Hoppa yfir valmynd

11 Samgöngu- og fjarskiptamál

Innviðaráðuneytið

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð innviðaráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.

Heildarútgjöld í m.kr.

Helstu áherslur 2026–2030

Öruggir innviðir

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengir byggðir landsins og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.

Meginmarkmiðin eru að innviðir og þjónusta mæti þörfum almennings og atvinnulífs og sjálfbæra þróun byggða og sveitarfélaga um land allt. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að auka fjárfestingu í samgöngum og hefja kraftmiklar framkvæmdir um land allt.

Stefna málefnasviðsins

Meginmarkmið í samgöngustefnu landsins eru að samgöngur séu greiðar, öruggar, hagkvæmar, umhverfislega sjálfbærar og að þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun. Markmiðin eiga við um alla samgöngumáta en stefna fyrir hvern þeirra birtist í samgönguáætlun á hverjum tíma. Samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 er í gildi en unnið er að tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2026–2040 sem gert er ráð fyrir að lögð verði fram á haustþingi 2025.

Helstu áskoranir á málefnasviðinu eru að tryggja að samgöngur, sem eru lífæð íslensks samfélags, stuðli að bættu aðgengi og öryggi landsmanna og hafi jákvæðan hvata fyrir atvinnulíf á landinu. Af því leiðir að unnið verði að því að auka öryggi, stytta vegalengdir og ferðatíma, tengja byggðir og draga úr umhverfisáhrifum samgangna. Mjög stór áskorun til næstu ára verður að bregðast við alvarlegu ástandi samgönguinnviða á Íslandi sem hefur hrakað verulega síðustu ár.

Gera má ráð fyrir að umsvif og umferð haldi áfram að aukast á næstu árum þar sem álag á vegi hefur ekki aðeins magnast vegna fjölda ökutækja heldur einnig vegna þyngdar þeirra. Þá hefur umferð vöruflutningabifreiða aukist samhliða þróun útflutningsgreina en vöruflutningar á landi hafa farið stigvaxandi jafnt og þétt síðustu ár. Samhliða vaxandi umferð hefur meðalþyngd nýskráðra ökutækja farið hækkandi. Allt eru þetta auknar áskoranir og álag sem veldur meira sliti vega og hefur mikil áhrif á viðhaldsþörfina sem þarf að bregðast við.

Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að vinna á viðhaldsskuld verður bætt í framlag til viðhalds og þjónustu á vegakerfinu til að styrkja vegakerfið, en það er grunnstoð íslensks samfélags, unnið að auknu öryggi og fækkun slysa og greiðar samgöngur milli byggða tryggðar allt árið um kring.

Ráðist verður í mikilvægar úrbætur í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgar­svæðisins til að greiða fyrir umferð á stofnvegum, efla almenningssamgöngur og styðja við fjölbreyttan ferðamáta. Þá verður áfram unnið að undirbúningi við Sundabraut og frekari jarðgangagerðar. Starfshópur fjármála- og efnahagsráðuneytisins, innviðaráðuneytisins og Vegagerðarinnar er nú að störfum og skoðar alla valkosti varðandi fjármögnun Sundabrautar. Þá er enn fremur stefnt að því í samvinnu innviðaráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að greina valkosti við fjármögnun stærri verkefna. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu eins fljótt og kostur er svo rjúfa megi þá kyrrstöðu sem verið hefur í jarðgangagerð á undanförnum árum. Nánar er fjallað um nýjar leiðir til að flýta samgöngu­framkvæmdum í rammagrein 3.

Lokið verður við ljósleiðaravæðingu alls þéttbýlis með eftirfylgni samninga við sveitarfélög um styrkta uppbyggingu í þéttbýli. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu fyrir árslok 2026 en ljósleiðaravæðingu dreifbýlis lauk 2022. Unnið verður að áframhaldandi uppbyggingu á samfelldu tal- og háhraðafarnetssambandi á öllum stofnvegum á láglendi með það að markmiði að ljúka framkvæmdum á kjörtímabilinu.

Áfram verður stutt við netöryggi í samræmi við netöryggisstefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda. Framkvæmd fjölda aðgerða hefur nú þegar sýnt fram á árangur og skilað sér í verulegri hækkun Íslands í netöryggisvísi Alþjóðafjarskiptasambandsins árið 2024. Gildandi netöryggisstefna verður endurskoðuð á árinu í samræmi við þróun samfélagsins og alþjóðlegra skuldbindinga. Árangur af framkvæmd gildandi laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða hefur verið metinn og fyrir liggur að framkvæmd eftirlitsins er skammt á veg komin hjá flestum eftirlitsstjórnvöldum.

Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins

Heildarframlög til málefnasviðsins á tímabili áætlunarinnar nema 368,8 ma.kr. Framlög aukast um 5,8 ma.kr. á árinu 2026 sem skýrist fyrst og fremst af auknum framlögum til viðhalds og þjónustu á vegakerfinu. Árin 2027–2030 vegast á hækkanir og lækkanir, s.s. aukning til viðhalds á vegum og niðurfelling á tímabundnum framlögum. Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi í m.kr.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta