35 Alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands
Starfsemi á málefnasviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands er á ábyrgð utanríkisráðherra. Verkefnum er sinnt af aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sendiskrifstofum í Afríku og fastanefndum Íslands í New York, Genf, París og Róm. Unnið er samkvæmt stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2024–2028 sem samþykkt var af Alþingi 15. desember 2023. Undir málefnasviðinu er einn málaflokkur sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun á tímabilinu 2023–2025.

Helstu áherslur 2026–2030

Framtíðarsýn og meginmarkmið
Ísland deilir framtíðarsýn heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra veröld þar sem hungri og sárafátækt hefur verið útrýmt, dregið hefur úr ójöfnuði innan og á milli ríkja, mannréttindi eru virt og öll eru jöfn fyrir lögum og lifa við frið og öryggi í daglegu lífi. Meginmarkmið alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands eru útrýming fátæktar, virðing fyrir mannréttindum og bætt lífsskilyrði.
Stefna málefnasviðsins
Alþingi samþykkti stefnu stjórnvalda um markmið og áherslur Íslands í þróunarsamvinnu 2024–2028 og veita aðgerðaáætlun og stefnumið frekari ramma um starfið. Lögð er áhersla á fjóra málaflokka: mannréttindi og jafnrétti kynjanna, mannauð og grunnstoðir samfélaga, loftslagsmál og náttúruauðlindir, og mannúðaraðstoð og störf í þágu stöðugleika og friðar, en þess má geta að mannréttindi og jafnrétti kynjanna og umhverfis- og loftslagsmál eru einnig þverlæg markmið sem þýðir að þau eru lögð til grundvallar í öllu starfi. Aðild að Sameinuðu þjóðunum, heimsmarkmið SÞ, Parísarsamkomulagið um aðgerðir til að takast á við og bregðast við loftslagsbreytingum og aðrir alþjóðlegir sáttmálar sem Ísland er aðili að varða veginn í stefnu stjórnvalda. Á sama tíma er tekið mið af þeim áskorunum sem fátækari ríki heims standa frammi fyrir, styrkleikum og sérþekkingu Íslands og þeim gildum sem íslenskt samfélag hefur í heiðri, t.a.m. mannréttindum, kynjajafnrétti og réttindum hinsegin fólks.
Fjölmargar áskoranir standa í vegi fyrir því að heimsmarkmið SÞ nái fram að ganga. Vaxandi ófriður og óstöðugleiki, þar á meðal í Evrópu, hefur kallað á aukinn stuðning framlagsríkja, t.d. við Úkraínu, og komið illa niður á fátækum þjóðum. Afleiðingar loftslagsbreytinga og umhverfistengd áföll eru tíðari þar sem hamfarir, flóð og þurrkar valda efnahagsþrengingum og fæðuóöryggi en viðkvæmustu samfélögin búa ekki yfir viðnámsþrótti til að takast á við slíkt. Þessar áskoranir koma til viðbótar þeim víðtæku vandamálum sem fátækustu ríkin glíma við. Yfir milljarður býr nú við fátækt og skort, þar af er stærstur hluti börn, og í Afríku búa um 600 milljónir við orkufátækt. Veikir innviðir og takmörkuð atvinnutækifæri hafa aukið hættu á uppgangi öfgahópa og átaka og leitt til aukins fólksflótta. Allt þetta eykur þörf á neyðar- og mannúðaraðstoð og kallar á sársaukafullar ákvarðanir um forgangsröðun. Þá hefur orðið bakslag í mannréttindabaráttu víðs vegar í heiminum, þar á meðal réttindum kvenna og stúlkna og hinsegin fólks. Framlög til fátækustu ríkjanna hafa á sama tíma ekki aukist en stuðningur við Úkraínu og kostnaður innan framlagsríkja vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd þess í stað farið vaxandi. Þá verður að teljast líklegt að stefna bandarískra stjórnvalda, sem hafa nú dregið seglin verulega saman í þróunarsamvinnu, muni hafa víðtækar afleiðingar en Bandaríkin eru stærsta framlagsríki heims.
