01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð forseta Alþingis. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026–2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Meginverkefni Alþingis er lagasetning en þingið fer einnig með viðamikið eftirlitshlutverk. Starfshættir Alþingis eru ákvarðaðir í stjórnarskrá og þingsköpum.
Alþingi hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu og á vegum þess starfa þrjár sjálfstæðar stofnanir, umboðsmaður Alþingis, ríkisendurskoðandi og Mannréttindastofnun Íslands. Umboðsmaður hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Til hans getur hver sá leitað sem telur að stjórnvöld hafi beitt sig rangleitni. Umboðsmaður lýkur athugun sinni á máli með bréfi eða áliti hvort leyst hafi verið úr máli í samræmi við lög. Með þessu er réttaröryggi borgaranna styrkt og Alþingi fær innsýn í starfshætti stjórnvalda. Ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja og að fjárheimildir og hvers konar verðmæti séu nýtt og þeim ráðstafað á hagkvæman og réttmætan hátt og í samræmi við forsendur og ákvarðanir Alþingis. Markmið embættis ríkisendurskoðanda miða að betri nýtingu ríkisfjármuna og bættri opinberri þjónustu. Mannréttindastofnun hefur það meginhlutverk að efla og vernda mannréttindi á Íslandi eins og þau eru skilgreind í stjórnarskrá, lögum, alþjóðasamningum og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum.
Stefna málefnasviðsins
Helstu áskoranir skrifstofu Alþingis snúa að því að tryggja framsækni og fagmennsku í þróun starfsumhverfis þingmanna og starfsfólks og halda uppi ásættanlegu þjónustustigi á meðan gætt er fyllsta aðhalds í rekstri. Skipulagsbreytingar hafa minnkað yfirbyggingu og aukið samstarf þvert á einingar. Áhersla hefur verið lögð á að nýta og þróa tæknilausnir á mörgum sviðum.
Mikil áhersla er áfram lögð á að þróa stafrænar lausnir á öllum sviðum í starfsemi Alþingis til að auka skilvirkni, minnka sóun, auka hagkvæmni, öryggi og aðgang að upplýsingum en jafnframt stuðla að umhverfi sem hvetur til vandaðra vinnubragða. Mikil tækifæri felast til dæmis í snjallvæðingu þingskjala og lagasafns en það verkefni er langt á veg komið, Alþingi, Stjórnarráðinu, öðrum hagaðilum og almenningi öllum til gagns. Vonast er til að því verkefni ljúki árið 2026. Þá hefur verið góður gangur í þróun þingmannagáttar, sem má segja að sé komin í fulla notkun, sem og nefndagáttar en áætlað er að hún verði fullkláruð árið 2026. Opið og aðgengilegt Alþingi er einnig áherslumál, bæði hvað varðar heimsóknir til Alþingis og fræðslu út á við. Fræðslustarfið er í stöðugri þróun, einkum gagnvart yngri kynslóðinni, enda mikilvægt að efla lýðræðisvitund. Boðið er upp á fjölbreyttar fræðsluleiðir sem byggðar eru á hæfniviðmiðum aðalnámskrár fyrir öll skólastig. Aukin áhersla er á að auka aðgengi ungs fólks á landsbyggðinni að fræðslu. Þá er vefur Alþingis í endurskoðun með það að markmiði að bæta aðgengi að upplýsingum og þjónustu.
