04 Utanríkismál
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð utanríkisráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026–2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýn utanríkisþjónustunnar er að hagsmunir lands og þjóðar séu tryggðir á grundvelli alþjóðalaga með virku fjölþjóðakerfi sem sátt ríkir um. Ísland leggi sitt af mörkum í alþjóðlegu samstarfi til að stuðla að framgangi lýðræðis, mannréttinda, kynjajafnréttis og réttarríkisins, sjálfbærri þróun og friðsamlegum lausnum deilumála á grundvelli þjóðaréttar. Á sama tíma séu varnir landsins tryggðar með virku samstarfi við helstu bandalagsríki á grundvelli varnarsamningsins við Bandaríkin frá 1951, aðildarinnar að Atlantshafs-bandalaginu og svæðisbundins samstarfs samhliða eflingu innlendrar viðbúnaðargetu. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru vegvísir í alþjóðasamstarfi til ársins 2030.
Meginmarkmið utanríkisþjónustunnar er að gæta í hvívetna hagsmuna Íslands gagnvart öðrum ríkjum samkvæmt lögbundnu hlutverki, einkum er snertir stjórnmál, öryggis- og varnarmál, utanríkisviðskipti og menningarmál. Ísland fái aukna hlutdeild í alþjóðaviðskiptum, varnir landsins séu tryggðar og ríkisborgarar njóti verndar og aðstoðar gagnvart erlendum stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum og að í öllu alþjóðlegu samstarfi verði tryggð réttindi Íslands yfir hafsvæðum sínum og auðlindum.
Stefna málefnasviðsins
Í ljósi breytts öryggisumhverfis í Evrópu og aukinna áskorana í alþjóðaviðskiptum leggur Ísland áherslu á öfluga varnarsamvinnu, stöðuga hagsmunagæslu í viðskiptum og nánari tengsl við Norðurlönd og Eystrasaltsríkin, önnur Evrópuríki og Evrópusambandið, Atlantshafsbandalagið, bandalagsríki og önnur líkt þenkjandi ríki.
Varnir Íslands, öryggi og fullveldi verða einungis tryggð með virku samstarfi og samningum við önnur ríki og innan alþjóðastofnana. Þar eru aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamningurinn við Bandaríkin grunnstoðir en svæðisbundið varnarsamstarf skipar einnig mikilvægan og vaxandi sess, einkum norrænt varnarsamstarf. Með virkri þátttöku í varnarsamstarfi er hagsmuna Íslands gætt og sameiginlegar varnarskuldbindingar áréttaðar sem er mikilvægasti liðurinn í fælingar- og varnarstefnu Íslands. Gert er ráð fyrir að ný öryggis- og varnarmálastefna verði innleidd á tímabilinu og áhersla lögð á að tryggja varnir innviða, netöryggi og aukna þátttöku í sameiginlegum varnaraðgerðum. Innrás Rússlands í Úkraínu og sú breytta heimsmynd sem af því leiðir er alvarlegasta öryggisógn sem Evrópa hefur staðið frammi fyrir í langan tíma. Bregðast þarf við þessum veruleika með auknum varnarviðbúnaði og áframhaldandi öflugum stuðningi við Úkraínu. Í samræmi við samning Íslands og Úkraínu um öryggissamstarf og langtímastuðning verður stutt við Úkraínu í formi varnartengds stuðnings í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Gera má ráð fyrir að þörf fyrir aðstoð taki breytingum eftir því sem stríðinu vindur fram og að skipting stuðnings niður á málaflokka verði til sífelldrar endurskoðunar.
Ísland situr í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna næstu þrjú árin, til ársloka 2027. Framboð Íslands til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna var hluti af langtímastefnu íslenskra stjórnvalda til að vernda og efla mannréttindi um allan heim. Í ráðinu leggur Ísland áherslu á að efla samstöðu um grundvallarmannréttindi, kynjajafnrétti, hinsegin réttindi, réttindi barna og tengsl mannréttinda og umhverfismála.
Eitt af lögbundnum hlutverkum utanríkisþjónustunnar er að vernda hagsmuni Íslands í alþjóðaviðskiptum og stuðla að efnahagslegri hagsæld þjóðarinnar með greiðum aðgangi útflutnings að erlendum mörkuðum. Stuðst er við langtímastefnumótun atvinnulífs, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda, varðandi markaðssetningu og útflutning á íslenskum vörum, þjónustu og menningu. Að sama skapi þarf að tryggja stöðugt framboð á innfluttum vörum og þjónustu. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir opið hagkerfi eins og það íslenska sem byggir afkomu sína á stöðugum og traustum viðskiptasamböndum við önnur ríki. Ísland vinnur því áfram að gerð fríverslunarsamninga og annarra viðskiptasamninga. Við núverandi aðstæður þarf að tryggja að utanríkisviðskipti styðji við efnahagslegt öryggi, ekki síst þar sem Evrópusambandið beitir innri markaðnum æ oftar fyrir sig í þeim tilgangi. Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu verður haldin eigi síðar en árið 2027.
Vegna stöðu heimsmála er ljóst að verkefnum utanríkisráðuneytisins hefur fjölgað og ekki von til að dragi úr umfangi þeirra á næstu árum, hvort sem horft er til hagsmunagæslu á pólitíska sviðinu, varnar- eða viðskiptamála. Þá hefur eftirspurn eftir borgaraþjónustu aukist til muna og afkastageta við útgáfu Schengen-vegabréfsáritana til landsins verið efld. Í fjárlögum fyrir 2025 var fjárheimild til áritanamála aukin með það að markmiði að mæta mikilli eftirspurn. Árið 2024 fjölgaði innlögðum umsóknum um 55% frá fyrra ári og áætlað er að aukning verði sambærileg í ár. Áætlað er að aukning ríkistekna sem af þessu leiðir verði umtalsvert meiri en sem nemur aukinni fjárheimild. Hlúa þarf að mannauði utanríkisþjónustunnar og efla þekkingu og reynslu starfsfólks. Umbætur í starfi munu byggjast á árangursmiðaðri sýn og að nýta þau tækifæri sem felast í stafrænni utanríkisþjónustu til að bæta þjónustu og upplýsingamiðlun.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Gert er ráð fyrir að framlög til varnartengdra verkefna verði aukin um 4 ma.kr. á tímabilinu fram til ársins 2028. Drjúgum hluta þessarar aukningar verður varið í aukinn varnartengdan stuðning við Úkraínu. Árið 2028 er gert ráð fyrir að um 1,5 ma.kr. komi til lækkunar í varnartengdan stuðning við Úkraínu á móti sambærilegri hækkun á alþjóðlegri þróunarsamvinnu til mannúðarstuðnings og uppbyggingar í Úkraínu, með fyrirvara um framvindu átaka í Úkraínu. Aðrar breytingar eru fyrst og fremst lækkun framlaga vegna aðhaldsáforma og niðurfelling framlaga til tímabundinna verkefna.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.