Hoppa yfir valmynd

​21 Háskólastig

Menningar-٫ nýsköpunar- og háskólaráðuneytið

Starfsemi á þessu málefnasviði heyrir undir menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra­. Málefnasviðið skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhags­legri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.

Heildarútgjöld í m.kr.

Helstu áherslur 2026-2030

Háskólar í fremstu röð

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýnin er að á Íslandi starfi háskólar sem séu alþjóðlega samkeppnishæfir hvað varðar gæði kennslu, rannsóknavirkni og samfélagslega þátttöku. Farsæld Íslands byggist á öflugu háskólastarfi og háskólarnir eru vettvangur nýrrar þekkingar og lausna við samfélagslegum áskorunum, hvort sem er í þjóð­félagslegu eða hnattrænu samhengi. Fjölbreytt menntun styrkir grunnstoðir samfélagsins í nútíð og framtíð og háskólaumhverfið myndar frjóan jarðveg fyrir nýja þekkingu og nýjar lausnir. Úr háskólum útskrifast einstaklingar með færni til að mæta fjölbreyttum þörfum samfélagsins, fá störf við hæfi og skapa áhugaverð tækifæri byggð á þekkingu, hugviti og skapandi hugsun. Menntasjóður námsmanna styður við nemendur með fjölbreyttan bakgrunn og jafnar tækifæri til náms óháð búsetu og efnahag.

Stefna málefnasviðsins

Örar samfélagslegar breytingar kalla á trausta menntun og öflugar rannsóknir og gegnir háskólastarf þannig lykilhlutverki við að efla grunnstoðir samfélagsins og mæta áskorunum framtíðar. Innan háskóla og rannsóknastofnana skapast þekking og færni sem styður við fjölbreytt atvinnulíf, tækniþróun og nýsköpun. Vísindaleg þekking gegnir lykilhlutverki í því að þróa nýjar lausnir gagnvart samfélagslegum áskorunum, s.s. loftslagsbreytingum og náttúruvá, og traust þekking á umhverfi og aðstæðum hér á landi er mikilvæg til að tryggja innviði og örugga búsetu um allt land. Upplýstar ákvarðanir um nýtingu auðlinda, með hagsmuni þjóðarinnar og lífríkis að leiðarljósi, byggjast sömuleiðis á traustri þekkingu og rannsóknum.

Íslenskt samfélag er fámennt og því er áskorun að nýta vel þann mannauð sem hér býr og hvetja fólk til náms. Mönnun mikilvægra starfsstétta, s.s. í löggæslu, heilbrigðiskerfi og menntakerfi, er áskorun í íslensku samfélagi. Starfsvettvangur allra þessara stétta kallar á vel menntað fagfólk, framsæknar rannsóknir, trausta innviði og aðlaðandi starfsumhverfi og háskólar gegna lykilhlutverki við að tryggja þær þarfir.

Mikilvægt er að háskólar stuðli að auknu aðgengi ólíkra þjóðfélagshópa að færniþróun með sveigjanlegu námsframboði, raunfærnimati og öflugu örnámi á fjölbreyttum sviðum. Breytingar hafa verið gerðar á regluverki háskóla svo heimild háskóla til að bjóða upp á örnám er lögfest. Á tímabilinu verða gerðar leiðbeiningar fyrir háskólana til að styðja þá við innleiðingu örnáms og stuðla að frekari þróun þess. Raunfærnimat á háskólastigi er í þróun innan háskólanna og heldur áfram á tímabilinu með það að markmiði að gæði raunfærnimatsins og stöðlun þess til námseininga sé tryggð. Háskólar styðja þannig við samfélagslegar þarfir og þróun og eru grundvöllur þess að fjölbreyttum hópi fólks sé tryggð menntun og símenntun í hæsta gæðaflokki byggð á sterkum vísindalegum grunni.

Hraðvaxandi notkun gervigreindartækni í samfélaginu felur í sér bæði tækifæri og áskoranir sem kalla á endurmenntun og nýja færni og skarpa siðferðislega umræðu, jafnt innan háskólasamfélagsins sem meðal almennings. Mikilvægt er að kenna gagnrýna hugsun og þjálfa færni til að bregðast við upplýsingaóreiðu, á sama tíma og háskólar tileinki sér þau tækifæri sem felast í nýtingu tækninnar.

Grunngildi háskólasamfélagsins, akademískt frelsi; sjálfstæði stofnana; heilindi í rannsóknum; menntun til lýðræðis, hafa aldrei staðið frammi fyrir eins miklum alþjóðlegum áskorunum og nú. Auðvelda þarf háskólum, stjórnvöldum og almenningi að hafa þessi gildi að leiðarljósi með skýrri stefnu, m.a. um opin og ábyrg vísindi og ábyrgt vísindasamstarf, auk þess að efla lýðræðisvitund og miðlun vísinda til almennings. Unnið verður að stefnu um opin og ábyrg vísindi á tímabilinu, auk þess sem stefna Vísinda- og nýsköpunarráðs til ársins 2035 kveður nánar á um með hvaða hætti unnið verði að ofangreindum markmiðum.

Talsverð skörun er á málefnasviðum 7 og 21 þegar kemur að rannsóknum og nýsköpun og unnið verður að því að festa enn betur í sessi hlutverk háskólasamfélagsins sem vöggu rannsókna og nýsköpunar í landinu og áhersla lögð á yfirfærslu rannsókna og vísindalegra lausna frá háskólum til atvinnulífs og samfélags.

Hagkvæmni í rekstri og betri nýting opinbers fjár er áhersla stjórnvalda á tímabilinu. Það er áskorun fyrir litla háskóla að viðhalda þeim slagkrafti sem þörf er á til að standast alþjóðlegar gæðakröfur og samkeppnishæfni. Í því skyni verða áfram kannaðir fýsileikar aukins samstarfs og sameiningar háskóla í nánu samstarfi við hagaðila og nærsamfélag skólanna hér á landi. Lögð verður áhersla á að styðja við þátttöku íslenskra háskóla í alþjóðlegu samstarfi, þar á meðal evrópskum háskólanetum, í því skyni að auka tækifæri til nútímavæðingar og uppbyggingar í takti við örar tæknibreytingar.

Lögum um Menntasjóð námsmanna verður breytt til að tryggja jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu eða efnahags. Markmið breytinganna er m.a. að auka svigrúm námsmanna til þess að hljóta námsstyrk að norskri fyrirmynd. Auk þess er stefnt að því að auka fyrirsjáanleika lánþega við afborganir námslána. Þá er unnið að frekari breytingum og heildarendurskoðun laganna hjá ráðuneytinu til að tryggja enn frekar markmið sjóðsins um að vera félagslegur jöfnunarsjóður.

Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins

Nýjar fjárveitingar hækka útgjaldaramma málefnasviðsins um 2,2 ma.kr. einkum vegna fjölgunar nemenda og styrkingar háskólastigsins. Á móti er gert ráð fyrir lækkun útgjalda vegna hagræðingar eða niðurfellingar tímabundinna fjárheimilda. Breyting fjárheimilda málefnasviðsins nemur því 522 m.kr. til lækkunar yfir tímabil fjármálaáætlunar.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi í m.kr.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta