31 Húsnæðis- og skipulagsmál
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð félags- og húsnæðismálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.
Helstu áherslur 2026-2030
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Stöðugleiki ríki á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf í jafnvægi við umhverfið. Öllum sé tryggt öruggt og gott húsnæði í blandaðri byggð og húsnæðiskostnaður þeirra sé viðráðanlegur. Hugað er að velsæld samfélags og gæðum í hinu byggða umhverfi og landnýting og skipulag byggða landsins hvetji til sjálfbærni í daglegu lífi og tryggi aðgengi að grunnþjónustu og fjölbreyttum atvinnutækifærum.
Stefna málefnasviðsins
Í gildi er langtímastefnumótun fyrir húsnæðis- og skipulagsmál. Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024–2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028. Þá hefur þingið samþykkt landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024–2038, auk aðgerðaáætlunar fyrir árin 2024–2028. Stefnurnar eru samhæfðar við aðrar opinberar áætlanir eftir því sem við á.
Stærsta áskorun samfélagsins í húsnæðismálum á komandi árum snýr að því að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði í jafnvægi við umhverfið til að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði. Til að koma til móts við þetta mun ríkisstjórnin ráðast í þjóðarátak í húsnæðisuppbyggingu þar sem áhersla verður lögð á að fjölga íbúðum með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði og auka húsnæðisöryggi fólks. Í því sambandi er bæði horft til bráðaaðgerða og aðgerða til lengri tíma. Má þar nefna aðgerðir til að tryggja að fleiri íbúðir nýtist sem heimili fólks, m.a. með breyttum reglum um skammtímaleigu íbúða, auk þess að liðka fyrir uppbyggingu á færanlegum einingarhúsum og umbreytingu atvinnuhúsnæðis í íbúðir. Enn fremur verða ríkislóðir nýttar til uppbyggingar auk þess sem ríkisstjórnin mun hvetja til aðkomu lífeyrissjóða að húsnæðismarkaði og til byggingar á nýjum íbúðahverfum, s.s. með heildstæðum samningum við sveitarfélög um lóðaframboð og innviðauppbyggingu. Huga þarf sérstaklega að áskorunum á landsbyggðinni með sérhæfðum lausnum.
Samhliða þarf að auka húsnæðisöryggi og jafnrétti landsmanna í húsnæðismálum með félagslegum jöfnuði og blöndun byggðar. Helstu verkfæri stjórnvalda í þeim efnum eru húsnæðisstuðningur hins opinbera og skýr stefna í húsnæðismálum. Í þessu skyni þarf með sérstökum aðgerðum að styðja við þau sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði, þ.e. tekju- og eignalægri einstaklinga og fjölskyldur, fyrstu kaupendur, heimili með þunga framfærslubyrði og þau sem búa við markaðsbrest á húsnæðismarkaði. Með því má skapa skilyrði til að allir hafi aðgengi að góðu og öruggu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði sem hentar mismunandi þörfum.
Ríkisstjórnin mun gera húsnæðisstuðning hins opinbera markvissari, m.a. með því að styðja við almenna íbúðakerfið og húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða. Á sama tíma og staða leigjenda verður styrkt með fjölgun almennra íbúða verður stutt við fyrstu kaupendur og þau sem hafa verið í fimm ár eða lengur á leigumarkaði með því að festa hlutdeildarlán í sessi og gera framkvæmd þeirra skilvirkari. Þá verða enn fremur stigin skref til að minnka vægi verðtryggingar.
Ríkisstjórnin ætlar einnig að ráðast í kerfisbreytingar til að einfalda regluverk og stjórnsýsluferla, tryggja greinargóðar upplýsingar um húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmál og vinna áfram að gæðum, öryggi og rekjanleika í mannvirkjagerð. Enn fremur verður ráðist í mikilvægar kerfisbreytingar til að auka réttarvernd neytenda vegna fasteignagalla.
Helstu áskoranir á sviði skipulagsmála snúa að tveimur meginþáttum. Í fyrsta lagi er þörf fyrir aukna skilvirkni við undirbúning skipulags og húsnæðisuppbyggingar. Í öðru lagi er þörf á betri og samræmdari upplýsingum um stöðu og þróun skipulagsmála, uppbyggingarheimilda á grunni skipulags, landnýtingar í dreifbýli og á miðhálendi Íslands og árangri við innleiðingu áherslna landsskipulagsstefnu 2024–2038. Fjölmörg tækifæri felast hins vegar í að setja í forgang upplýsingagjöf um stöðu skipulagsheimilda og þróun þeirra á hverjum tíma. Má þar nefna að skýra og skilvirka stjórnsýslu ákvarðanatöku um nýtingu hafsvæða, uppbyggingu og viðhald þjóðhagslega mikilvægra innviða, kortlagningu góðs ræktunarlands á landsvísu og að uppbygging ferðaþjónustumannvirkja verði innan þolmarka hálendisins.
Allt miðar ofangreint að því að tryggja að uppbygging húsnæðis og skipulag framtíðarinnar byggist á þörfum fólks og sé þannig að manngert umhverfi og umhverfið í kring mætist á ábyrgan hátt.
Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins
Helstu breytingar á útgjaldaramma á tímabilinu 2026–2030 er tímabundin aukning á stofnframlögum í 7,5 ma.kr. árið 2026 og 9,5 ma.kr. árið 2027. Að því loknu falla tímabundnar hækkanir niður og gert er ráð fyrir að stofnframlög til uppbyggingar almennra íbúða nemi 3,6 ma.kr. árin 2028–2030 með fyrirvara um endurskoðun verði þörfin þá metin hærri.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2026-2030
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.