Íslensk stjórnvöld taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi og beina fjárframlögum markvisst til verkefna, sjóða og stofnana sem miða að því að koma stefnu stjórnvalda til framkvæmdar. Þannig styður Ísland við uppbyggingu mannauðs og innviða í samstarfsríkjunum Malaví, Úganda og Síerra Leóne þar sem sérstök áhersla er lögð á aðgang að grunnmenntun, heilbrigðisþjónustu, hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Þá munu stjórnvöld leggja enn þyngri áherslu á mannréttindi, jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna á komandi árum þótt jafnréttismálin hafi ávallt skipað stóran sess í þróunarsamvinnu Íslands. Er það bæði í ljósi þess að mannréttindi og jafnrétti kynjanna eru forsenda framfara á öllum sviðum og þess bakslags er hefur gætt á þessu sviði á undanförnum árum. Loftslagsmálin hafa jafnframt lengi verið mikilvægur þáttur í starfinu, en stefnt er að því að gefa enn frekar í á þeim vettvangi, styðja við bætta mótvægis- og aðlögunarhæfni samfélaga og taka virkan þátt í alþjóðlegri samvinnu þar að lútandi. Í ljósi vaxandi átaka og óstöðugleika verður mannúðaraðstoð áfram lykilþáttur í starfinu og Mið-Austurlönd og Afríka sunnan Sahara skilgreind sem áherslusvæði til að leitast við að auka skilvirkni og áhrif stuðnings Íslands. Samstarf íslenskra stjórnvalda við fjölþjóðlegar stofnanir hefur verið eflt enda mikilvægt að standa vörð um það fjölþjóðlega kerfi sem við höfum komið okkur upp. Lögð er áhersla á sveigjanleg og fyrirsjáanleg framlög sem nýtast samstarfsaðilum best til að laga sig að stöðugt meira krefjandi aðstæðum og beina aðstoðinni þangað sem þörfin er mest. Nánar má lesa um stefnu Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu 2024–2028 á vef Alþingis ásamt frekari útlistun á verkefnum í aðgerðaáætlun 2024–2025.
Þar sem framlög Íslands til mannúðar- og efnahagsaðstoðar við Úkraínu teljast til opinberrar þróunaraðstoðar falla þau innan málefnasviðs 35. Í stuðningi Íslands við Úkraínu er fyrst og fremst unnið með fjölþjóðlegum stofnunum og samtökum þar sem áhersla er lögð á þarfir úkraínsku þjóðarinnar og þau svið sem íslensk stjórnvöld leggja áherslu á í alþjóðlegri þróunarsamvinnu, s.s. uppbyggingu orkuinnviða.
Með hækkun framlaga má gera ráð fyrir auknum umsvifum í tvíhliða samstarfslöndum og verður samstarf við önnur ríki tekið til skoðunar á tímabili fjármálaáætlunar. Þá verður samstarf við fjölþjóðlegar áherslustofnanir eflt en t.a.m. munu framlög til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA) aukast í kjölfar 21. endurfjármögnunar stofnunarinnar. Þá er sömuleiðis gert ráð fyrir auknum framlögum til verkefna sem ætlað er að mæta bakslagi í mannréttindamálum. Aukið verkefnaumfang felur í sér þörf á fjölgun starfsfólks til að sinna umsýslu og viðhafa virkt eftirlit með tvíhliða og fjölþjóða starfi sem fjármagnað er af íslenska ríkinu, ásamt áframhaldandi uppbyggingu á sérfræðiþekkingu á sviði þróunarsamvinnu innan utanríkisráðuneytisins.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Framlög til þróunarsamvinnu hækka á tímabili áætlunarinnar úr 16,4 ma.kr. í 23,5 ma.kr. Það jafngildir því að framlög Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu hækki á tímabilinu úr 0,34% af vergum þjóðartekjum (VÞT) í 0,39%. Drjúgum hluta aukningarinnar verður varið til mannúðar- og efnahagsaðstoðar við Úkraínu, enda er gert ráð fyrir að fjárheimildir sem nema 1,5 ma.kr. færist frá varnartengdum verkefnum árið 2028 yfir á alþjóðlega þróunarsamvinnu. Áætlunin er sett fram að teknu tilliti til útgjalda sem falla undir önnur málefnasvið en teljast jafnframt til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og felur í sér vöxt á tímabilinu en gert er ráð fyrir að hann verði nokkru hægari en stefnt var að í stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2024–2028.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.