Umboðsmanni berast á milli 500 og 600 kvartanir á hverju ári frá einstaklingum og lögaðilum. Að auki stofnar umboðsmaður töluvert af frumkvæðismálum á ári hverju og sinnir OPCAT-eftirliti. Það felur í sér nokkurn fjölda heimsókna á staði þar sem frelsissviptir einstaklingar eru vistaðir og í framhaldinu útgáfu á skýrslum um þær. Helstu áskoranir embættisins eru að viðhalda núverandi starfsmannafjölda til að sinna fyrrnefndum verkefnum sem eru umfangsmikil og fjölbreytt, tryggja málshraða við umfjöllun þessara mála, þ.e. jafnt um kvartanir, frumkvæðismál og eftirlitsheimsóknir OPCAT-eftirlitsins án þess að slakað sé á faglegum kröfum. Í því sambandi ber að hafa í huga að frumkvæðis- og OPCAT-eftirlit umboðsmanns gegnir veigamiklu hlutverki við að tryggja réttindi ýmissa minnihlutahópa. Þá gegnir frumkvæðiseftirlit mikilvægu hlutverki við að greiða úr upplýsingaóreiðu hjá opinberum aðilum.
Áhersla verður lögð á að leita leiða til að gera málsmeðferð kvartana- og frumkvæðismála skilvirkari með endurskoðun á verkferlum og skipulagi. Unnið verður áfram að umbótum í upplýsingatækni á skrifstofu UA. Þá verður lögð áhersla á að auka fræðslu fyrir stjórnvöld, m.a. með sérstökum leiðbeiningum á heimasíðu ætluðum þeim og fræðafundum sem starfsmenn umboðsmanns munu sinna. Að sama skapi verður unnið að því að bæta leiðbeiningar og upplýsingar á heimasíðu til þeirra sem hyggjast kvarta til umboðsmanns. Þá verður leitað leiða til að tryggja virkt OPCAT-eftirlit um allt land. Að auki verður lögð áhersla á forvarnar- og kynningarhlutverk OPCAT-eftirlitsins með upplýsingum og fræðsluefni á heimasíðu, á prentuðu formi og með kynningarfundum og heimsóknum starfsmanna umboðsmanns.
Ríkisendurskoðun sinnir eftirliti með því hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í meðferð á opinberu fé, svo og hvort fjárframlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt. Hefur sú stefna verið mörkuð að leggja höfuðáherslu á stjórnsýslu mikilvægari málaflokka og fjárhag stærri ríkisaðila. Þetta leiðir til þess að úttektir verða færri en að sama skapi árangursríkari fyrir opinber fjármál og stjórnsýslu.
Staða ríkisfjármála er enn traust eftir veigamiklar áskoranir heimsfaraldurs og náttúruhamfara en ýmsir aðrir þættir, s.s. viðhald og uppbygging innviða og öldrun þjóðarinnar, munu fyrirsjáanlega halda áfram að valda þrýstingi á ríkisfjármálin. Þetta mun gefa verkefnum Ríkisendurskoðunar aukið vægi á komandi árum er ríkisreksturinn leitar aukinnar hagkvæmni og jafnvægis.
Miklu skiptir að upplýsingagjöf um stöðu og horfur ríkisfjármála sé glögg og tímanleg. Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum árum lagt ríka áherslu á aga og festu við gerð og endurskoðun ríkisreiknings og fylgni við markmið laga nr. 123/2015 um opinber fjármál. Ríkisreikningur 2023 var fyrsti samstæðureikningur fyrir ríkið í heild (A-, B- og C- hluta). Tækifæri eru til umbóta hvað varðar innleiðingu og fylgni við reikningsskilastaðla og að endurskoðaður ríkisreikningur liggi fyrr fyrir. Stefnt er að þessu frá og með ríkisreikningi 2024.
Stjórnsýsluúttektir embættisins hafa á undanförnum árum bent á fjölmörg tækifæri til umbóta í opinberum rekstri og stjórnsýslu, þ.m.t. hvað varðar hagræðingu, aukna skilvirkni og sameiningu stofnana.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Kosið verður til Alþingis 2028 og því fylgir kostnaður vegna biðlauna og ýmiss búnaðar fyrir þingmenn. Árið 2030 verða 1100 ár frá stofnun Alþingis og verður þeirra tímamóta minnst með veglegum hætti auk þess sem það ár verður Alþingi gestgjafi Norðurlandaráðsþings.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.