. frá fjárlögum 2025 til ársins 2030. Helstu breytingar á fjárheimildum á tímabilinu snúa að 200 m.kr. hækkun á árinu 2026 vegna áherslumála ríkisstjórnarinnar á málefnasviðinu en gert er ráð fyrir að framlagið lækki í 100 m.kr. frá og með árinu 2028. Þá er gert ráð fyrir 663 m.kr. hækkun á tímabilinu sem skýrist af áætluðum breytingum á fjárheimildum vegna rekstrarkostnaðar Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Hækkunin tekur mið af rekstraráætlun Seðlabanka Íslands fyrir Fjármálaeftirlitið vegna ársins 2026 og langtímaáætlun til ársins 2030 sem gerir ráð fyrir hækkun rekstrarkostnaðar í takt við verðbólguspá. Fjárheimild til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands er jafn há eftirlitsgjaldi sem Seðlabankinn innheimtir af eftirlitsskyldum aðilum og rennur í ríkissjóð. Aðrar helstu breytingar á fjárheimildum málefnasviðsins snúa að almennri og sértækri aðhaldskröfu sem m.a. tengist skoðun á mögulegri sameiningu eða samrekstri á sviði samkeppnis- og neytendamála og breytingum á tekjuáætlun ríkisaðila sem samtals nema um 142 m.kr. til lækkunar á tímabilinu.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.