33 Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026–2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýn málefnasviðsins er að draga úr áhættu í rekstri ríkissjóðs og auka fyrirsjáanleika í ríkisfjármálum og bæta þannig ásýnd Íslands í alþjóðlegum samanburði.
Meginmarkmið málefnasviðsins er hagkvæm nýting á fjármagni ríkissjóðs til þess að bæta afkomu og skapa útgjaldasvigrúm til annarra málaflokka.
Stefna málefnasviðsins
Skuldir A1-hluta ríkissjóðs að frádregnum innstæðum stóðu í 1.529 ma.kr. (33,1% af VLF) í árslok 2024 og hafa hækkað um 182 ma.kr. frá árslokum 2023. Á næstu fimm árum er útlit fyrir að fjármagnskostnaður ríkissjóðs verði í kringum 7,4% af útgjöldum. Það eru því mikilvægir hagsmunir ríkissjóðs að lágmarka fjármagnskostnað til lengri tíma m.t.t. áhættu og rýma fyrir öðrum útgjöldum, lækkun skatta eða skuldaniðurgreiðslu.
Útistandandi ríkisábyrgðir stóðu í 789 ma.kr. (17% af VLF) í árslok 2024. Stefna stjórnvalda er að draga úr ríkisábyrgðum eins og kostur er næstu árin og veita hvorki nýjar né endurnýja eldri ábyrgðir sem eru komnar á gjalddaga. Með bættu eftirliti með ríkisábyrgðum og endurlánum og eflingu áhættustýringar ríkissjóðs er unnt að draga úr áhættu ríkissjóðs til framtíðar.
Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar hækkuðu um 58 ma.kr. á milli áranna 2022 og 2023, úr 870 ma.kr. í 929 ma.kr. Gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga er háð mörgum breytum, t.d. launahækkunum, verðlagsbreytingum, ávöxtun eigna og tryggingafræðilegum forsendum. Stefnt er að lágmörkun ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs með lágmarkskostnaði a.t.t. til áætlana um niðurgreiðslu skulda.
Með nýtingu eigna til uppgreiðslu skuldbindinga og skulda ríkissjóðs er efnahagur ríkissjóðs minnkaður og dregið úr áhættu ríkissjóðs. Það er líklegt til að hafa jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs til langs tíma og lánshæfismat ríkissjóðs og þar með lánskjör.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.